16. ágúst 2024

Hærri húsnæðisbætur koma til móts við lægri rauntekjur bótaþega

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Hækkun grunnfjárhæðar húsnæðisbóta, sem tók gildi í júní síðastliðnum, hefur aukið ráðstöfunartekjur bótaþega, sem eru nú þær mestu og þær hafa verið í þrjú ár. Tekjur bótaþega eru þó enn lægri að raungildi en þær voru á tímabilinu 2017-2019. Þetta kemur fram í upplýsingum sem HMS hefur unnið úr Leiguskrá.

Hús­næð­is­bæt­ur hafa aldrei ver­ið hærri

Líkt og HMS hefur áður greint frá hækkaði grunnfjárhæð húsnæðisbóta um fjórðung í júníbyrjun og nema þær nú að hámarki rúmum 50 þúsund krónum á mánuði fyrir einstaklinga og tæpum 100 þúsund krónum á mánuði fyrir sex manna fjölskyldur. Hægt er að sækja um húsnæðisbætur með því að smella á þennan hlekk.

Meðalgreiðslur húsnæðisbóta hafa aldrei verið hærri frá því að þær voru settar á í ársbyrjun 2017, jafnvel þótt tekið sé tillit til verðbólgu. Líkt og sjá má á mynd hér að neðan voru bæturnar 52.700 krónur í júlímánuði, en þær hafa oftast verið um 40 til 45 þúsund krónur að meðaltali á núverandi verðlagi.

Húsnæðisbætur hafa sömuleiðis aldrei verið hærri sem hlutfall af meðalleigu bótaþeganna, en þær námu um 31 prósenti af leigunni í júlímánuði síðastliðnum, miðað við um 26 prósent í maímánuði. Hlutfallið var lægst í ágúst árið 2020, en þá voru húsnæðisbætur aðeins um 22 prósent af meðalleigu bótaþega.

Ráð­stöf­un­ar­tekj­ur bóta­þega hækka en eru lægri en árið 2017

Frá gildistöku húsnæðisbóta í ársbyrjun 2017 hafa tekjur bótaþega að meðaltali lækkað nokkuð á föstu verðlagi, eða úr 500 þúsund krónum í 436 þúsund krónur í júlí síðastliðnum. Eftir skatt hafa tekjurnar minnkað úr tæpum 400 þúsund krónum í 363 þúsund krónur á sama tímabili. Meðaltekjur bótaþega lækkuðu mest á tímabilinu 2019-2022, en hafa verið tiltölulega stöðugar á síðustu tveimur árum.

Með hærri húsnæðisbótum hafa ráðstöfunartekjur bótaþega hins vegar hækkað. Líkt og sjá má á mynd hér að neðan voru eftirstöðvar af tekjum bótaþega eftir bótagreiðslur, leigu, og skatt um 248 þúsund krónur á mánuði að meðaltali, og hafa þær ekki verið meiri að raunvirði frá ársbyrjun 2021. Ráðstöfunartekjurnar eru þó enn lægri en þær voru árin 2017-2019, en þá námu þær á bilinu 250-270 þúsund krónum á föstu verðlagi dagsins í dag.

Meðaltekjur bótaþega lækkuðu á sama tíma og tekjur láglaunastétta lækkuðu, en samkvæmt Hagstofu lækkuðu mánaðarleg heildarlaun verkafólks í sölu- og þjónustustörfum úr 662 þúsund krónum í 626 þúsund krónur á verðlagi dagsins í dag á tímabilinu 2017-2019.  Hins vegar hækkuðu raunlaun láglaunastétta töluvert eftir árið 2020, á meðan tekjur bótaþega héldust stöðugar ef tekið er tillit til verðlagsþróunar.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS