14. október 2025

Ný mannfjöldaspá dregur úr íbúðaþörf  til lengri tíma

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Ný mannfjöldaspá Hagstofu dregur úr metinni íbúðaþörf til ársins 2050
  • HMS metur nú  íbúðaþörf nálægt 4.000 íbúðum á hverju ári
  • Í nýrri mannfjöldaspá Hagstofu er gert ráð fyrir 26.000 færri íbúum árið 2050 en gert var ráð fyrir í spánni frá því í fyrra

HMS hefur endurskoðað mat sitt á íbúðaþörf í ljósi útgáfu nýrrar mannfjöldaspár Hagstofu Íslands í síðustu viku. Samkvæmt uppfærðri spá telur HMS að byggja þurfi að meðaltali um 4.000 íbúðir á ári fram til ársins 2050 til þess að uppfylla íbúðaþörf, en fyrra mat benti til þess að árleg íbúðaþörf væri yfir 4.500 íbúðum á ári. Árlegar breytingar Hagstofu á mannfjöldaspá hafa áhrif á íbúðaþörf á hverjum tíma.

Upp­fært mat á ár­legri íbúða­þörf lægra en áður

Mat HMS á íbúðaþörf byggir á mannfjöldaþróun og spá um heimilisstærð. Í neðri mörkum matsins er gert ráð fyrir að meðalheimilisstærð hér á landi þróist með sambærilegum hætti og hún gefur gert á hinum Norðurlöndunum og fari niður í 2,1 árið 2050. Í efri mörkum matsins er gert ráð fyrir að áætluð íbúðaskuld síðustu ára verði einnig unnin upp og að íbúum á hverju heimili fækki niður í 2 árið 2050.

Miðað við miðspá mannfjöldaspár Hagstofu má því gera ráð fyrir að byggja þurfi í kringum 4.500 íbúðir á ári á fyrri hluta spátímabilsins, en um 3.500 íbúðir á seinni hluta þess. Að meðaltali þurfi því að byggja um 4.000 íbúðir á ári fram til ársins 2050.

Fyrra mat HMS á íbúðaþörf benti til þess að byggja þyrfti á bilinu 4.500 – 5.000 íbúðir á ári fram til ársins 2050. Matið byggði á mannfjöldaspá frá árinu 2024 sem var gefin út í nóvember í fyrra. Stuttu áður hafði HMS hins vegar kynnt mat sitt á íbúðaþörf byggt á mannfjöldaspá frá árinu 2023. Samkvæmt því var þörf á að byggja um 4.000 íbúðir á ári fram til ársins 2050.

Lang­tíma­við­mið og í sam­ræmi við áætl­an­ir sveit­ar­fé­laga

Íbúðaþörf er langtímaviðmið um þörf á íbúðauppbyggingu á hverju ári út frá fólksfjölgun og lýðfræðilegum þáttum. Íbúðaþörfin er hins vegar ekki alltaf jöfn eftirspurn eftir íbúðum, sem getur tekið miklum sveiflum á milli ára vegna efnahagslegra aðstæðna. Sömuleiðis getur dregið úr metinni íbúðaþörf ef fólksfjölgun er undir spám Hagstofu og sveitarfélaganna sem fram kemur í húsnæðisáætlunum þeirra.

Niðurstöðurnar eru í samræmi við mat sveitarfélaga samkvæmt húsnæðisáætlunum, en hægt er að nálgast þær í mælaborði húsnæðisáætlana á vef HMS. Samkvæmt miðspá í húsnæðisáætlunum sveitarfélaganna er áætlað að þörf verði á yfir 4.000 nýjum íbúðum á hverju ári.

Niðurstöðurnar eru einnig í samræmi við markmið í rammasamningi um að auka framboð íbúða á árunum 2023-2032, sem ríki og sveitarfélög undirrituðu árið 2022. Samkvæmt samningnum þyrfti að byggja 35.000 íbúðir til að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf á tímabilinu og að lágmarki 4.000 íbúðir á ári fyrstu fimm árin.

Ný mann­fjölda­spá ger­ir ráð fyr­ir minni fólks­fjölg­un

Ný mannfjöldaspá Hagstofu Íslands gerir ráð fyrir að landsmenn verði 535 þúsund talsins árið 2050, um það bil 26 þúsund færri en gert var ráð fyrir í mannfjöldaspá Hagstofu frá því í fyrra og um 13 þúsund færri en samkvæmt mannfjöldaspá frá árinu 2023.

Mannfjöldaspáin gerir ráð fyrir fremur kröftugri fólksfjölgun í upphafi spátímabilsins, eða um 1,85% á ári að meðaltali fram til ársins 2030. Þegar líður á spátímabilið er þó gert ráð fyrir hægari fólksfjölgun, allt niður í um 0,6% ár ári undir lok spátímabilsins.

Samkvæmt nýju spánni er gert ráð fyrir að landsmönnum muni fjölga um tæplega 8.000 í ár. Á fyrri helmingi ársins fjölgaði landsmönnum þó einungis um tæplega 2.400 og þyrfti því mikil fólksfjölgun að eiga sér stað á síðari helmingi ársins til að spá Hagstofu gangi eftir.

HMS hefur áætlað, út frá forsendum um óbreytta fólksfjölgun að teknu tilliti til árstíðarsveiflna, að íbúum muni fjölga um rúmlega 6.000 í ár. Í því tilviki væri íbúðaþörf í ár nær 3.000 íbúðum í stað 4.000 íbúða.

Minnk­andi frjó­semi og aukn­ar lífslík­ur

Hagstofan gerir ráð fyrir áframhaldandi öldrun þjóðarinnar sem stafar af minnkandi frjósemi og auknum lífslíkum. Samkvæmt miðspá Hagstofu mun hlutfall íbúa sem eru 60 ára eða eldri hækka úr 21% árið 2025 í um 26% árið 2050 en hlutfall íbúa sem eru 20 ára eða yngri mun lækka úr 26% árið 2025 niður í 20% árið 2050. Gert er ráð fyrir að íbúar 20 ára og yngri verði orðnir færri en íbúar 60 ára og eldri árið 2038.

Búast má við minnkandi heimilisstærð eftir því sem íbúum yfir sextugu fjölgar hlutfallslega umfram aðra aldurshópa. HMS gerir ráð fyrir því að flestir íbúar sem eru 60 ára og eldri búi í einmennings- eða tvímenningsheimilum og að heimilisstærð í þeim aldursflokki sé því undir 2 að meðaltali. Sömuleiðis gerir HMS ráð fyrir því að flestir íbúar sem eru 20 ára og yngri búi með foreldrum sínum og að heimilisstærð í þeim  aldursflokki sé yfir 3 að meðaltali.

Að sögn Hagstofu er öldrun þjóðarinnar þó hægari á Íslandi en í ríkjum ESB vegna ungs aldurs erlendra ríkisborgara sem flytjast til landsins og hás frjósemishlutfalls miðað við meðaltal innan sambandsins.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS