9. desember 2025

Óskir og væntingar um framtíðarbúsetu

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Íslendingar vilja búa í auknum mæli í eigin húsnæði
  • Fólk býr að jafnaði í stærstu íbúðunum um fimmtugt og fer svo að minnka við sig
  • Verð skiptir mestu máli við val á húsnæði hjá ungu fólki en fólk eldra en 65 ára leggur höfuðáherslu á eiginleika sem snúa að gæðum og þægindum

HMS kynnti í dag niðurstöður úr nýrri könnun um búsetuþörf Íslendinga þar sem skoðað hvar og hvernig Íslendingar búa í dag og hvernig þeir sjá fyrir sér að búa eftir fimm ár, með tilliti til ýmissa atriða. Einnig var sérstaklega kannað hvaða atriði væru þátttakendum efst í huga við val á húsnæði.

Niðurstöðurnar voru kynntar á opnum fundi um þróun og framtíðarhorfur íbúðarmarkaðar á höfuðborgarsvæðinu í dag. Upptaka af fundinum er aðgengileg hér. Skýrsla með ítarlegum niðurstöðum könnunarinnar er aðgengileg með því að smella á hnappinn hér að neðan.

Óskir og væntingar um framtíðarbúsetu

Vilja búa í aukn­um mæli í eig­in hús­næði

Meirihluti Íslendinga býr í eigin húsnæði í dag en greina má vilja hjá öllum aldurshópum til að búa í enn ríkara mæli í eigin húsnæði, þó mestrar aukningar sé að vænta meðal yngstu aldurshópanna. Könnunin nær, líkt og fyrri búsetumælingar HMS, að takmörkuðu leyti til aðfluttra íbúa. Húsnæðisaðstæður þeirra voru þó kannaðar sérstaklega í sumar, þar sem í ljós kom að flestir aðfluttir íbúar búi í leiguhúsnæði, en stefni, líkt og aðrir Íslendingar, á að komast í auknum mæli í eigin húsnæði.

Reyk­vík­ing­ar lík­leg­ast­ir til að flytja á milli svæða

Ekki er að vænta umfangsmikilla breytinga á búsetudreifingu eftir landshlutum, en um 5% þátttakenda gera ráð fyrir að vera búsett erlendis eftir 5 ár. Stór hluti þeirra er í yngsta aldurshópnum, en algengt er að ungt fólk sæki háskólamenntun erlendis. Einungis um 4% gera ráð fyrir að flytja af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið, og um 3% gera ráð fyrir að flytja af höfuðborgarsvæðinu út á land á næstu fimm árum.

Reykvíkingar telja sig líklegri en íbúa annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðarbúa til að flytja á milli svæða á næstu fimm árum. Innan höfuðborgarsvæðisins er útlit fyrir að sjö vinsælustu hverfin haldi sessi. Miðborgin og Laugardalurinn vaxa mest í vinsældum á kostnað annarra hverfa, en Hlíðarnar stefna í að vera áfram fjölmennasta hverfi Reykjavíkur.

Gera ráð fyr­ir að minnka við sig um fimm­tugt

Hreyfingar milli íbúðategunda eru ólíkar milli aldurshópa. Yngsti aldurshópurinn stefnir að einhverju leyti á að flytja úr sérbýlishúsum foreldra sinna í stærri og minni fjölbýli. Fólk á aldrinum 25-64 ára gerir ráð fyrir að búa í auknum mæli í sérbýli en í minna mæli í fjölbýli. Þegar líður á eldri árin gerir fólk hins vegar ráð fyrir að flytja sig í auknum mæli úr sérbýli í fjölbýli.

Hvað varðar stærð íbúðarhúsnæðis má greina að fólk er alla jafna að stækka við sig með aldri framan af og að fólk búi að jafnaði í stærstu íbúðunum um fimmtugt. Eftir það fer fólk að minnka við sig, bæði hvað varðar fermetrafjölda og herbergjafjölda.

Áhrifa­þætt­ir við val á hús­næði eru mis­mun­andi eft­ir ald­urs­hóp­um

Talsverður munur er á því hvaða atriði vega þyngst við val á húsnæði eftir aldurshópum. Ungt fólk, sem hefur að jafnaði lægri tekjur og á minna eigið fé en þeir sem eldri eru, telja verð húsnæðis skipta mestu máli á meðan önnur atriði sem varða gæði og meiri þægindi eru neðarlega á lista. Eftir því sem fólk eldist og fjárhagsleg staða þess styrkist fer verð að skipta sífellt minna máli. Fólk eldra en 65 ára leggur höfuðáherslu á eiginleika sem snúa að gæðum og þægindum, líkt og svalir, pall, næg bílastæði og góð birtuskilyrði. Allir aldurshópar telja þó mikilvægt að ástand húsnæðisins sé gott.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS