23. janúar 2026

Önnur hver íbúð til sölu á höfuðborgarsvæðinu er í nýbyggingu

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Langur sölutími nýrra íbúða hefur leitt til þess að hlutdeild þeirra í framboði íbúða hefur farið vaxandi
  • Hlutur nýrra íbúða í framboði hefur ekki mælst meiri á höfuðborgarsvæðinu í átta ár
  • Margar óseldar nýjar íbúðir á Völlunum í Hafnarfirði, á Álftanesi og í Vatnsmýrinni kæla fasteignamarkaðinn

Hlutdeild nýrra íbúða í framboði hefur aukist töluvert á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum mánuðum. Rúmur helmingur allra íbúða á höfuðborgarsvæðinu á sölu eru í nýbyggingu og er það hæsta hlutfall nýrra íbúða af framboði frá því mælingar HMS hófust árið 2018. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu HMS, sem lesa má með því að smella á hnappinn hér að neðan.

Mánaðarskýrsla HMS fyrir janúar 2026

Nýj­ar íbúð­ir safn­ast upp

Í upphafi janúarmánaðar voru 5.105 íbúðir til sölu á landinu öllu, þar af 2.234 nýjar íbúðir. Hlutfall nýrra íbúða af framboði mældist 51% á höfuðborgarsvæðinu í upphafi árs, en þetta er í fyrsta skipti sem hlutfallið fer upp fyrir 50%.

Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins hefur hlutfallið verið nokkuð stöðugt síðustu mánuði og mældist 44% í upphafi árs. Annars staðar á landsbyggðinni hefur hlutfallið leitað niður á við síðustu mánuði og mældist um 17% í byrjun janúar.

Hátt hlutfall nýrra íbúða til sölu endurspeglar mikla íbúðauppbyggingu undanfarin ár, á sama tíma og sala nýbygginga hefur dregist saman. Í kjölfarið sitja nýjar íbúðir lengur á markaðnum og safnast upp, á meðan aðrar íbúðir seljast að jafnaði hraðar og hverfa fyrr af markaðnum.

Birgða­tími er lengri á svæð­um með mik­ið af nýj­um íbúð­um

Birgðatími lengdist á milli mánaða í desember alls staðar á landinu og hefur aldrei mælst lengri á höfuðborgarsvæðinu eða í nágrenni þess, en birgðatími sýnir hversu langan tíma það tæki að selja núverandi framboð af íbúðum miðað við söluhraða síðasta mánaðar.

Birgðatími er lengstur á þeim svæðum þar sem framboð nýrra íbúða er mest. Þetta má sjá þegar birgðatími er skoðaður eftir póstnúmerum á höfuðborgarsvæðinu og settur í samhengi við framboð nýrra íbúða.

Nýbyggingasvæði á Völlunum í Hafnarfirði (221), á Álftanesi (225) og í Vatnsmýrinni (102) í Reykjavík standa helst upp úr þegar kemur að birgðatíma. Hlutfall nýrra íbúða af framboði er jafnframt hæst í þessum póstnúmerum, eða um 85% í póstnúmeri 221, um 86% í póstnúmeri 225 og um 61% í póstnúmeri 102.

Birgðatíminn er stystur í póstnúmerum 103, 107 og 109 þar sem eru svo til engar íbúðir í nýbyggingum til sölu um þessar mundir. Birgðatíminn er einnig nokkuð stuttur á Seltjarnarnesi (170), í Árbæ (110), Grafarvogi (112) og Grafarholti (113) þar sem hlutfall nýbygginga af framboði er á bilinu 10% til 41%.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS