24. mars 2025

Almenn skráningarskylda mun draga úr vantalningu leigjenda

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Allt að 29 prósent fullorðinna íbúa á Íslandi gætu verið á leigumarkaði í stað 16 prósenta líkt og kemur fram í opinberum könnunum
  • Misræmi á milli búsetumælinga og upplýsingum úr fasteignaskrá má rekja til vantalningar á erlendum íbúum
  • Almenn skráningarskylda leigusamninga myndi bæta upplýsingagjöf til muna

Allt að 29 prósent fullorðinna íbúa á Íslandi gætu verið á leigumarkaði, í stað 16 prósenta líkt og kemur fram í opinberum könnunum um stöðu á húsnæðismarkaði. Þetta kemur fram þegar niðurstöður úr könnunum eru bornar saman við upplýsingar um eigendur fasteigna í fasteignaskrá. Frekari umfjöllun um vantalningu leigjenda má nálgast í mánaðarskýrslu HMS.

Áform ríkisstjórnarinnar um skráningarskyldu allra leigusamninga myndi leiðrétta vantalningu leigjenda. Þessa stundina eru einungis leigusalar sem hafa atvinnu af útleigu íbúðarhúsnæðis skyldaðir til að skrá leigusamninga sína og er því fjöldi einstaklingsleigusala undanþeginn skráningarskyldu.

Um 37 þús­und full­orðn­­­ir gætu ver­ið vantald­­ir á leig­u­­mark­aði

HMS telur að misræmið á milli kannana um búsetu einstaklinga og eigendaskráningar úr fasteignaskrá megi rekja til vantalningar á erlendum íbúum í könnununum. Erlendir íbúar eru ólíklegri en Íslendingar til að eiga fasteign hér á landi en samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá eiga 14 prósent fullorðinna erlendra íbúa fasteign á meðan 73 prósent fullorðinna íbúa sem eru ekki erlendir eiga fasteign.

Samkvæmt könnunum HMS á búsetuformi voru um 16 prósent fullorðinna á leigumarkaði árið 2024 og hafði þeim fjölgað úr 13 prósentum frá árinu 2020. Kannanir HMS bentu til þess að hlutdeild fullorðinna á leigumarkaði hafi verið 13-17 prósent á tímabilinu 2017-2024.

Ef gert er ráð fyrir að kannanir um búsetu hafi ekki náð til erlendra íbúa nema að óverulegu leyti og að 14 prósent þeirra eigi fasteign á meðan aðrir hafi verið á leigumarkaði má ætla að kannanirnar hafi vanmetið stærð leigumarkaðarins um tæpan helming. Þá væri um 29 prósent fullorðinna á leigumarkaði hérlendis í stað 16 prósenta líkt og mælingar úr könnunum HMS segja til um.

Áætlað er að kannanir hafi vanmetið stærð leigumarkaðarins um 13 prósentustig sem jafngildir rúmlega 37 þúsund fullorðnum einstaklingum. Áætlað vanmat á stærð leigumarkaðarins frá árinu 2017 má sjá á mynd hér að ofan. Líkt og myndin sýnir hefur vanmatið aukist eftir því sem erlendum íbúum hefur fjölgað.

Átak til að kort­­leggja stöðu er­­lendra á hús­næð­is­­mark­aði

Ekki liggja fyrir upplýsingar um heimilisaðstæður einstaklinga sem eru vantaldir á leigumarkaði, en að meðaltali eru um tveir fullorðnir einstaklingar á hverju heimili hérlendis. Þörf er á frekari greiningu á stöðu erlendra íbúa á húsnæðismarkaði og búsetu í atvinnuhúsnæði til að meta heildarumfang vantalinna leiguíbúða.

HMS hefur hafið átak í upplýsingasöfnun um stöðu erlendra íbúa á húsnæðismarkaði í samræmi við nýtt hlutverk sitt að halda leiguskrá. Liður í því átaki er að stuðla að aukinni gagnasöfnun meðal stækkandi hóps erlendra einstaklinga á Íslandi fyrir búsetukannanir, en erlendir einstaklingar eru líklegri til að vera á leigumarkaði en aðrir.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS