30. september 2024

Ný leiguverðsjá er komin út á vef HMS

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • HMS hefur birt nýja leiguverðsjá sem byggir á samningum úr leiguskrá HMS
  • Með verðsjánni er hægt að nálgast upplýsingar um leiguverð eftir stærð, staðsetningu og tegund leiguíbúða með aðgengilegum hætti
  • Leiguverðsjáin getur stuðlað að auknu jafnvægi á leigumarkaði með því að hjálpa leigutökum og leigusölum að finna markaðsverð sambærilegra leigueigna

Ný leiguverðsjá er nú komin út á vef HMS, en hana má nálgast með því að smella hér. Með leiguverðsjánni geta leigusalar og leigutakar nálgast upplýsingar um markaðsverð íbúða og fjölda leigusamninga í hverjum mánuði.

Hér að neðan má sjá skjáskot að leiguverðsjánni, en hún sýnir meðaltal leiguverðs nýskráðra leigusamninga eftir mánuðum, landshluta, sveitarfélagi, tegund leigusala, herbergjafjölda, stærð og samningsgerð.

Vegna persónuverndarsjónarmiða birtir leiguverðsjáin ekki verð einstakra leigusamninga og munu notendur því einungis geta nálgast upplýsingar um leiguverð ef fimm eða fleiri samningar hafa verið gerðir með sambærilegt húsnæði í tilteknum mánuði.

Bygg­ir á öll­um samn­ing­um í Leigu­skrá

Leiguverðsjáin byggir á samningum úr nýrri leiguskrá HMS, en hún hefur að geyma um 22 þúsund gilda samninga. HMS hélt áður utan um vefsjá leiguverðs á vef fasteignaskrár, en sú vefsjá byggði aðeins á þinglýstum leigusamningum.

Við breytingu húsaleigulaga sem tóku gildi 1. janúar 2023 féllu skilyrði um þinglýsingu leigusamninga út fyrir leigjendur sem ætluðu sér að sækja um húsnæðisbætur. Í kjölfarið fækkaði nýjum þinglýstum leigusamningum umtalsvert og tók HMS því vefsjá leiguverðs af vef fasteignaskrár.

Leiguskráin, sem nýja leiguverðsjáin byggir á, er hluti af húsnæðisgrunni HMS sem heldur utan um gögn og upplýsingar um húsnæðismál. Öllum leigusölum sem leigja út fleiri en tvær íbúðir, er skylt að skrá húsaleigusamning um íbúðarhúsnæði í húsnæðisgrunninn. Sömuleiðis inniheldur leiguskráin rafræna húsaleigusamninga.

Eyk­ur upp­lýs­inga­gjöf um mark­aðs­verð leigu­hús­næð­is

Samkvæmt nýjum húsaleigulögum sem tóku gildi í byrjun september geta bæði leigjendur og leigusalar farið fram á breytingu á leiguverði eftir að tólf mánuðir eru liðnir frá undirritun samnings ef þeir vilja samræma leiguverð við markaðsverð á sambærilegu húsnæði. Frekari upplýsingar um lagabreytinguna má finna hér.

Ný leiguverðsjá bætir upplýsingagjöf um leigumarkaðinn og geta því bæði leigjendur og leigusalar fengið betri upplýsingar um markaðsleigu, þar sem hægt verður að sjá þróun leiguverðs á ýmsum tegundum leiguhúsnæðis yfir tíma.  Leiguverðsjáin er einnig nytsamlegt verkfæri fyrir alla sem stunda greiningar á leigu- og húsnæðismarkaði á Íslandi eða hafa áhuga á þróun húsnæðismála. Gefst þeim nú tækifæri að greina stöðuna á leigumarkaði með áreiðanlegum upplýsingum á hverjum tímapunkti.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS