25. júlí 2024

Niðurgreidd leiga og húsnæðisstuðningur getur verið ígildi yfir 300 þúsund króna launahækkunar

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Í júní leigðu 35,7 prósent húsnæðisbótaþega hjá félögum sem bjóða niðurgreidda leigu, annað hvort vegna stuðnings frá hinu opinbera eða vegna þess að leigufjárhæðin ákvarðast ekki af markaðsforsendum. Húsnæðisbætur og niðurgreidd leiga getur verið ígildi um 320 þúsund króna launahækkunar fyrir einstaklinga á leigumarkaði, samkvæmt útreikningum HMS.

Sex þús­und heim­ili fá hús­næð­is­bæt­ur og búa í nið­ur­greiddu leigu­hús­næði

Leiguskrá HMS hefur að geyma rúmlega átta þúsund gilda leigusamninga fyrir íbúðir sem skilgreina má sem niðurgreiddar leiguíbúðir, þar sem þær eru annað hvort fjármagnaðar með stuðningi frá hinu opinbera eða að leiguverð þeirra ákvarðast ekki af markaðsforsendum. Á meðal niðurgreiddra leiguíbúða eru tæplega fimm þúsund samningar fyrir félagslegar íbúðir sem eru í eigu Brynju leigufélags, Bjargs íbúðafélags, Félagsbústaða og Arnrúnar íbúðafélags, og rúmlega þrjú þúsund samningar fyrir námsmannaíbúðir.

Meirihluti íbúa þessara íbúða fá húsnæðisbætur, en í júní síðastliðnum greiddi HMS út húsnæðisbætur til tæplega sex þúsund heimila sem hafa skráða búsetu í niðurgreiddum leiguíbúðum. Um tíu þúsund húsnæðisbótaþegar bjuggu hins vegar ekki í niðurgreiddum leiguíbúðum, en líkt og HMS greindi frá fyrr í mánuðinum greiddi stofnunin út húsnæðisbætur til 15.945 umsækjenda í síðasta mánuði.

Leigj­end­ur geta borg­að 250 þús­und krón­um minna með nið­ur­greiddu hús­næði og hús­næð­is­bót­um

Mikill munur er á leiguverði eftir tegund leigusala, en líkt og HMS hefur áður bent á getur munurinn numið allt að 100 þúsund krónum í hverjum mánuði. Í júní var meðalleiguverð íbúða fyrir einn einstakling um 250 þúsund krónur hjá hagnaðardrifnum leigufélögum í Leiguskrá, á meðan leigan á sambærilegum íbúðum í eigu óhagnaðardrifinna leigufélaga í Leiguskrá var að meðaltali 142 þúsund krónur.

Einstaklingar á leigumarkaði sem eru með heildartekjur undir 935 þúsund krónum á mánuði fyrir skatt eiga einnig rétt á húsnæðisbótum, en þær geta að hámarki verið um 51 þúsund krónur á mánuði. Hægt er að sækja um húsnæðisbætur með rafrænum hætti á Ísland.is.

Til viðbótar geta leigjendur sótt um sérstakan húsnæðisstuðning frá sveitarfélögum ofan á almennar húsnæðisbætur. Hægt er að sækja um sértækan húsnæðisstuðning með rafrænum hætti á Ísland.is. Húsnæðisstuðningurinn er breytilegur eftir sveitarfélögum, en í Reykjavík getur hann numið um 49 þúsund krónum á mánuði.

Húsnæðisbætur og búseta í niðurgreiddu húsnæði getur því dregið töluvert úr húsnæðiskostnaði lágtekjufólks á leigumarkaði. Einstaklingar sem fá hámarksbætur, sérstakan húsnæðisstuðning og búa í niðurgreiddu leiguhúsnæði greiða allt að 250 þúsund krónum minna á mánuði úr eigin vasa í húsnæði heldur en einstaklingar sem fá ekki húsnæðisbætur og búa ekki í niðurgreiddu húsnæði.

Stuðn­ing­ur­inn ígildi 320 þús­und króna launa­hækk­un­ar fyr­ir ein­stak­linga

Samkvæmt upplýsingum HMS voru meðaltekjur einstaklinga sem fá húsnæðisbætur 358 þúsund krónur á mánuði í júní 2024.

Myndin hér að neðan sýnir aðstöðumun tveggja einstaklinga á leigumarkaði, þar sem annar þeirra er með 360 þúsund krónur í mánaðartekjur, fær húsnæðisbætur og býr í niðurgreiddu húsnæði, á meðan hinn fær 680 þúsund krónur í mánaðartekjur og greiðir markaðsleigu.

Sýni­dæmi: ráð­stöf­un­ar­tekj­ur tveggja ein­stak­linga á leigu­mark­aði

Líkt og myndin sýnir má vænta þess að einstaklingar með 360 þúsund krónur í tekjur á mánuði sem búa í niðurgreiddu húsnæði og fá húsnæðisbætur séu með 250 þúsund krónur í ráðstöfunartekjur. Þetta eru sams konar ráðstöfunartekjur og vænta má hjá einstaklingum með 680 þúsund krónur í heildartekjur á mánuði sem fá ekki húsnæðisbætur og greiða markaðsleigu hjá hagnaðardrifnum leigufélögum. Fyrir einstaklinga á vinnumarkaði geta húsnæðisbætur og búseta í húsnæði sem ekki er rekið á markaðsforsendum því verið ígildi rúmlega 320 þúsund króna launahækkunar.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS