20. desember 2024
14. febrúar 2024
Árleg íbúðaþörf minnkar ekki vegna endurmats Hagstofu á íbúafjölda
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Í tilefni fjölmiðlaumfjöllunar um endurmat á íbúðaþörf vegna breyttrar íbúatalningar Hagstofu vill HMS árétta að árleg íbúðaþörf minnkar ekki vegna endurmatsins. Endurmatið hefur áhrif á mat á uppsafnaðri íbúðaþörf eins og HMS benti á árið 2022, en óuppfyllt íbúðaþörf er hrein viðbót við árlega íbúðaþörf til framtíðar samkvæmt húsnæðisáætlunum sveitarfélaga.
Uppbyggingarþörf til að mæta nýrri og óuppfylltri íbúðaþörf er sýnd á mynd hér að neðan.
Líkt og HMS benti á í byrjun febrúar byggir metin íbúðaþörf á sjálfstæðu mati sveitarfélaga á mannfjöldaþróun samkvæmt húsnæðisáætlunum. HMS telur húsnæðisáætlanir sveitarfélaga vera áreiðanlegustu heimildir sem fyrir liggja um íbúðaþörf og leggur þær því til grundvallar í ráðgjöf til stjórnvalda.
Í húsnæðisáætlunum er ekki tekið mið af uppsafnaðri óuppfylltri íbúðaþörf sem skapast hefur síðustu ár vegna þess að uppbygging íbúða hefur ekki haldið í við fólksfjölgun. Ef mæta ætti óuppfylltri íbúðaþörf þyrfti að byggja enn meira en húsnæðisáætlanir sveitarfélaga sýna.
Eins og kemur fram í viðtali Morgunblaðsins í dag 14. febrúar við Þorstein Arnalds tölfræðing hjá HMS hefur endurmat Hagstofunnar áhrif á mat á óuppfylltri íbúðaþörf. Fyrstu upplýsingar um ofmat á íbúðafjölda komu fram haustið 2022 þegar nýtt manntal var gefið út. HMS lét þá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gera greiningu á áhrifum ofmats íbúðafjölda á íbúðaþörf.
Niðurstaða greiningar Hagfræðistofnunar var að ofmat mannfjölda væri raunverulegt og hefði farið vaxandi. Hins vegar væri íbúðaþörf líklega ekki ofmetin þar sem fólksfjölgun hefði verið langt umfram spár sem þarfagreiningin byggði á. Ofmat mannfjölda kollvarpar ekki fyrra mati á íbúðaþörf, þar sem aukning íbúðarþarfar tekur mið af fólksfjölgun á milli ára en ekki fólksfjölda á hverju ári.
Samkvæmt húsnæðisáætlunum sveitarfélaga þarf að byggja um 4.000 íbúðir á ári næstu árin til að mæta nýrri íbúðaþörf. HMS hefur ekki lagt formlegt mat á óuppfyllta íbúðaþörf síðustu árin en ef notaður er einfaldur framreikningur eins og gert er í framangreindu viðtali má ætla að óuppfyllt íbúðaþörf sé um 2.400 íbúðir. Bætist hún við nýja íbúðaþörf samkvæmt framangreindu og ef t.d. ætti að ná að uppfylla hana strax á árinu 2024 þyrfti að byggja rúmlega 6.400 íbúðir í ár.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS