7. nóvember 2025
10. nóvember 2025
Burður - nýr samstarfsvettvangur í mannvirkjarannsóknum og prófunum
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Burður
Burður, nýr samstarfsvettvangur um mannvirkjarannsóknir og prófanir, var stofnaður í dag af Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra og Loga Einarssyni, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra í húsnæði HMS í Borgartúni. Hlutverk Burðar er að efla og samræma rannsóknir og prófanir í húsnæðis- og mannvirkjagerð á Íslandi. Að vettvanginum koma stjórnvöld, menntastofnanir og atvinnulíf.
,,Almenningur hefur kallað eftir öflugri byggingarannsóknum og prófunum hér á landi og stofnun Burðar er svarið við því. Markmiðið er skýrt: Að Burður leiði til betri bygginga. Bygginga sem eru vandaðar, rannsakaðar og prófaðar – og þar sem þekking ræður för en ekki tilviljun. Rakaskemmdir verða teknar föstum tökum og strax í byrjun næsta árs munum við taka í notkun faggildan gluggaprófunarbúnað. Það þýðir að hægt verður að prófa og votta byggingarvörur sem framleiddar eru hér á landi og styðja þannig við innlenda framleiðendur.“
Inga Sæland, ráðherra
Undanfara Burðar má rekja töluvert langt aftur en hann á rætur sínar að rekja til viðbragða stjórnvalda við ákalli fjölmargra aðila um aukið fjármagn og skýrara skipulag á rannsóknaumhverfi mannvirkjageirans.
Á viðburðinum var jafnframt kynnt útgáfa á ritinu Rannsóknaþörf í húsnæðis- og mannvirkjarannsóknum á Íslandi auk þess sem aðgerðir í Vegvísi að mótun rannsóknaumhverfis mannvirkjagerðar voru gerðar upp. Útgefið efni tengt Burði er nú aðgengileg á vef HMS.
,,Það er mjög ánægjulegt að rannsóknaumhverfið í mannvirkjagerða sé komið á dagskrá en það hefur vantað stefnu í þessum málaflokki. Þetta er einn mikilvægasti málaflokkur í nútíma samfélagi; hvernig við byggjum húsakynni og umhverfi og nátengt því hvernig samfélag við viljum byggja. Burður byggir á þverfaglegri samvinnu milli rannsókna og nýsköpunar og þar er von mín að samnýting á styrkleikum allra aðila, - rannsakenda, búnaðar, gagnaöflunar, fjármögnunar og miðlunar muni auka slagkraft og samfellu frá rannsóknum til innleiðingar og skila öruggari, hagkvæmari og sjálfbærari mannvirkjum.”
Logi Einarsson, ráðherra
Myndaður verður stýrihópur Burðar með fulltrúum stjórnvalda, atvinnulífs og menntastofnana sem mun fylgja eftir og styðja við starf starfsamstarfsvettvangsins. Rekstraraðili Burðar verður HMS en hlutverk stofnunarinnar felst í að tryggja virkt samstarf og uppbyggingu samstarfsvettvangsins.
,,Burður eru hluti af stærra ferli sem þegar er hafið við mótun starfsumhverfis íslenskrar mannvirkjagerðar til framtíðar, sem ætlað er að auka skilvirkni, samræmingu, gæði, sjálfbærni og neytendavernd í mannvirkjagerð. Þannig vinnum við samhliða þessu m.a. að breyttu byggingareftirliti og að koma umsóknum um byggingarleyfi á einn stað. Burður verður án efa einn af máttarstólpum HMS en við erum þegar byrjuð að efla okkar teymi í samræmi við það.“
Hermann Jónasson, forstjóri HMS
Frekari upplýsingar um Burð og undanfari
Í mars 2024 gaf HMS út Vegvísi að mótun rannsóknaumhverfis mannvirkjagerðar. Í honum voru skilgreindar 16 aðgerðir á sviði mannvirkjarannsókna og prófana, sem áttu að varða leiðina út árið 2025 og móta stefnuna fram á við. Hægt var að fylgjast með framgangi aðgerðanna á verkefnatímanum (mars 2024-nóvember 2025) hér. Uppgjör á aðgerðunum má nálgast hér.
Fyrsta aðgerð vegvísisins og einn af grunnþáttum hans var að greina rannsóknaþörf í húsnæðis- og mannvirkjagerð á Íslandi. Stofnað var þverfaglegt vísindaráð vorið 2024 með alls ellefu fulltrúum frá vísindasamfélagi, atvinnulífi og hinu opinbera. Megin hlutverk þess var að greina rannsóknaþörfina á sviði mannvirkja- og húsnæðismála með hliðsjón af húsnæðisstefnu, landskipulagsstefnu og loftslagsmarkmiðum Íslands. Vísindaráð hóf greiningu á rannsóknaþörfinni í apríl 2024 og hefur afraksturinn nú verið gefinn út eftir bæði lokað og opið samráðsferli. Í Rannsóknaþörf í húsnæðis- og mannvirkjagerð koma fram sextán viðfangsefni mannvirkjarannsókna í sex flokkum, sem talið er brýnast að vinna að miðað við íslenskar aðstæður.
Ljóst er að gríðarleg þörf er á að bregðast við rannsóknaþörf í húsnæðis- og mannvirkjagerð hér á landi með markvissum hætti. Fyrsta skrefið til að bregðast við því er að efla samtal og samvinnu allra hagaðila og verður Burður sá samtarfsvettvangur þar sem hagaðilar vinna saman að því að efla og samræma rannóknir og prófarnir í húsnæðis- og mannvirkjagerð á Íslandi. Þar að auki mun Burður bæta samnýtingu innviða, stuðla að skilvirkri nýtingu opinberra fjármuna og miðla þekkingu úr rannsóknaumhverfinu.
Mótun og stofnun Burðar er afrakstur af vinnu aðgerðar 1.4. í vegvísinum. Gengið er út frá því að samstarfsaðilar í Burði verði hagaðilar frá hinu opinbera, menntastofnunum og atvinnulífi. Hver hagaðili komi með innlegg til samstarfsins í takti við hlutverk og starfsemi viðkomandi.
Upplegg á starfsemi Burðar við stofnun hans er eftirfarandi:
Stýrihópur: Myndaður af fulltrúum frá félags- og húsnæðismálaráðuneytinu (FRN), menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytinu (MNH), háskólasamfélagi, atvinnulífi og HMS. Tilgangur hans er að fylgja eftir og styðja við starf starfsamstarfsvettvangsins.
Vísindaráð: Myndað af fulltrúum háskólasamfélags, atvinnulífs og hins opinbera. Greinir rannsóknaþörf mannvirkjageirans hverju sinni og hefur yfirsýn yfir fagþekkingu á markaði.
Rekstraraðili: HMS. Hlutverkið felst einkum í að tryggja öflugt og virkt samstarf ólíkra hagaðila og um leið uppbyggingu vettvangsins.
Fimm lykilþættir rannsóknaumhverfis eru í forgrunni, þ.e. rannsakendur, búnaður, gögn, fjármögnun ásamt miðlun og innleiðingu: Þessa lykilþætti þarf að efla markvisst og styðja við með aðkomu ólíkra hagaðila. Þannig næst slagkraftur í samstarfið með tilheyrandi ávinningi fyrir alla.
Markmið Burðar:
- Að efla slagkraft, sýnileika og samhæfingu rannsókna og prófana.
- Að stuðla að betri byggingum, öruggari mannvirkjum og sjálfbærari þróun með því að sameina þekkingu, innviði og fjármögnun í öflugan vettvang.
Hlutverk Burðar:
- Að móta eftirsóknarvert umhverfi fyrir rannsakendur með því að tryggja fyrirsjáanleika í rannsóknaþörf, fjármögnun, nýliðun og langtímahugsun í greininni.
- Að auka aðgengi að rannsókna- og prófunarbúnaði með með skráningu á búnaði í sameiginlegan grunn, samnýtingu búnaðar, gegnsæjum kostnaði og faglegri þjónustu við notendur hans.
- Að gera gögn aðgengileg og á því formi sem samræmist þörfum notenda. Tengja og miðla þeim gagnabönkum sem til eru og styðja við nýja.
- Að tryggja fjármagn og forgangsröðun til lykilrannsókna og þróunar- og nýsköpunarverkefna í takti við þarfir samfélagsins hverju sinni.
- Að tryggja að nýjungar og nýsköpun skili sér til markaðarins með því að miðla og innleiða betur nýja þekkingu og gera fræðslu og leiðbeiningar aðgengilegri.
Framtíðarsýn Burðar til 2028
- Að samstarfsvettvangurinn hafi fest sig í sessi með markvissri uppbyggingu rannsóknaumhverfis í húsnæðis- og mannvirkjagerð, í samræmi við sameiginlega sýn hagaðila.
- Að kominn sé aukinn slagkraftur og sýnileiki í húsnæðis- og mannvirkjarannsóknir og prófanir.
- Að meira fjármagn sé tryggt til að sinna nauðsynlegum rannsóknum ásamt því að efla þróun og nýsköpun greinarinnar.
Hlutverk, markmið og framtíðarsýn samstarfsvettvangsins voru mótuð eftir kynningar og umræður við hátt í 100 hagaðila á undanförnum mánuðum.
Verkefni, aðgerðaráætlun og vörður fyrir starfsemi Burðar verða unnar á vinnustofum með hagaðilum á næstu vikum en þegar liggja fyrir verkefni og áhersluþættir frá uppgjöri á aðgerðum vegvísis.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS




