11. desember 2025

Staða mælaborðs íbúða í byggingu

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Meiri áhersla á minni og stærri íbúðir
  • Vægi höfuðborgarsvæðisins í uppbyggingu fer vaxandi
  • Um 3.000 nýbyggingar fullbúnar á árinu

Samkvæmt mælaborði íbúða í byggingu eru nú skráðar 5.950 íbúðir í byggingu víðsvegar um landið. Lokið hefur verið við byggingu á 3.221 íbúð á árinu hingað til, þar af 3.032 nýjum íbúðum sem hafa bæst við húsnæðisstokkinn.

Byggingaráform eru 993 talsins en þau vísa til íbúða sem þegar hafa fengið útgefið byggingarleyfi, en þar sem framkvæmdir eru ekki enn hafnar. Það þýðir að verkefnið hefur fengið úthlutað lóð, hönnun er lokið og aðaluppdrættir hafa verið samþykktir af sveitarfélaginu.

Vægi höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins í íbúða­upp­bygg­ingu eykst

Af þeim íbúðum sem hafa orðið fullbúnar á árinu sem er að líða eru hlutfallslega flestar á höfuðborgarsvæðinu, eða 64%. Hlutfallið hefur hækkað á undanförnum árum, en til samanburðar voru um 57% þeirra íbúa sem urðu fullbúnar á árinu 2022 staðsettar á höfuðborgarsvæðinu. Samhliða hefur hlutur landsbyggðarinnar lækkað úr 43% árið 2022 í 36% nú í ár.

Á landsbyggðinni er mest byggt á Suðurlandi, þar sem 15% íbúða sem hafa orðið fullbúnar á árinu eru staðsettar. Suðurnes koma þar á eftir með 9% íbúða, Norðurland eystra með 6% og Vesturland og Austurland hvort um sig með 2%. Minnst er byggt á Vestfjörðum og á Norðurlandi vestra, þar sem um 1% íbúða sem hafa orðið fullbúnar á árinu eru staðsettar í hvorum landshluta fyrir sig.

Hlutur sumra landshluta hefur dregist saman á undanförnum árum. Til að mynda voru um 14% íbúða sem urðu fullbúnar á árinu 2022 staðsettar á Suðurnesjum en 9% á tímabilinu janúar –nóvember 2025. Á Vesturlandi hefur hlutfallið jafnframt lækkað úr 6% í 2%. Á móti hefur vægi Suðurlands og Austurlands aukist lítillega og haldist stöðugt síðustu ár.

Bygg­ing­ar­mark­að­ur­inn hef­ur sett meiri áherslu á minni íbúð­ir

Myndin hér að neðan sýnir að stærðardreifing íbúða sem nú eru í byggingu fellur mun betur að stærðardreifingu þeirra íbúða sem selst hafa á árunum 2020 til 2025 heldur en að þeim nýbyggingum sem standa óseldar á markaði í dag. Þetta bendir til þess að nýframkvæmdir fylgi nú betur þeirri söludreifingu sem einkennt hefur markaðinn síðustu ár, þar sem minni og hagkvæmar íbúðir, með tilliti til stærðar og herbergjafjölda, hafa selst betur en aðrir stærðarflokkar.

Um fjórðungur íbúða í byggingu er undir 80 fermetrum en einungis 16% óseldra nýrra íbúða eru á því stærðarbili. Um 10% íbúða í byggingu eru yfir 170 fermetrum en einungis 6% óseldra nýrra íbúða eru á því stærðarbili.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS