14. október 2025
20. ágúst 2025
Vísitala leiguverðs hækkaði um 0,32 prósent í ágúst 2025
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Vísitala leiguverðs mældist 124,9 stig og hækkaði um 0,32 prósent á milli mánaða
- Leiguverð hefur hækkað talsvert meira en verðbólga og íbúðaverð undanfarna 12 mánuði
- Árstaktur vísitölunnar hækkar milli mánaða eftir að hafa farið lækkandi frá áramótum
Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu mældist 124,9 stig í ágúst og hækkaði um 0,32 prósent á milli mánaða. Vísitalan hefur hækkað um 6,66 prósent á undanförnum 12 mánuðum, á sama tíma og verðbólga mældist 3,8 prósent og íbúðaverð hækkaði um 2,21 prósent.
Árstaktur vísitölunnar hækkar á milli mánaða, hvort sem litið er til nafnverðsþróunar eða raunverðsþróunar, eftir að hafa farið lækkandi frá áramótum.
Hægt er að nálgast mælaborð fyrir vísitölur HMS með því að smella á hnappinn hér að neðan
Mælaborð fyrir vísitölur HMS
Á meðfylgjandi mynd má sjá mánaðarlega breytingu á vísitölu leiguverðs ásamt gildum hennar síðustu 12 mánuði.
Vísitala leiguverðs byggir á vegnu meðaltali leiguverðs á fermetra hjá hefðbundnum íbúðum í eigu einstaklinga og hagnaðardrifinna leigufélaga. Niðurstöður eru vegnar saman með veltu íbúða með sama herbergjafjölda á síðustu 12 mánuðum. Stuðst er við leigusamninga síðastliðinna tveggja mánaða við útreikning vísitölunnar, svo ágústgildi hennar tekur mið af leigusamningum í júlí og ágúst.
Árstaktur vísitölunnar hækkar eftir að hafa farið lækkandi frá áramótum
Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði meira að nafnvirði og raunvirði á ársgrundvelli í ágúst samanborið við í júlí og júní. Hægt hafði á nafnverðs- og raunverðshækkun vísitölunnar frá áramótum fram til þessa, líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Leiguverð hækkaði um 2,80 prósent að raunvirði á ársgrundvelli í ágúst, samanborið við 1,10 prósent í júlí og 1,55 prósent í júní. Að nafnvirði hækkaði vísitalan um 6,66 prósent í ágúst, samanborið við 5,15 prósent í júlí og 5,77 prósent í júní.
Vísitala leiguverðs hækkaði mikið á milli mánaða í apríl, maí, júní og júlí í fyrra, eða á bilinu 1,57 – 3,19 prósent. Hækkun árstaktsins nú í ágúst skýrist að miklu leyti af því að há vísitölugildi í júlí í fyrra detta út úr mælingunni, en vísitala íbúðaverðs lækkaði um 1,1 prósent á milli mánaða í ágúst í fyrra.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS