16. apríl 2025
16. apríl 2025
Nýskráðir leigusamningar á fyrsta ársfjórðungi 14 prósent fleiri en í fyrra
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Rúmlega 4.500 nýir leigusamningar tóku gildi í leiguskrá á fyrsta ársfjórðungi 2025, tæplega 14 prósent fleiri en á sama tímabili í fyrra
- Stórtækir íbúðareigendur eiga 21 prósent íbúða í Reykjavík og 26 prósent íbúða í Reykjanesbæ
- Á höfuðborgarsvæðinu er leiguverð lægra þar sem stórtækir íbúðareigendur eru umsvifameiri
Alls tóku 4.554 nýir leigusamningar gildi í leiguskrá HMS á fyrsta ársfjórðungi 2025 á sama tíma og 2.494 samningar féllu úr gildi. Gildum samningum fjölgaði þannig um 2.060 á tímabilinu. Til samanburðar tóku 3.968 nýir leigusamningar gildi á fyrsta ársfjórðungi árið 2024 og því fjölgaði nýskráningu leigusamninga á fyrsta ársfjórðungi um tæp 14 prósent milli ára. Þetta kemur fram í upplýsingum sem HMS hefur unnið upp úr leiguskrá.
Stórtækir íbúðareigendur umsvifamiklir í Reykjavík og Reykjanesbæ
Nýverið birti HMS nýtt mælaborð þar sem upplýsingar um eignarhald íbúða eftir sveitarfélögum eru gerðar aðgengilegar. Þar má meðal annars nálgast upplýsingar um fjölda og hlutfall íbúða í eigu einstaklinga og lögaðila eftir eignarfjölda. Skilgreina má stórtæka íbúðareigendur sem lögaðila sem eiga fleiri en eina íbúð og einstaklinga sem eiga 5 eða fleiri íbúðir.
Hlutfall íbúða í eigu stórtækra íbúðareigenda er hæst í Reykjavíkurborg (21 prósent) á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjanesbæ (26 prósent) í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Líkt og fram hefur komið hefur hlutfall íbúða í eigu lögaðila í Reykjavík rúmlega tvöfaldast frá árinu 2005 en lækkað talsvert á síðasta áratug í Reykjanesbæ.
Leiguverð lægra þar sem stórtækir íbúðareigendur eru umsvifameiri á höfuðborgarsvæðinu
Á meðfylgjandi mynd má sjá samband meðaltals heildarleiguverðs í öllum gildum samningum og hlutfalls íbúða í eigu stórtækra íbúðareigenda eftir sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess. Neikvæð fylgni er á milli hlutdeildar stórtækra íbúðaeigenda og leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu, á meðan engin fylgni er á milli þessara tveggja stærða í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.
Þessi mismunur skýrist að minnsta kosti að hluta til af ólíkri samsetningu lögaðila sem eiga og leigja út íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess. Til lögaðila teljast meðal annars óhagnaðardrifin leigufélög og sveitarfélög sem leigja út íbúðarhúsnæði á verði sem alla jafna er töluvert undir því verði sem almennt ríkir á leigumarkaði. Hins vegar teljast einnig til lögaðila önnur leigufélög sem hafa atvinnu af útleigu íbúðarhúsnæðis og láta verðsetningu ráðast af markaðsaðstæðum.
Á höfuðborgarsvæðinu, og þá sérstaklega í Reykjavíkurborg, er talsvert hærra hlutfall leiguíbúða á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga og sveitarfélaga en í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Þar sem starfsemi slíkra leigusala dregur niður meðalleiguverð virðist leiguverð lægra í sveitarfélögum þar sem stórtækir íbúðareigendur eru umsvifameiri á höfuðborgarsvæðinu.
Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins er vægi hagnaðardrifinna leigufélaga hins vegar meira en á höfuðborgarsvæðinu. Þar má ekki sjá neina augljósa fylgni á milli leiguverðs og hlutdeildar stórtækra leigusala.
Hægt er að nálgast meðalleigu íbúða í leiguverðsjá HMS, sem byggir á samningum úr Leiguskrá. Þar geta notendur valið landsvæði, sveitarfélag og póstnúmer leigueigna, fjölda herbergja og flatarmáls samnings. Einnig geta notendur síað leigusamninga eftir tegund leigusala og eftir því hvort samningar séu tímabundnir eða ekki.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS