21. nóvember 2024
12. júlí 2022
Rammasamningur um aukið framboð íbúða á árunum 2023-2032
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Í dag var undirritaður rammasamningur milli ríkis og sveitarfélaga um að auka framboð íbúða á árunum 2023-2032. Samningurinn markar tímamót sem fyrsti samningur sinnar tegundar þar sem ríki og sveitarfélög sammælast um stefnu og markvissar aðgerðir til að tryggja uppbyggingu íbúða í samræmi við þörf ólíkra hópa, þar á meðal þeirra tekju- og eignaminni.
Í dag var undirritaður rammasamningur milli ríkis og sveitarfélaga um að auka framboð íbúða á árunum 2023-2032. Samningurinn markar tímamót sem fyrsti samningur sinnar tegundar þar sem ríki og sveitarfélög sammælast um stefnu og markvissar aðgerðir til að tryggja uppbyggingu íbúða í samræmi við þörf ólíkra hópa, þar á meðal þeirra tekju- og eignaminni.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Hermann Jónasson, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) skrifuðu með fleiri fulltrúum ríkis og sveitarfélaga undir rammasamninginn. Samningurinn byggir m.a. á niðurstöðum starfshóps um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði, sem kynntar voru í maí sl., og skipaður var fulltrúum ríkis, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins.
Tilgangur rammasamningsins er að auka framboð nýrra íbúða til að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf ólíkra hópa samfélagsins til skemmri og lengri tíma og stuðla að auknum stöðugleika og jafnvægi á húsnæðismarkaði á næstu tíu árum.
Meginmarkmið rammasamnings ríkis og sveitarfélaga
Í samningnum eru sett fram fjögur meginmarkmið en hverju þeirra fylgja skilgreindar aðgerðir, alls 24 í aðgerðaáætlun sem fylgir samningnum.
1. Uppbygging í samræmi við þörf
Ríki og sveitarfélög sammælast um það að byggja þurfi 35.000 íbúðir til þess að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf á árunum 2023 til 2032 en einnig til að mæta óuppfylltri íbúðaþörf. Á tímabilinu þurfi því að lágmarki að byggja 4.000 íbúðir á ári fyrstu fimm árin og 3.500 íbúðir á ári síðari fimm árin.
2. Framboð íbúða á viðráðanlegu verði
Ríki og sveitarfélög sammælast einnig um sérstaka áherslu á uppbyggingu hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði og að hlutfall þeirra verði að jafnaði um 30% nýrra íbúða. Markmið þess er að mæta þörfum ýmissa samfélagshópa, s.s. leigjenda, fyrstu kaupenda og fólks sem er tekju- og eignaminna.
Þá er sammælst um að á samningstímanum verði félagsleg húsnæðisúrræði að jafnaði sem næst 5% af öllu nýju húsnæði. Með félagslegu húsnæðisúrræði er átt við íbúðir sem sveitarfélagi ber lagaleg skylda til að útvega einstaklingum eða fjölskyldum.
Loks er kveðið á um það að ráðist verði í sérstakt átak til að eyða biðlistum eftir sértækum húsnæðisúrræðum fyrir fatlað fólk. Með sértæku húsnæðisúrræði er átt við íbúðir ætlaðar fyrir fatlað fólk sem hefur verið metið í mikilli þörf fyrir stuðning á eigin heimili.
3. Húsnæðisáætlanir lykilstjórntæki
Stafrænar húsnæðisáætlanir verða lykilstjórntæki ríkisins og sveitarfélaga til að halda utan um markmið um uppbyggingu íbúða á landsvísu. Ein grundvallarforsenda samningsins er að sveitarfélög taki þátt og hlutist til um að útvega byggingarhæfar lóðir til samræmis við húsnæðisáætlanir og að ríkið leggi til fjármuni í húsnæðisstuðning til þess að unnt sé að ná markmiðum á samningstímanum.
HMS mun vinna að gerð húsnæðisáætlana með sveitarfélögum um land allt. Gerðir verða samningar við einstök sveitarfélög með það að markmiði að auka lóðaframboð ásamt því að veita nauðsynlegan fjárstuðning til að tryggja íbúðauppbyggingu.
4. Einn ferill um húsnæðisuppbyggingu
Ríki og sveitarfélög sammælast loks um að endurskilgreina lögbundna ferla og verklag í skipulags- og byggingarmálum er varða uppbyggingu á íbúðahúsnæði. Lögð er áhersla á að sameiginlegt meginmarkmið löggjafar verði að tryggja landsmönnum öllum aðgengi að öruggu húsnæði.
Í samningnum segir að með því að samþætta marga ferla í einn megi öðlast betri yfirsýn, áætlunargerð verði markvissari og auka megi hagkvæmni, sem til framtíðar leiði til aukins stöðugleika á húsnæðismarkaði.
Fjölbreyttar aðgerðir
Settar eru fram 24 aðgerðir í aðgerðaáætlun með samningnum. Dæmi um aðgerðir eru:
- Frumvarp lagt fram um breytingar á skipulagslögum á haustþingi 2022, m.a. til að lögfesta heimild sveitarfélaga til að skilyrða notkun lands til uppbyggingar hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði óháð eignarhaldi lóðar. (A6)
- Átak gert til að útrýma óviðunandi húsnæði, m.a. á atvinnusvæðum og íbúðarhúsnæði þar sem kröfur um öryggi eru ekki uppfylltar. (C5)
- Ferlar við gerð deiliskipulags og veitingu byggingarleyfis verði samþættir. (D2)
- Ferlar við gerð aðalskipulags og húsnæðisáætlana verði samþættir. (D3)
- Frumvarp samið um að tímabinda uppbyggingarheimildir á grundvelli samþykkts deiliskipulags. (D6)
Nánari upplýsingar:
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS