22. janúar 2026

Mánaðarskýrsla HMS janúar 2026

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Mánaðarskýrsla HMS fyrir janúar 2026 er komin út, en hana má nálgast með því að smella á hnappinn hér fyrir neðan. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að fasteignamarkaðurinn kólnaði í nóvember eftir að dómur Hæstaréttar um skilyrði vaxtabreytinga á óverðtryggðum lánum olli óvissu. Á leigumarkaði hægði á verðhækkunum á árinu 2025 samhliða minni hækkun á greiðslubyrði íbúðalána.

Mánaðarskýrsla HMS

Myndir að baki mánaðarskýrslu

Kóln­un í kjöl­far breyt­inga á lána­mark­aði

Fasteignamarkaðurinn kólnaði í nóvember, eftir að dómur Hæstaréttar um skilyrði vaxtabreytinga á óverðtryggðum lánum olli óvissu um veitingu verðtryggðra húsnæðislána með breytilegum vöxtum. Kaupsamningar í nóvember voru færri en undanfarin ár og að mati fasteignasala hægði nokkuð á umsvifum á markaðnum.

Markaðurinn var áfram kaldur í desember á flesta mælikvarða. Vísitala íbúðaverðs lækkaði um rúmt prósent milli mánaða, framboð er enn sögulega mikið og birgðatími hélt áfram að lengjast á öllum landsvæðum. Áfram telja flestir fasteignasalar virkni markaðarins vera litla miðað við árstíma og að um kaupendamarkað sé að ræða.

Þinglýstum kaupsamningum fjölgaði aftur á móti talsvert á milli mánaða í desember. Leiða má líkur að því að hluti kaupsamninga desembermánaðar varði viðskipti sem frestuðust tímabundið á meðan lánaóvissan ríkti og endurspegli því í raun ekki aukin umsvif á markaðnum í desember.

Um­svif á skamm­tíma­leigu­mark­aði árið 2025 álíka mik­il og árið áður

Á leigumarkaði hægði á verðhækkunum á árinu 2025 samhliða minni hækkun á greiðslubyrði íbúðalána. Leiguverð hækkaði um 5 prósent á milli desembermánaða 2024 og 2025, samanborið við 12 prósenta hækkun á milli janúarmánaða. Umsvif á skammtímaleigumarkaði árið 2025 stóðu í stað á milli ára, eftir að hafa aukist talsvert á milli 2022 og 2024.

Háir vext­ir í þrjú ár farn­ir að hafa áhrif á eft­ir­spurn

Lánamarkaðurinn hefur einkennst af háum vöxtum í þrjú ár sem hefur hægt á íbúðaverðshækkunum. Vaxtalækkunarferlið hefur tekið lengri tíma en við var búist vegna þrálátrar verðbólgu, en greiningaraðilar spá aukinni verðbólgu í janúar, meðal annars vegna breyttrar gjaldtöku á bifreiðum.

Hrein ný útlán til heimila drógust saman milli mánaða í nóvember samhliða færri kaupsamningum, en líkt og undanfarin misseri hafa lífeyrissjóðirnir verið atkvæðamiklir á markaðnum.

At­vinnu­laus­ir í bygg­ing­ar­iðn­aði ekki fleiri síð­an vor­ið 2020

Byggingamarkaðurinn skilaði góðu ársverki þrátt fyrir hátt vaxtastig, þar sem fjölgun fullbúinna íbúða á nýliðnu ári er í takt við meðaltal undanfarinna ára. Atvinnulausum í byggingariðnaði og mannvirkjagerð hefur þó fjölgað undanfarið og stjórnendur fyrirtækja í greininni gera í auknum mæli ráð fyrir að fækka starfsfólki á næstu mánuðum.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS