25. nóvember 2025

Fyrsti Björnis huggunarbangsinn afhentur á Íslandi

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Að verða fyrir því óhappi að eldur kvikni á heimilum er erfið lífsreynsla, jafnt fyrir börn sem fullorðna. Öll slökkvilið landsins munu, á næstu dögum, fá Björnis huggunarbangsa til sín til að hafa til taks á dælubílum og afhenda börnum sem lenda í eldsvoðum, eða öðrum tilvikum þar sem slökkvilið er kallað til. Huggunarbangsinn veitir börnum öryggi og huggun sem lenda í slíkum atvikum og byggir upp traust milli barna og slökkviliðsmanna. Hann hefur reynst árangursríkt verkfæri í Noregi til að beina athygli barna frá streituvaldandi umhverfi og veita huggun.

Brunavarnir Skagafjarðar afhentu Kolbeini Ara Gíslasyni fyrsta Björnis huggunarbangsann á Íslandi. Þann 28. september sl. varð eldur á heimili Kolbeins Ara og móður hans þegar kviknaði í út frá eldavél. Þar sem nýbúið var að endurnýja reykskynjara urðu þau fljótt eldsins vör og gerðu heiðarlega tilraun til að slökkva eldinn sjálf. Þegar það gekk ekki, forðuðu þau sér út ásamt kettinum Dreka og hringdu samhliða í 112 sem boðaði slökkviliðið á vettvang. Öll komust þau heil á höldnu út og var eldurinn slökktur fljótlega eftir komu fyrstu viðbragðsaðila.

Huggunarbangsinn er einn af þremur meginþáttum í innleiðingu verkefnisins „Björnis brunabangsi“ en Björnis eða Bjössi eins og hann er stundum kallaður kemur frá Þrándheimi í Noregi. Með afhendingu fyrsta huggunarbangsans eru allir þættir í innleiðingu verkefnisins komnir í framkvæmd. Annar þátturinn  er uppfært fræðsluefni um brunavarnir fyrir elsta árgang leikskólabarna, þar sem Björnis brunabangsi er í aðalhlutverki, bæði í  fræðslumyndbandi og litabók sem dreift er til barnanna. Þriðji þátturinn er stóri Björnis bangsinn sem aðstoðar slökkvilið landsins við að vekja áhuga og athygli á forvörnum. Hann sendir frá sér fréttir, myndir og myndbönd og mætir á viðburði slökkviliðanna til þess að gleðja og fræða viðstadda.

Óhætt er að segja að Björnis hafi fengið frábærar móttökur hjá yngstu kynslóðinni, enda þekkja mörg börn Björnis brunabangsa úr sjónvarpsþáttum sem eru í sýningu á RÚV.

 

Markmið verkefnisins er að efla forvarnir og fræðslu en um er að ræða stórt og metnaðarfullt verkefni sem hefði ekki orðið að veruleika án aðkomu góðra styrktaraðila.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS