5. júní 2024

Allt að 100 þúsund króna munur á leigu eftir tegund leigusala

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Óhagnaðardrifin leigufélög og sveitarfélög bjóða upp á leigu sem geta verið rúmlega 100 þúsund krónum lægri en á sambærilegum íbúðum í eigu einstaklinga eða hagnaðardrifinna leigufélaga. Þetta kemur fram í upplýsingum sem HMS hefur unnið úr Leiguskrá.

Leiguskrá geymir alla rafræna leigusamninga sem gefnir eru út hér á landi, en þar má finna íbúðir í eigu einstaklinga, hagnaðardrifinna leigufélaga, óhagnaðardrifinna leigufélaga og sveitarfélaga. Alls tóku 957 samningar gildi í maímánuð, á meðan 1.563 samningar féllu úr gildi.

Töluvert fleiri samningar féllu úr gildi í maí en í fyrri mánuðum, en HMS telur ástæðuna vera lokun leigusamninga í námsmannaíbúðum. Fjöldi virkra samninga í leiguskrá nam tæpum 20 þúsund talsins undir lok maímánaðar.

60 til 70 þús­und króna verð­mun­ur á tveggja her­bergja íbúð­um

Á mynd hér að neðan má sjá meðalleiguverð nýrra leigusamninga á 2 herbergja íbúðum í maí eftir tegund leigusala. Alls liggja þar að baki 187 samningar vegna íbúða í eigu einstaklinga, 57 samningar vegna íbúða í eigu hagnaðardrifinna leigufélaga, 81 samningur vegna íbúða í eigu óhagnaðardrifinna leigufélaga og 23 samningar vegna íbúða í eigu sveitarfélaga.

Leigu­verð nýrra samn­inga í maí á 2 her­bergja íbúð­um eft­ir teg­und leigu­sala

Líkt og myndin sýnir var meðalleiguverð slíkra íbúða í eigu einstaklinga og hagnaðardrifinna leigufélaga um 230 þúsund krónur á mánuði, á meðan óhagnaðardrifin leigufélög og sveitarfélög bjóða upp á slíkar íbúðir á 150 til 160 þúsund krónur á mánuði. Verðmunurinn á milli leigusala er því á bilinu 60 til 70 þúsund krónur.

30 til 100 þús­und króna verð­mun­ur á stærri íbúð­um

Myndin hér að neðan sýnir leiguverð nýrra leigusamninga á 3-4 herbergja íbúðum í maí eftir tegund leigusala. Þar liggja að baki 242 íbúðir í eigu einstaklinga, 146 íbúðir í eigu hagnaðardrifinna leigufélaga, 63 íbúðir í eigu óhagnaðardrifinna leigufélaga og 18 íbúðir í eigu sveitarfélaga.

Leigu­verð nýrra samn­inga í maí á 3-4 her­bergja íbúð­um eft­ir teg­und leigu­sala

Meðalleiguverð 3-4 herbergja íbúða í eigu hagnaðardrifinna leigufélaga nam 300 þúsund krónum í maí. Til samanburðar var leiguverð slíkra íbúða í eigu einstaklinga um 276 þúsund krónur, en hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum var leiguverðið um 238 þúsund krónur að meðaltali. Hjá sveitarfélögum voru stærstu íbúðirnar hins vegar ódýrastar, en meðalleiguverð þeirra var 196 þúsund krónur í maí.

Í ofangreindri flokkun eru húsnæðissjálfseignarstofnanir (hses) skilgreind sem óhagnaðardrifin leigufélög, sem og aðrar sjálfseignastofnanir, styrktarfélög og skólar. Leigufélögin Bríet og Félagsbústaðir eru einnig flokkuð sem óhagnaðardrifin leigufélög.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS