16. apríl 2025
16. apríl 2025
Vísitala leiguverðs hækkaði um 0,42 prósent á milli mánaða í mars 2025
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Markaðsleiga hækkaði aftur annan mánuðinn í röð eftir tveggja mánaða lækkun í desember og janúar síðastliðnum
- Vísitalan hækkaði um 11,3 prósent á milli marsmánaða 2024 og 2025, á meðan verðbólga mældist 3,8 prósent á sama tímabili
- 12 mánaða raunhækkun leiguverðs nam 7,2 prósentum í mars
Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu mældist 120,3 stig og hækkaði um 0,42 prósent á milli mánaða í mars. Leiguverð hækkar annan mánuðinn í röð eftir að hafa lækkað tvo mánuði í röð í desember og janúar síðastliðnum.
Á milli marsmánaða 2024 og 2025 hækkaði vísitalan um 11,3 prósent á sama tíma og verðbólga mældist 3,8 prósent og vísitala íbúðaverðs hækkaði um 7,98 prósent. Á meðfylgjandi mynd má sjá mánaðarlega breytingu á vísitölu leiguverðs ásamt gildum hennar síðustu 12 mánuði.
Vísitala leiguverðs byggir á vegnu meðaltali leiguverðs á fermetra hjá hefðbundnum íbúðum í eigu einstaklinga og hagnaðardrifinna leigufélaga. Niðurstöður eru vegnar saman með veltu íbúða með sama herbergjafjölda á síðustu 12 mánuðum. Stuðst er við nýskráða leigusamninga síðastliðinna tveggja mánaða við útreikning vísitölunnar, svo marsgildi hennar tekur mið af leigusamningum í febrúar og mars.
Hægt er að nálgast upplýsingar um leigusamninga í leiguverðsjá HMS, en hana má nálgast með því að smella á þennan hlekk.
Á ársgrundvelli heldur leiguverð áfram að hækka umfram verðlag í landinu öllu, en 12 mánaða raunverðshækkun vísitölu leiguverðs nam 7,2 prósent í mars og hafa raunverðshækkanir leiguverðs á ársgrundvelli verið í kringum 7 prósent á síðustu mánuðum.
Leiguverðsjá sýnir litla hækkun eins og vísitalan
Hægt er að nálgast upplýsingar um leigusamninga í leiguverðsjá HMS, þar sem leigusalar og leigutaka geta nálgast upplýsingar um markaðsverð íbúða og fjölda leigusamninga í hverjum mánuði. Samkvæmt leiguverðsjánni hækkaði fermetraverð markaðsleigu lítillega á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu.
Fermetraverð markaðsleigu var að meðaltali 3.919 kr. í janúar og febrúar og 3.931 kr. í febrúar og mars. Fermetraverð markaðsleigu á höfuðborgarsvæðinu hækkaði þar með um 0,32 prósent. Hafa ber þó í huga að leiguverðsjáin sýnir ekki leiguverð einstakra samninga, einungis meðaltöl.
Mælaborð fyrir vísitölur HMS
Mælaborð fyrir vísitölur HMS um íbúða- og leiguverð er aðgengilegt á vef HMS. Þar er hægt að nálgast þróun vísitölu leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu, auk þess er hægt að nálgast eldri og sameinaðar vísitölur leiguverðs.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS