4. september 2025
3. september 2025
HMS veitti 18 hlutdeildarlán í ágúst
- 18 umsóknir voru samþykktar og var heildarfjárhæð veittra lána um 246 milljónir króna
- Möguleikar tekjuminna fólks til að komast inn á fasteignamarkað farið minnkandi
- Opið er fyrir umsóknir vegna úthlutunar hlutdeildarlána í september
HMS hefur lokið yfirferð umsókna sem bárust í ágúst vegna hlutdeildarlána. Af 33 umsóknum uppfylltu 18 þeirra skilyrði fyrir veitingu láns. Heildarfjárhæð veittra lána nam um 246 milljónum króna, en til úthlutunar voru 333 milljónir króna.
Hlutdeildarlán eru veitt til kaupa á nýjum íbúðum og standa þau til boða fyrir fyrstu kaupendur og þau sem ekki hafa átt íbúð síðastliðin fimm ár og eru undir tilteknum tekjumörkum. Í forgangi eru umsóknir þar sem staðfest kauptilboð liggur fyrir, auk þess sem miða skal við að á hverju ári verði að minnsta kosti 20% veittra hlutdeildarlána veitt til kaupa á íbúðum utan höfuðborgarsvæðisins.
Líkt og HMS hefur áður bent á geta einungis 20% tekjuhæstu einstaklingarnir keypt íbúðir sem kosta 60 milljónir króna eða meira, ef gert er ráð fyrir 80% veðsetningarhlutfalli og tekið er tillit til hámarksgreiðslubyrðarhlutfalls Seðlabanka Íslands. Framboð nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu sem verðlagðar eru undir 60 milljónum króna er þó verulega takmarkað.
Reglur Seðlabankans um hámarksgreiðslubyrði draga líka úr möguleikum til fasteignakaupa með hlutdeildarláni. Stærsti hluti umsókna um hlutdeildarlán sem hefur verið synjað á undanförnum mánuðum er vegna þess að umsækjendur stóðust ekki greiðslumat og reglur um greiðslubyrði.
Meirihluti veittra lána í ágúst voru til kaupa á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu, einkum í Hafnarfirði. Utan höfuðborgarsvæðisins var að þessu sinni helst lánað til kaupa á íbúðum í Sveitarfélaginu Vogum.
Fjöldi og fjárhæðir hlutdeildarlána í ágúst má sjá í töflu hér að neðan.
Opið er fyrir umsóknir fram til 12. september
Opnað hefur verið á ný fyrir umsóknir um hlutdeildarlán og mun umsóknartímabilið standa til kl. 12:00 þann 12. september. Til úthlutunar fyrir tímabilið verða 333 milljónir króna.
Nánari upplýsingar um hlutdeildarlán og umsóknarferlið má finna á Ísland.is