19. september 2025
19. september 2025
Erlendir á leigumarkaði eru ólíklegri til að þiggja húsnæðisbætur en íslenskir leigjendur
- Íslenskir leigjendur eru meira en tvöfalt líklegri til að þiggja húsnæðisbætur en erlendir leigjendur
- Erlendir bótaþegar eru á fjölmennari heimilum en íslenskir bótaþegar
- Opinn fundur um stöðu erlendra íbúa á húsnæðismarkaði verður haldinn í húsakynnum HMS að Borgartúni 21, mánudaginn 29. september 2025.
Vísbendingar eru um ójafna stöðu íslenskra og erlendra leigjenda, þar sem hlutfallslega færri erlendir leigjendur þiggja húsnæðisbætur. Þetta kemur fram í greiningu sem birtist í nýútkominni mánaðarskýrslu HMS.
Íslenskir leigjendur tvöfalt líklegri að þiggja húsnæðisbætur
Meirihluti þeirra sem þiggja húsnæðisbætur eru einstaklingar sem fæddir eru hér á landi en 35% húsnæðisbótaþega eru með erlent fæðingarland. Frá árinu 2017 hefur hlutfall erlendra húsnæðisbótaþega hækkað úr 18% á sama tíma og hlutfall erlendra ríkisborgara af íbúum landsins hefur tvöfaldast úr 9% í 18%.
Heilt yfir hefur húsnæðisbótaþegum fjölgað um 36% frá ársbyrjun 2017 á sama tíma og landsmönnum hefur fjölgað um 17%. Fjölgun húsnæðisbótaþega skýrist að langmestu leyti af fjölgun erlendra húsnæðisbótaþega, en þeim hefur fjölgað um 181% á tímabilinu á meðan íslenskum húsnæðisbótaþegum fjölgaði um 6%. Á sama tíma varð 136% fjölgun meðal íbúa með erlent ríkisfang hér á landi, en 6% fjölgun meðal íbúa með íslenskt ríkisfang.
Erlendir ríkisborgarar á leigumarkaði eru þó ólíklegri en íslenskir ríkisborgar til að þiggja húsnæðisbætur. Samkvæmt upplýsingum úr búsetukönnunum og húsnæðisbótagrunni HMS þiggja á bilinu 15-20% erlendra á leigumarkaði húsnæðisbætur samanborið við um 34-37% íslenskra á leigumarkaði.
Lægri húsnæðisbætur á hvern heimilismann meðal erlendra bótaþega
Í nýliðnum ágústmánuði bjuggu að meðaltali 2,1 heimilismaður á heimilum erlendra bótaþega, en þeim hefur fækkað úr 2,2 að meðaltali í janúar 2017. Á heimilum íslenskra húsnæðisbótaþega bjuggu aftur á móti að meðaltali 1,6 heimilismenn í ágúst, en þeim hefur fækkað úr 1,9 að meðaltali í janúar 2017.
Hámarksupphæð húsnæðisbóta hækkar ekki í jöfnu hlutfalli við fjölda heimilismanna, heldur eru viðbótarbætur lækkandi fyrir hvern viðbótar heimilismann. Sökum þess að fleiri búa á heimilum erlendra húsnæðisbótaþega er meðalbótafjárhæð á hvern heimilismann lægri meðal erlendra bótaþega samanborið við íslenska bótaþega. Í ágúst munaði rúmlega 21% á meðalbótafjárhæð á hvern heimilismann eftir uppruna bótaþega, en munurinn hefur farið vaxandi úr tæpum 12% árið 2017.
Opinn fundur um húsnæðisaðstæður aðfluttra
Í frétt HMS frá því í vor má lesa að HMS telur að um 37 þúsund fullorðnir gætu verið vantaldir á leigumarkaði vegna misræmis milli kannana um búsetu einstaklinga og eigendaskráningar úr fasteignaskrá. Samkvæmt búsetukönnunum HMS voru um 15% fullorðinna á leigumarkaði árið 2024 en kannanirnar hafa ekki náð til erlendra íbúa nema að óverulegu leyti.
Sem liður í að bæta upplýsingasöfnun um stöðu erlendra íbúa á húsnæðismarkaði lét HMS framkvæma netkönnun meðal félagsmanna Eflingar, VR og Einingar-Iðju sem eru með annað hvort erlent upprunaland eða ríkisfang. Niðurstöður könnunarinnar verða kynntar á opnum fundi í húsakynnum HMS að Borgartúni 21, mánudaginn 29. september næstkomandi.