26. september 2025
26. september 2025
Tæpur helmingur leigjenda með íþyngjandi húsnæðiskostnað
- Stærsti hluti leigumarkaðarins samanstendur áfram af leigjendum sem leigja af einstaklingi
- Fleiri svarendur segjast fá húsnæðisbætur en í fyrra eftir að skerðingarmörk vegna eigna voru hækkuð
- Um 47 prósent leigjenda býr við íþyngjandi húsnæðiskostnað en hlutfallið lækkaði lítillega milli ára
Öryrkjar, stúdentar og fólk í hlutastarfi eru þeir þjóðfélagshópar sem líklegastir eru til að vera á leigumarkaði. Lengri vera á leigumarkaði auk hærra hlutfalls sem segist leigja af nauðsyn gefur til kynna að hópur þeirra sem sitja fastir á leigumarkaði hafi stækkað. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í árlegri leigumarkaðskönnun sem HMS lætur framkvæma.
Fjallað er um helstu niðurstöður könnunarinnar í ár í skýrslu sem nálgast má með því að smella á hnappinn hér að neðan.
Staðan á leigumarkaði 2025
Leigumarkaðskönnunin mælir fjárhag, viðhorf, bakgrunn og önnur atriði er varða stöðu leigjenda um allt land. Prósent sá um framkvæmd könnunarinnar fyrir HMS var gögnum safnað á tímabilinu 26. júní 2025 til 28. júlí 2025. Heildarfjöldi svarenda var 656 og svarhlutfallið í könnuninni var 49%.
Fleiri fá húsnæðisbætur í könnuninni í ár
Grunnfjárhæðir húsnæðisbóta hækkuðu um fjórðung þann 1. júní 2024, auk þess sem bæturnar taka nú til fleiri heimilismanna og skerðingamörk vegna eigna eru hærri.
Áhrif þessa koma einnig fram í niðurstöðum leigumarkaðskönnunarinnar í ár en helmingur svarenda sagðist fá húsnæðisbætur frá HMS í ár samanborið við 43% svarenda í fyrra. Hlutfallslega fleiri fá húsnæðisbætur á höfuðborgarsvæðinu eða 53% á móti 43% á landsbyggðinni. Talsverður munur er á hlutföllum kynjanna í þessu tilliti því um 59% kvenna sagðist fá húsnæðisbætur á meðan einungis um 39% karla sagðist þiggja bætur.
Lagabreytingin hefur haft mest áhrif meðal leigjenda sem eru með mánaðarlegar ráðstöfunartekjur á bilinu 800 til 999 þúsund krónur, en hlutdeild innan þess hóps sem fær greiddar húsnæðisbætur tæplega tvöfaldaðist milli ára, úr 18% í 34%.
Fleiri stúdentar búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað í ár
Tæplega helmingur leigjenda býr við íþyngjandi húsnæðiskostnað, eða 47%. Húsnæðiskostnaður telst íþyngjandi þegar hann a.m.k. 40% af ráðstöfunartekjum heimilis. Hlutfallið lækkar lítillega milli ára en það stóð í 50% í fyrra.
Sé skoðað eftir tegund leigusala er hlutfallið lægst meðal þeirra sem leigja af ættingjum og vinum, eða 24%, en hæst hjá þeim sem leigja af búseturéttarfélagi, eða 58%. Á það við um hvorutveggja árið í ár og í fyrra.
Athygli vekur að hlutfallslega fleiri stúdentar sem leigja námsmannaíbúðir á stúdentagörðum búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað í ár samanborið við í fyrra, en hlutfallið hækkaði úr 41% í 56% milli ára.
Opinn fundur um húsnæðisaðstæður aðfluttra
Líkt og fram kom í frétt HMS frá því í vor taldi stofnunin að um 37 þúsund fullorðnir gætu verið vantaldir á leigumarkaði vegna misræmis milli kannana um búsetu einstaklinga og eigendaskráningar úr fasteignaskrá. Grunur lá um að kannanirnar næðu ekki til erlendra íbúa nema að óverulegu leyti.
Sem liður í að bæta upplýsingasöfnun um stöðu erlendra íbúa á húsnæðismarkaði lét HMS framkvæma netkönnun meðal félagsmanna Eflingar, VR og Einingar-Iðju með ýmist erlent upprunaland eða ríkisfang. Fjallað verður um niðurstöður könnunarinnar og stöðu aðfluttra á húsnæðismarkaði á opnum fundi í húsakynnum HMS að Borgartúni 21, mánudaginn 29. september.