16. september 2025
16. september 2025
Vísitala íbúðaverðs lækkaði um 0,54 prósent á milli mánaða í ágúst 2025
- Vísitala íbúðaverðs mældist 111,1 stig í ágúst og lækkaði um 0,54 prósent á milli mánaða
- Íbúðaverð hefur lækkað að raunvirði á undanförnum 12 mánuðum í fyrsta skipti síðan í mars 2024
- Hægt hefur á tólf mánaða nafnverðshækkun íbúðaverðs frá ársbyrjun
Vísitala íbúðaverðs mældist 111,1 stig í ágúst og lækkaði um 0,54 prósent á milli mánaða. Á undanförnum tólf mánuðum hefur vísitalan hækkað um 2,21 prósent, á sama tíma og verðbólga mældist 3,8 prósent.
Frá áramótum hefur hægt verulega á raunverðshækkun vísitölu íbúðaverðs sem mælist nú neikvæð í fyrsta skipti síðan í mars 2024. Undanfarna 12 mánuði hefur íbúðaverð á landsvísu lækkað um 1,49 prósent að raunvirði.
Á mynd hér að neðan má sjá mánaðarbreytingu vísitölu íbúðaverðs á síðustu mánuðum.
Taflan hér að neðan sýnir vísitöluna, ásamt mánaðarhækkun hennar og 12 mánaða hækkun, auk fjögurra undirvísitalna fjölbýlis og sérbýlis á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu.
Vísitala íbúðaverðs fyrir ágúst 2025
Vísitala | Gildi | Breyting á milli mánaða | 12 mánaða breyting |
---|---|---|---|
Íbúðaverð | 111,1 | -0,54% | 2,21% |
Sérbýli á hbs. | 111,2 | -0,54% | 1,55% |
Sérbýli á landsbyggð | 114,0 | -1,13% | 3,45% |
Fjölbýli á hbs. | 109,2 | -0,36% | 2,06% |
Fjölbýli á landsbyggð | 114,3 | 1,06% | 3,25% |
Hægt hefur á nafnverðshækkun vísitölu íbúðaverðs frá áramótum
Tólf mánaða nafnverðshækkun vísitölu íbúðaverðs mældist 10,4 prósent í janúar síðastliðnum. Síðan þá hefur hægt á árstaktinum mánuð frá mánuði sem mælist 2,21 prósent nú í ágúst. Árshækkun vísitölunnar hefur ekki mælst minni að nafnvirði frá því í september 2023 þegar íbúðaverð hafði hækkað um 2,06 prósent á ársgrundvelli.
Allar undirvísitölur hafa lækkað að raunvirði síðastliðið ár
Allar undirvísitölur íbúðaverðs, þ.e. undirvísitölur fyrir sérbýli og fjölbýli innan sem utan höfuðborgarsvæðisins, hafa lækkað að raunvirði undanfarna tólf mánuði líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd. Á höfuðborgarsvæðinu lækkar íbúðaverð að raunvirði á ársgrundvelli annan mánuðinn í röð, en árstakturinn mælist nú neikvæður um 1,84 prósent en var neikvæður um 0,16 prósent í júlí. Á landsbyggðinni lækkar íbúðaverð að raunvirði í fyrsta skipti síðan í febrúar 2024, en árstakturinn mælist þar neikvæður um 0,39 prósent.
Á landsbyggðinni lækkar vísitala fjölbýlis meira en vísitala sérbýlis að raunvirði, eða um 0,48 prósent samanborið við 0,30 prósent. Innan höfuðborgarsvæðisins mælist tólf mánaða raunverðslækkun vísitölu sérbýlis aftur á móti meiri, eða 2,12 prósent samanborið við 1,65 prósent raunverðslækkun vísitölu fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu.
Mælaborð fyrir vísitölur HMS
Mælaborð fyrir vísitölur HMS um íbúða- og leiguverð er aðgengilegt á vef HMS. Þar er hægt að nálgast þróun vísitölu íbúðaverðs, ásamt vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggð. Hægt er að nálgast mælaborðið með því að smella á hnappinn hér að neðan.