11. desember 2025

Minni umsvif á fasteignamarkaði í nóvember

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Tæplega 1.100 kaupsamningum var þinglýst í október  
  • Útlit er fyrir að kaupsamningum hafi fækkað í nóvember 
  • Meiri kaupáhugi nú í byrjun desember heldur en í byrjun októbermánaðar  

Útlit er fyrir að kaupsamningar í nóvembermánuði hafi verið talsvert færri en í október en í kjölfar fyrsta vaxtadómsins versnuðu lánskjör sem hefur til skamms tíma haft neikvæð áhrif á markaðinn. Þetta er á meðal þess sem fjallað verður ítarlega um í næstu mánaðarskýrslu HMS sem kemur út fimmtudaginn 18. desember næstkomandi. 

Tæp­lega 1.100 kaup­samn­ing­ar í októ­ber 

Leita þarf aftur til ársins 2021 til að finna fleiri kaupsamninga í októbermánuði en talsverð óvissa skapaðist á fasteignamarkaði um miðjan október þegar vaxtadómurinn var kveðinn upp. Í kjölfarið gerðu flestar lánastofnanir hlé á lánveitingum, einkum með breytilegum verðtryggðum vöxtum sem hefur verið vinsælasta lánaformið undanfarin misseri.  

Velta á fasteignamarkaði var um 83,2 milljarðar króna og þinglýstir kaupsamningar voru alls 1.097 í nýliðnum októbermánuði. Meðalvelta á hvern kaupsamning var þannig 75,8 milljónir króna. 

Nokkur tími getur liðið frá því að lánsumsókn er samþykkt þar til kaupsamningur er undirritaður. Þeir kaupsamningar sem dagsettir eru í seinni hluta októbermánaðar geta því varðað viðskipti sem áttu sér stað áður en vaxtadómurinn féll og aðgengi að lánsfjármagni var takmarkað. Útlit er fyrir að áhrif dómsins komi fram í tölum um fjölda kaupsamninga í nóvember en þeir virðast vera þónokkuð færri en í októbermánuði. 

Um 13% færri íbúð­ir voru tekn­ar af sölu­skrá í nóv­em­ber sam­an­bor­ið við októ­ber 

Á myndinni hér að ofan má sjá fjölda útgefinna kaupsamninga á mánuði. Upplýsingar um veltu og fjölda kaupsamninga eru aðgengilegar í mælaborði HMS. Upplýsingar í mælaborðinu uppfærast í samræmi við kaupskrá fasteigna, en allt að sex vikna töf getur verið á því að kaupsamningar komi fram í mælaborðinu sökum þess tíma sem tekur að ganga frá og þinglýsa samningunum.  

Vegna þeirrar tafar ber að taka tölum um þinglýsta kaupsamninga í nóvember með fyrirvara á þessum tímapunkti. Hins vegar eru samningarnir færri en þeir voru á sama tíma í októbermánuði eða 691 talsins.  

Alla jafna er fjöldi kaupsamninga sambærilegur í október og nóvember ár hvert, en meðaltal áranna 2015-2024 er um þúsund samningar hvorn mánuð fyrir sig (994 fyrir október og 999 fyrir nóvember). 

Þá benda gögn um fasteignaauglýsingar til þess að umsvif á fasteignamarkaði hafi verið minni í nóvember samanborið við október, en 861 fasteign var tekin af söluskrá í mánuðinum, samanborið við um 961 fasteign í október. 

Kaupá­hugi tek­ur við sér í byrj­un des­em­ber 

HMS framkvæmdi áttundu mánaðarlegu spurningakönnunina á meðal fasteignasala þann 2. desember síðastliðinn en í könnuninni er spurt um viðhorf fasteignasala til fasteignamarkaðarins. Könnunin var send á félagsmenn Félags fasteignasala en þeir eru um 330 talsins. Alls bárust 99 svör í þetta skiptið sem samsvarar 30% svarhlutfalli. Langflestir svarendur, eða níu af hverjum tíu, miðla aðallega fasteignum á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess. 

Fasteignasalar fundu vel fyrir litlum umsvifum á fasteignamarkaði eftir að óvissa skapaðist á lánamarkaði um miðjan október, samkvæmt niðurstöðum úr könnun sem lögð var fyrir í byrjun nóvember. Ef marka má svör við nýjustu könnuninni telja fasteignasalar virknina hins vegar hafa tekið örlítið við sér nú í byrjun desember og lækkaði hlutfall svarenda sem töldu virkni markaðarins vera frekar litla eða mjög litla úr 91% í 79% milli nóvember- og desemberkönnunar. Þrátt fyrir það telja langflestir fasteignasalar að markaðurinn sé enn á valdi kaupenda, líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd. 

Í byrjun nóvembermánaðar töldu um tveir af hverjum þremur svarendum að það kæmu að meðaltali 3 eða færri að skoða hverja eign sem þeir höfðu til sölu í fyrstu viku sölutímans. Fleiri mættu á opin hús samkvæmt svörum fasteignasala í desember, en þó virðist áhugi kaupenda vera minni samanborið við í byrjun október. 

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS