28. janúar 2026
30. janúar 2026
Meðalleiga á námsgörðum á höfuðborgarsvæðinu um 150 þúsund krónur
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Um 2.500 stúdentaíbúðir í útleigu á landinu öllu
- Meðalleiga á námsgörðum á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað í takt við vísitölu leiguverðs undanfarna tólf mánuði
- Leiguíbúðir námsmanna eru umtalsvert minni en aðrar
Um það bil 2.500 stúdentaíbúðir eru í útleigu til námsmanna á landinu öllu um þessar mundir samkvæmt upplýsingum úr leiguskrá, þar af flestar á höfuðborgarsvæðinu. Stúdentaíbúðir eru að jafnaði minni en almennar leiguíbúðir, en stúdentar á höfuðborgarsvæðinu greiða að meðaltali 150 þúsund krónur í leigu á mánuði. Þetta kemur fram í greiningu sem HMS hefur unnið upp úr leiguskrá nú í lok janúar 2026.
Markaðsleiga á námsgörðum á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað í takt við vísitöu leiguverðs
Meðalleiga á námsgörðum á höfuðborgarsvæðinu var 149 þúsund krónur í nýliðnum desembermánuði en á milli desembermánaða 2025 og 2024 hækkaði leiga á námsgörðum á svæðinu um 4,8%. Hækkunin er í samræmi við þróun vísitölu leiguverðs á tímabilinu sem hækkaði um 5,05%, en vísitalan byggir á leigusamningum um hefðbundnar íbúðir sem eru í eigu einstaklinga og fyrirtækja sem rekin eru í hagnaðarskyni.
Á höfuðborgarsvæðinu eru um þrjár af hverjum fjórum stúdentaíbúðum á vegum Félagsstofnunar stúdenta en um ein af hverjum fjórum á vegum Byggingarfélags námsmanna. Í heildina eru um tvö þúsund stúdentaleiguíbúðir í útleigu á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt gögnum úr leiguskrá HMS.
Á höfuðborgarsvæðinu var meðaltal markaðsleigu á bilinu 272 þúsund til 306 þúsund krónur í nóvember, þar sem dýrast var að leigja í Garðabæ. Markaðsleiga var hins vegar að meðaltali lægst í Reykjavík, en þar eru leiguíbúðir að jafnaði smærri en í öðrum sveitarfélögum á svæðinu.
Markaðsleiga á námsgörðum á landsbyggðinni í kringum hundrað þúsund á mánuði
Meðalleiga á námsgörðum á landsbyggðinni hefur hækkað minna eða um 0,5% á síðustu tólf mánuðum og var um 102 þúsund krónur í desember 2025. Á landsbyggðinni eru alls eru 430 íbúðir á námsgörðum í útleigu og flestar þeirra eru á vegum Félagsstofnunar stúdenta á Akureyri (118). Þar á eftir koma íbúðir á vegum Nemendagarða búvísindadeildar (84), Framhaldsskólans á Laugum (65), Fjölbrautaskóla Vesturlands (43), Menntaskólans að Laugarvatni (30), Nemendagarða Hólaskóla ses. (28), Menntaskólans á Egilsstöðum (26), Stúdentagarða Háskólans V hses. (21) og Menntaskólans á Ísafirði (15).
Allir leigusamningar á námsgörðum tímabundnir
Allir leigusamningar um íbúðir á námsgörðum eru tímabundnir. Flestir þeirra falla úr gildi yfir sumarmánuðina, þ.e. frá lokum skólaárs í maí fram að upphafi nýs skólaárs í ágúst.
Einhverjar undantekningar eru þar á, því á höfuðborgarsvæðinu er meðallengd leigusamninga á námsgörðum 348 dagar en 314 dagar á landsbyggðinni. Þannig er algengara að lengd tímabundinna leigusamninga á landsbyggðinni sé bundin við lengd skólaársins samanborið við námsgarðaleigusamninga á höfuðborgarsvæðinu.
Leiguíbúðir á námsgörðum eru umtalsvert minni en aðrar
Í leiguverðsjá HMS geta leigusalar og leigjendur nálgast upplýsingar um markaðsverð íbúða og fjölda leigusamninga í hverjum mánuði.
Meðalleiga á námsgörðum er umtalsvert lægri en fram kemur í leiguverðsjá, en í því samhengi er mikilvægt að hafa í huga að slíkar íbúðir eru umtalsvert minni en aðrar leiguíbúðir. Úr leigumarkaðskönnun 2025 sem framkvæmd var síðasta sumar kom fram að meðalstærð leiguíbúða á námsgörðum var 49 fermetrar en stærð leiguíbúða í eigu einstaklinga var að meðaltali 82 fermetrar.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS




