20. desember 2024
5. febrúar 2024
Nýjar íbúðir nægja ekki vaxandi íbúðaþörf
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Nýjum fullbúnum íbúðum fjölgaði um 3.079 í fyrra
- Íbúðum hefði þurft að fjölga um að minnsta kosti 4.000 til að uppfylla íbúðaþörf ársins
- Samdráttur í húsnæðisuppbyggingu bendir til þess að enn muni draga úr framboði á nýju húsnæði á næstu árum
Nýjum fullbúnum íbúðum fjölgaði um 3.079 í fyrra, sem var ekki nægilegt til að svala íbúðaþörf á landinu. Íbúðir munu heldur ekki ná að svala íbúðaþörf á þessu ári, miðað við núverandi stöðu íbúðauppbyggingar á landinu. Þetta eru niðurstöður úr nýlegri skoðun HMS á íbúðum í byggingu.
Nýjum íbúðum fjölgaði eftir hækkun á hámarksverði hlutdeildarlána
HMS framkvæmdi síðast íbúðatalningu á landinu öllu í september á síðasta ári, en samkvæmt henni var búist við 2.838 fullbúnum íbúðum það árið. Niðurstaða ársins var því meiri fjölgun nýrra fullbúinna íbúða en HMS hafði áður spáð.
Líkt og HMS hefur áður greint frá hækkuðu stjórnvöld hámarksverð íbúða og tekjuviðmið umsækjenda fyrir hlutdeildarlán í júní í fyrra, auk þess sem úthlutunartímabilum á lánunum fjölgaði. Í kjölfar þessara breytinga jókst aðsókn í hlutdeildarlánin, sem eru til kaupa á nýjum íbúðum, en HMS telur að sú aukning hafi skilað sér í hraðari innkomu nýrra íbúða á íbúðamarkað á síðasta ársfjórðungi en stofnunin gerði ráð fyrir í síðustu íbúðatalningunni sinni.
Fjölgun nýrra íbúða uppfyllir ekki íbúðaþörf
Samkvæmt miðspá íbúðaþarfagreiningar sem HMS birti í október síðastliðnum þyrfti íbúðum að fjölga um tæplega 20.000 á næstu fimm árum, en það jafngildir tæplega 4.000 íbúða fjölgun á hverju ári. Þarfagreiningin byggir á húsnæðisáætlunum sveitarfélaga sem endurskoðaðar eru árlega.
Íbúðafjölgun um 4.000 á ári er einnig í samræmi við rammasamning um að auka framboð íbúða á árunum 2023-2032, sem ríki og sveitarfélög undirrituðu árið 2022. Samkvæmt samningnum þyrfti að byggja 35.000 íbúðir til að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf á tímabilinu og að lágmarki 4.000 íbúðir á ári fyrstu fimm árin.
Hagstofan hefur tilkynnt að hún muni gefa út mannfjöldatölur byggðar á endurbættri aðferð, þar sem í ljós hefur komið að mannfjöldi hafi verið ofmetinn í síðasta manntali. Hins vegar telur HMS að slík endurskoðun muni ekki breyta mati HMS á íbúðaþörf, sem verður fyrir meiri áhrifum af fjölgun fólks í stað mannfjölda á hverju ári.
Íbúðatalning HMS gefur merki um meiri samdrátt í framboði nýrra íbúða
Í byrjun síðasta árs voru vísbendingar uppi um að íbúðauppbygging væri að dragast saman, en könnun Samtaka iðnaðarins (SI) á meðal félagsmanna sinna frá vormánuðum 2023 sýndi 65 prósent samdrátt áforma um uppbyggingu nýrra íbúða á árinu. Íbúðatalning HMS síðastliðinn september sýndi fram á svipaðan samdrátt, en samkvæmt henni var umfang nýrra íbúðaframkvæmda 70 prósentum minna en á sama tíma árið 2022.
Ný könnun SI sem var framkvæmd í lok síðasta árs gefur til kynna að íbúðauppbygging muni dragast saman um 15 prósent til viðbótar í ár, sem myndi þýða um 75 prósenta samdrátt í íbúðauppbyggingu frá árinu 2022.
Yfirvofandi samdráttur á byggingarmarkaði bendir til þess að framboð nýrra íbúða á húsnæðismarkaði muni dragast enn frekar saman á næstu árum og ekki vera nálægt því að uppfylla íbúðaþörf samkvæmt þarfagreiningu HMS.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS