28. nóvember 2024
5. nóvember 2024
Þörf á um fjögur þúsund nýjum íbúðum á hverju ári
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Lækkandi fæðingartíðni og hærri lífaldur kalla á uppbyggingu fleiri íbúða en sem nemur mannfjölgun á næstu áratugum
- Gera má ráð fyrir að byggja þurfi um 4.000 íbúðir á hverju ári til ársins 2050 til þess að sinna íbúðaþörf
- Íbúðatalningar benda til mikillar fækkunar nýrra fullbúinna íbúða árið 2026
Fjölgun íbúa yfir sextugu, samhliða hlutfallslegri fækkun íbúa undir tvítugu getur leitt til þess að íbúum á hverju heimili fækkar hérlendis úr 2,4 niður í 2 árið 2050. Til þess að halda í við þá þróun og vænta mannfjölgun þyrfti að byggja um 4.000 íbúðir á hverju ári. Þetta er á meðal þess sem kom fram á fundi HMS um íbúðaþörf, sem haldinn var 31. október síðastliðinn.
Á fundinum fjallaði Jónas Atli Gunnarsson hagfræðingur hjá HMS um íbúðaþörf og íbúða eftirspurn og Sigurður Stefánsson framkvæmdastjóri Aflvaka þróunarfélags um öldrun þjóðar og íbúðaskuld. Hægt er að nálgast upptöku af fundinum með því að smella á þennan hlekk.
Heimili hafa minnkað á Norðurlöndum
Í ljósi breyttrar aldurssamsetningar og minnkandi heimilisstærðar á Íslandi má gera ráð fyrir aukinni eftirspurn eftir húsnæði á næstu áratugum. Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar mun fjöldi Íslendinga yfir sextugu fara fram úr fjölda þeirra undir tvítugu árið 2049. Með færri börnum á hverju heimili og aukinni lífslengd minnkar meðalstærð heimila, sem leiðir til þess að þörf sé á fleiri íbúðum til að hýsa sama fjölda íbúa.
Sama þróun hefur átt sér stað á Norðurlöndunum þar sem heimilisstærð hefur minnkað með færri barneignum og öldrun þjóðar. Þrátt fyrir sömu þróun hér á landi og annars staðar, eru heimili hér á landi töluvert fjölmennari en á hinum Norðurlöndunum. Meðalfjöldi íbúa á heimili eru um 2,4 á Íslandi en í kringum 2,1 á Norðurlöndunum.
Íbúum á hverri íbúð fækkar
HMS hefur áætlað heimilisstærð næstu ára á Íslandi út frá sögulegri fylgni á milli íbúðafjölda og aldurssamsetningar á Norðurlöndunum síðustu áratugina, ásamt spágildum úr mannfjöldaspá Hagstofunnar.
Á mynd hér að neðan má sjá meðalfjölda íbúa í hverri fullbúinni íbúð frá árinu 1994, auk spár HMS á íbúðastærð til ársins 2050, en þá áætlar HMS að íbúum í hverri íbúð fækki úr 2,4 niður í 2 til 2,15.
Heimilisstærð yrði 2,15 ef aldursdreifing hér á landi verður í samræmi við mannfjöldaspá Hagstofu og Ísland fylgir sömu þróun og hin Norðurlöndin hafa gert samhliða slíkum breytingum. Heimilisstærðin yrði hins vegar um 2 ef Ísland myndi einnig vinna á móti þeirri íbúðaskuld sem hefur safnast upp á síðustu árum, en HMS telur að hún nemi á bilinu 10-15 þúsund íbúðum.
Með færri íbúum í hverju heimili er þörf á uppbyggingu fleiri íbúða en sem nemur mannfjölgun. Ef spár HMS ganga eftir væri íbúðaþörf næstu ára vanmetin um allt að 40 prósent ef ekki er tekið tillit til breyttrar heimilisstærðar samhliða lýðfræðilegri þróun.
Í samræmi við húsnæðisáætlanir sveitarfélaga
Spár HMS um minnkandi heimilisstærð og mannfjöldaspá Hagstofu bendir til þess að þörf verði á um 4.000 nýjum íbúðum á ári til ársins 2050 til að meta bæði fólksfjölgun og minnkandi heimilisstærð. Spáin er í samræmi við miðspá um íbúðaþörf í húsnæðisáætlunum sveitarfélaga næstu tíu árin og markmið ríkis og sveitarfélaga samkvæmt rammasamningi um aukna uppbyggingu íbúða.
Þrátt fyrir metuppbyggingu á árunum 2019-2023, þar sem meðalfjöldi fullbúinna íbúða jókst um tæplega 3.000 á ári, er útlit fyrir að uppbyggingin nái ekki að halda í við þörfina til lengri tíma. Ný íbúðatalning hjá HMS bendir til að nýbyggingar verði umtalsvert færri árið 2026, þar sem spáð er um 2.400 nýjum íbúðum það ár.
Ef þróunin heldur áfram án viðeigandi uppbyggingar getur skapast framboðsskortur sem þrýstir upp fasteigna- og leiguverði, sem gæti haft neikvæð áhrif á almennt húsnæðisöryggi.
Hægt er að horfa á upptöku af fundi HMS í spilaranum hér að neðan.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS