20. desember 2024
3. október 2022
Ný greining á íbúðum í byggingu
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
SI: „Langþráð að annar taki við að telja íbúðir í byggingu“
HMS mun sjá um að birta upplýsingar um íbúðir í byggingu
- Talningin verður nútímavædd, með samtengingu við mannvirkjaskrá HMS.
- Þetta var kynnt á sameiginlegum fundi SI og HMS fyrr í dag.
- Nýjar tölur sýna fjölgun íbúða í byggingu. Þær eru nú 8.113 á landinu öllu.
- Í Reykjavík stendur uppbygging í stað samkvæmt nýjustu talningu en Hafnarfjörður vex hraðast. Þá er mikil fjölgun í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.
- Árið 2023 og 2024 verða 6.375 íbúðir fullbúnar sem nú eru í byggingu.
- Rammasamningur kveður á um byggingu allt að 35.000 íbúða á næstu tíu árum.
Næsta ár verður fyrsta árið þar sem Samtök iðnaðarins munu ekki lengur aka um helstu sveitarfélög landsins og telja íbúðir í byggingu, en Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) tekur þá við að birta upplýsingar um íbúðir í byggingu. Niðurstaða nýjustu talningarinnar var kynnt á sameiginlegum fundi HMS og SI í dag.
Samtök iðnaðarins hafa staðið fyrir talningunni í rúmlega áratug og var hún lengi vel einu haldbæru upplýsingarnar um hversu margar íbúðir væru í byggingu og hversu langt þær væru komnar í byggingu. Samtökin hafa lengi bent á að þetta verkefni ætti frekar heima hjá hinu opinbera og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI segir það langþráð að einhver annar taki við talningunni. „Þá er jafnframt jákvætt að talningin verði stafræn héðan í frá með samkeyrslu upplýsinga á einum stað. Þetta sýnir vel hvað það hafa orðið miklar umbætur á umgjörð húsnæðismála á undanförnum árum, meðal annars í gegnum HMS og flutning verkefna þangað.“
Ætlunin er að Mannvirkjaskrá HMS komi í staðinn fyrir, en þar munu upplýsingar um íbúðir í byggingu og stöðu þeirra birtast í gegnum rafrænar skráningar byggingarfulltrúa í hverju sveitarfélagi. Mannvirkjaskráin, sem er opin öllum á vef HMS, var opnuð í nóvember í fyrra og mun uppfærð útgáfa vera opnuð fljótlega. Í uppfærðri útgáfu mun vera hægt að nálgast upplýsingar um íbúðir í byggingu og stöðu þeirra í því sem næst rauntíma í öllum sveitarfélögum landsins. Þá mun HMS eftir flutning fasteignaskrár til HMS vinna með sveitarfélögum landsins í því að skráningar íbúða verði tímanlegri í þeim tilgangi að birta raunstöðu þeirra.
Hermann Jónasson, forstjóri HMS: „Við höfum verið að hagræða með því að færa skyld verkefni á sama stað í stjórnsýslu húsnæðismála og sú hagræðing gefur okkur tækifæri á að fjárfesta í aukinni þjónustu við alla þá sem koma að fasteignamarkaðinum. Nú síðast fluttist fasteignaskráin til HMS frá Þjóðskrá Íslands og við erum að fjárfesta í auknu aðgengi að öllum mögulegum gögnum tengt fasteignum og mannvirkjum í gegnum bæði vefinn og app. Það er mín trú, og fjölmargra annarra, að með þessu sköpum við aukið hagræði hjá bæði byggingaraðilum og opinberum aðilum sem þurfa að nálgast þessi gögn. Á endanum mun það leiða til minni byggingarkostnaðar og lægra fasteignaverðs. Til þess erum við að þessu.“
Teikn á lofti um meiri stöðugleika – 8.113 íbúðir í byggingu
Nýjustu tölur úr Mannvirkjaskrá HMS sem birtar voru í dag sýna að íbúðum í byggingu er að fjölga. Þær eru nú 8.113 á landinu öllu. Þá hefur í fyrsta sinn verið gerður sérstakur rammasamningur um framboð íbúða með aðild ríkisins og sveitarfélaga landsins. Honum er ætlað að auka stöðugleika á fasteignamarkaði og fjölga byggingu íbúða næstu tíu árin. Með samningnum eru ríki og sveitarfélög að sammælast um stefnu og aðgerðir með áætlun til lengri tíma til að tryggja uppbyggingu íbúða í samræmi við þörf. Við undirritun samningsins sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, að með þessu væri stigið stórt skref í átt að jafnvægi og öryggi á húsnæðismarkaði. Alls kveður samningurinn á um fjölgun íbúða um 20.000 á næstu fimm árum og 35.000 íbúðir á tíu árum. Endurskoðuð spá HMS um íbúðaþörf getur þó haft áhrif á heildarfjöldann, til lækkunar eða hækkunar.
Mest aukning í íbúðabyggingu í Hafnarfirði
Nýjasta talning íbúða í byggingu sýnir að uppbygging eykst mest í Hafnarfirði en hún stendur því sem næst í stað í Reykjavík. Þá er mikil fjölgun í nágrenni höfuðborgarsvæðisins svo sem í Sveitarfélaginu Árborg, Reykjanesbæ og Akraneskaupstað.
Samkvæmt spá HMS sem byggir á talningunni þá verða 6.375 íbúðir af þeim sem nú eru í byggingu fullbúnar á árunum 2023 og 2024.
Sjá kynningu frá fundinum ásamt ítarlegri greiningu HMS og SI í viðhengi hér að neðan með nánari tölum um fjölgun íbúða.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS