28. janúar 2026

Byggjum grænni framtíð – kolefnisspor loftræsikerfa

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Vegna loftslagsvárinnar þarf að gjörbreyta því hvernig við mætum húsnæðisþörf. Ljóst er að borgir víðs vegar um heiminn þurfi að minnka losun vegna mannvirkjagerðar um 90% á næstu 20-40 árum til að ná markmiðum um að halda hlýnun jarðar innan 2°. Þetta krefst meiri breytinga en að rafvæða gröfur og gera byggingar orkunýtnari – þörf er á því að minnka notkun byggingarefna sem losa mikið í framleiðsluferlinu, eins og sement og stál. Þetta kallast innbyggt kolefni byggingarinnar. Vegvísir að vistvænni mannvirkjagerð 2030 á vegum samstarfsverkefnisins Byggjum grænni framtíð setur fram markmið um að draga úr losun frá innbyggðu kolefni í nýbyggingum um 55% fyrir árið 2030.

Til þess að tryggja þennan samdrátt þarf að skoða hluti eins og:

  • Tegund húsnæðis – byggja þarf fleiri fjölbýlishús en einbýli, því fjölbýlishús nota minna byggingarefni á hvern notanda
  • Áætlaðan mannfjölda – því fleiri sem búa á Íslandi því meira þarf að byggja og því minni losun þarf að vera á hverja byggða íbúð til að ná markmiðum Vegvísisins.
  • Fermetrar á mann – tvöfalt stærri hús losa sirka tvöfalt meira. Auðveldara er að draga úr fjölda fermetra á mann þegar fleiri búa saman
  • Hvernig efni við notum til að byggja úr – við þurfum að velja efni sem hefur lítið kolefnisspor, er endurnotað, eða hreinlega kolefnisgeymsla eins og timbur. Þetta á sérstaklega við um burðarvirkið, sem er kolefnisfrekasti byggingarhlutinn

Til þess að ná markmiðunum um að minnka losun frá byggingageiranum eru í Vegvísinum 90 aðgerðir sem unnið er að. Ein þeirra er að rannsaka möguleikana á að setja kröfu um uppsetningu stýrðra loftræsikerfa með varmaendurvinnslu í ákveðnum flokkum nýbygginga.

Ljóst er að stýrð loftræsing með varmaendurvinnslu stóreykur gæði innilofts, og hefur þar af leiðandi jákvæð áhrif á heilsu notenda. Hins vegar, ef þetta er skoðað út frá umhverfissjónarmiðum kemur í ljós að kolefnisspor bygginga yrði líklega hærra þótt orkunotkun myndi minnka. Loftræsikerfi eru oft búin til úr efnum sem hafa hátt kolefnisspor, og orkan okkar hér á landi hefur lágt kolefnisspor. Hægt er að reikna endurgreiðslutíma kolefnissporsins með því að bera saman losun frá framleiðslu loftræsikerfisins með varmaendurvinnslu við losun sem sparast á því að nota minni orku. Hér eru nokkur dæmi:

  • Þórunn Nanna Ragnarsdóttir skoðaði meðal annars þessa þætti í M.Sc. ritgerð sinni með gerð lífsferilsgreininga (LCA) og orkuútreikningum. Niðurstöður voru að losun frá framleiðslu loftræsikerfisins borgi sig ekki til baka á 60 ára tímabili
  • Árið 2023 bar Grænni byggð saman byggingu sem uppfyllir kröfur byggingareglugerðar saman við varmaorkunýtna byggingu skv. kröfum BREEAM um orkunýtni upphitunar (Ene 01), auk (Mat 01 skilyrði 5) um val á byggingarefni með umhverfisyfirlýsingu. Niðurstöðurnar voru að losun bygginganna á 50 ára líftíma þeirra var mjög svipuð
  • HMS reiknaði endurgreiðslutíma í íbúðarhúsum miðað við forsendur sem gefnar eru upp í LCA leiðbeiningunum og nýjum losunarstuðlum frá Umhverfis- og Orkustofnun. Niðurstöðurnar voru að það borgaði sig ekki á 25 ára líftíma þótt orkusparnaður kerfisins væri 40% ef innbyggt kolefni kerfisins væri í efri mörkum. Hins vegar myndi það borga sig ef orkusparnaður væri um og yfir 30% ef innbyggt kolefni væri í neðri mörkum. Í greiningu VSÓ Ráðgjafar á leikskóla Reykjavíkurborgar árið 2023 var talið að vélrænt loftræsikerfi með varmaendurvinnslu myndi einungis lækka orkunotkun allt að 18,8%

Mikilvægt er að skoða þessa hluti á heildrænan hátt, þar sem minni losun á einum stað gæti leitt til meiri losunar annars staðar. Einnig þarf að taka tillit til gæða innilofts, huga að heilsu notenda, og skoða áhrif á framtíðar rakavandamál og tilheyrandi losun við endurbætur húsnæðis. Oft eru það einföldu hlutirnir sem hafa mikil áhrif á að minnka losun, eins og rétt stilling hitakerfa eða breytt hegðunarmynstur notenda.

Skoða má niðurstöður úr orkutengdum aðgerðum Vegvísisins á síðu Byggjum grænni framtíð:

Aðgerð 3.4.: https://byggjumgraenniframtid.is/3-4-fraedsla-um-orkusparnad-i-byggingum/

Aðgerð 3.6.: https://byggjumgraenniframtid.is/3-6-leidbeiningar-um-honnun-hita-kaeli-og-loftraestikerfa/

Aðgerð 3.7.: https://byggjumgraenniframtid.is/3-7-rannsoknir-a-orkunytingu-eldri-bygginga/

Aðgerð 3.9.: https://byggjumgraenniframtid.is/3-9-skoda-krofu-um-styrd-loftraestikerfi-med-varmaendurvinnslu/

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS