28. mars 2025
20. mars 2025
Mánaðarskýrsla HMS mars 2025
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Mánaðarskýrsla HMS fyrir mars 2025 er komin út, en hana má nálgast með því að smella á hnappinn hér fyrir neðan. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að fasteignamarkaðurinn var virkur miðað við árstíma í janúar. Á leigumarkaði gætu allt að 37 þúsund einstaklingar verið vantaldir á leigumarkaði, þar sem opinberar kannanir um búsetu fólks hafa ekki náð vel til erlendra leigjenda.
Mánaðarskýrslu HMS má nálgast hér
Myndir að baki mánaðarskýrslunni má nálgast hér
Meira líf á fasteignamarkaði í janúar miðað við síðustu ár
Fasteignamarkaðurinn var virkur miðað við árstíma í janúar, þar sem rúmlega 700 kaupsamningum var þinglýst á landinu öllu. Janúarmánuður er að jafnaði rólegri á fasteignamarkaði heldur en aðrir mánuðir, en virkni á fasteignamarkaði var töluvert meiri en á sama tíma árs 2023 og 2024.
Íbúðum sem teknar hafa verið af söluskrá hefur fjölgað hratt í febrúar, sem bendir til þess að umsvif á fasteignamarkaði hafi aukist enn frekar á síðustu vikum. Um helmingi fleiri íbúðir voru teknar af söluskrá í janúar og febrúar á þessu ári samanborið við sömu mánuði árin 2022 og 2023.
Almenn skráningarskylda mun draga úr vantalningu leigjenda
Á leigumarkaði hafa víðtækar undanþágur frá skráningarskyldu leigusamninga leitt til ófullnægjandi upplýsingagjafar um markaðinn. Allt að 37 þúsund fullorðnir einstaklingar gætu verið vantaldir á leigumarkaði, þar sem opinberar kannanir um búsetu fólks hafa ekki náð vel til erlendra leigjenda.
HMS hefur hafið átak í tölfræðisöfnun til þess að afla betri upplýsinga um húsnæðisaðstæður erlendra íbúa á Íslandi í samræmi við nýtt hlutverk sitt um að halda leiguskrá. Erlendir íbúar eru mun líklegri til að vera á leigumarkaði en ekki, en einungis 14 prósent þeirra eru skráðir fasteignaeigendur.
Vísbendingar um aukna ásókn í óverðtryggð lán samhliða lægri vöxtum á slíkum lánum
Á lánamarkaði eru vísbendingar um aukna ásókn í óverðtryggð lán samhliða lægri vöxtum á slíkum lánum. Uppgreiðslur heimila á slíkum lánum að frádreginni nýrri lántöku námu 6,1 milljarði króna og hafa þær ekki verið minni frá miðju ári 2023.
Fólksfjölgun í fyrra var í samræmi við húsnæðisáætlanir
Á byggingarmarkaði hafa margar nýjar íbúðir komið á fasteignamarkað á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Í janúar og febrúar komu samtals 585 íbúðir á markað en á sama tíma í fyrra komu 425 nýbyggðar íbúðir á húsnæðismarkaðinn.
Áætluð íbúafjölgun í húsnæðisáætlunum sveitarfélaga á síðasta ári reyndist vera nálægt rauntölum, en fjölgunin var ofmetin um 2,6 prósent. Sveitarfélögin miðuðu við áætlaða íbúafjölgun til að meta íbúðaþörf sína, sem nam tæplega 4.200 íbúðum í fyrra, en aðeins 3.665 íbúðir voru fullbyggðar og settar á fasteignamarkað það ár.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS