Úthlutun úr Aski árið 2021

Innviðaráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra úthlutuðu styrkjum ársins 2021 til 23 verkefna á sviði mannvirkjagerðar úr Aski – mannvirkjarannsóknarsjóði, samtals að fjárhæð 95.000.000. kr., við hátíðlega athöfn í Veröld húsi Vigdísar 17, mars 2022.

Askur - mannvirkjarannsóknarsjóður veitir styrki til mannvirkja­rannsókna með áherslu á aukna þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta samfélagslegum áskor­unum á sviði mannvirkjagerðar.

Mannvirkjarannsóknasjóðurinn Askur er fjármagnaður af innviðaráðuneytinu og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu en umsýsla hans er í höndum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Sjóðurinn var stofnaður árið 2021 en umsóknarfrestur fyrir fyrstu úthlutun rann út 9. desember sama ár. Fjörutíu umsóknir bárust, samtals að upphæð 452 milljónir kr. Sérstakt fagráð var skipað til að meta umsóknir og gera tillögu að úthlutun til innviðaráðherra sem veitir styrkina samkvæmt reglum sjóðsins.

Áherslur sjóðsins snúa einkum að samfélagslegum áskorunum í byggingariðnaði, svo sem rakaskemmdum í mannvirkjum og aðgerðum til lækkunar kolefnisspors. Við hverja úthlutun verður horft til þarfa, eðlis og áskorana á sviði mannvirkjagerðar, áherslu á nýsköpun og markmiða um sjálfbærni.

Eingöngu var hægt að verða við 21% af umbeðnum styrkjum því er ljóst að eftirspurn er mun meiri en framboð. Umsóknirnar sýna að tækifærin eru til staðar til enn öflugri sóknar í öllum gæðaflokkum úthlutunar.

Loftslagsmál eru alltumlykjandi í öllum flokkum úthlutunar og eiga nánast öll verkefnin það sammerkt að hafa ávinning sem snýr að umhverfismálum á einn eða annan hátt.

Undirstrika má að byggingariðnaðurinn ber ábyrgð á um 40% af allri losun á heimsvísu og getur hann spilað stórt hlutverk einn og sér í að taka á framtíðaráskorunum tengdum loftslagsmálum. Þetta kvíslast niður í allar greinar byggingariðnaðarins eins og umsóknir í Ask - mannvirkjarannsóknasjóð bera með sér.