6. nóvember 2025
6. nóvember 2025
Meiri kaupendamarkaður og minni verðþrýstingur að mati fasteignasala
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Enn hægir á umsvifum á fasteignamarkaði að mati fasteignasala
- Fasteignasalar telja fasteignaverð ýmist haldast stöðugt eða fara lækkandi
- Vísbendingar eru um að fyrstu kaupendur hafi átt erfiðara uppdráttar á markaðnum undanfarnar vikur
Virkni fasteignamarkaðarins er lítil miðað við árstíma og fáir mæta í opin hús þessa stundina, samkvæmt nýrri könnun HMS meðal fasteignasala. Niðurstöður úr könnuninni má finna með því að smella á hnappinn hér að neðan, en þær eru fyrstu vísbendingar um þróun fasteignamarkaðarins eftir að dómur Hæstaréttar féll í vaxtamálinu svokallaða þann 14. október síðastliðinn.
Niðurstöður úr könnun HMS til fasteignasala maí-nóvember 2025
Samkvæmt könnuninni má greina áframhaldandi kólnun á fasteignamarkaði og að verð á markaðnum fari ýmist lækkandi eða haldist stöðugt, auk þess sem um helmingur svarenda telur algengt að verð sé lækkað í söluferli. Þá fjölgar í hópi fasteignasala sem miðluðu ekki fasteignum til fyrstu kaupenda í mánuðinum.
HMS hefur lagt fram mánaðarlega könnun fyrir félagsmenn í Félagi fasteignasala frá því í maímánuði síðastliðnum. Síðasta könnunin var lögð fyrir þann 4. og 5. nóvember og alls bárust 87 svör sem samsvarar 26% svarhlutfalli, en félagsmenn eru alls 330. Um 90% svarenda miðla aðallega fasteignum á höfuðborgarsvæðinu eða í nágrenni þess.
Áframhaldandi kólnun á markaðnum
Enn hægir á umsvifum á fasteignamarkaði að mati fasteignasala, en rúmlega 90% svarenda telja virkni markaðar litla miðað við árstíma samanborið við 68% í síðustu mælingu. Mikil aukning er meðal þeirra sem telja virknina mjög litla, eða 49% samanborið við 13% að meðaltali frá fyrstu mælingu í maí.
Að mati fasteignasala er fasteignamarkaðurinn meiri kaupendamarkaður nú samanborið við fyrir mánuði síðan. Líkt og sjá má á myndinni hér að neðan hefur markaðurinn farið sífellt kólnandi frá því mælingar á viðhorfi fasteignasala hófust í maí.
Þegar talað er um að markaðurinn sé kaldur er alla jafna átt við að það sé fremur lítið um að vera á markaðnum og að mögulegir kaupendur séu hlutfallslega fáir samanborið við seljendur. Við slíkar aðstæður er sölutími eigna gjarnan langur og algengt er að eignir seljist undir auglýstu söluverði. Markaðurinn er þá sagður vera kaupendamarkaður.
Framangreind þróun á mati fasteignasala endurspeglar meðal annars þróun á fjölda eigna sem auglýstar eru til sölu á vefnum fasteignir.is sem og áhuga kaupenda á opnum húsum.
Framboð af íbúðum til sölu hefur aukist mjög undanfarin ár á landsvísu, hvort sem litið er til nýrra íbúða eða annarra íbúða. Alls eru rúmlega 5.200 íbúðir til sölu á landinu öllu í dag, en þeim hefur fjölgað um tæplega þúsund frá því í byrjun apríl.
Á höfuðborgarsvæðinu eru nú tæplega 1.500 nýjar íbúðir til sölu og um það bil 1.800 aðrar íbúðir, líkt og sjá má á myndinni hér að neðan. Frá því að vaxtadómurinn var kveðinn upp þann 14. október síðastliðinn hefur íbúðum á sölu fjölgað um 86 á höfuðborgarsvæðinu, eða 2,7%.
Aðsókn í opin hús og einkaskoðanir á fasteignum til sölu gefur góða vísbendingu um fjölda mögulegra kaupenda á markaðnum. Samkvæmt niðurstöðum úr könnun HMS meðal fasteignasala hefur fækkað í hópi þeirra sem skoða hverja fasteign á fyrstu viku sölutíma þeirra. Nýjustu mælingar sýna að algengast sé að innan við þrír skoði hverja eign á fyrstu viku sölutíma, en frá maí fram til ágúst var algengast að fjöldinn væri á bilinu 4 til 8 líkt og sjá má á myndinni hér að neðan.
Flestir telja verð á markaði fara lækkandi
Samhliða minni umsvifum greina fasteignasalar minni verðþrýsting á markaðnum. Einungis lítill hluti svarenda telur fasteignaverð fara hækkandi í nýjustu mælingu en helmingur telur verð fara lækkandi. Tæpur helmingur svarenda telur verðþróun hins vegar stöðuga.
Aðspurð hvort algengt sé að verð sé lækkað í söluferli svara 50% því til að það sé oft eða alltaf gert, en einungis 4% segja það sjaldan eða aldrei gert. Aðrir (46%) svarendur segja verð stundum lækkað í söluferlinu.
Vísbendingar um að fyrstu kaupendum hafi fækkað
Niðurstöður könnunarinnar gefa jafnframt vísbendingar um að fyrstu kaupendum hafi fækkað á síðustu vikum, en greina má áberandi fjölgun meðal fasteignasala sem miðluðu ekki fasteignum til fyrstu kaupenda í mánuðinum. Aðspurð um fjármögnunarleiðir fyrstu kaupenda kváðust alls 29% fasteignasala ekki hafa selt íbúð til fyrstu kaupenda í nóvembermælingu, samanborið við 20% að meðaltali í fyrri mælingum.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS




