27. febrúar 2024

Akureyrarbær samþykkir fyrstu stafrænu brunavarnaáætlun landsins

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Samþykkt fyrstu stafrænu brunavarnaáætlunar landsins á Akureyri markar tímamót í stafrænni lausn fyrir starfsemi slökkviliða
  • Samkvæmt áætluninni hefur áhættan aukist í sveitarfélaginu, meðal annars vegna tilkomu nýrra fyrirtækja og aukningu ferðamanna
  • HMS stefnir á að 80% slökkviliða landsins verði með virka brunavarnaáætlun undir lok þessa árs

Akureyrarbær samþykkti þann 20. febrúar brunavarnaáætlun sveitarfélagsins til næstu fimm ára, en hún er fyrsta stafræna brunavarnaáætlun landsins. Brunavarnaáætlunin er nú aðgengileg á vefsíðu viðkomandi sveitarfélags en einnig er hún birt á vef HMS og má nálgast með því að smella á þennan hlekk.

Stór tíma­mót í staf­rænni lausn fyr­ir slökkvi­lið­in

Þar sem brunavarnaáætlun Akureyrar er fyrsta stafræna brunavarnaáætlun landsins markar samþykkt hennar stór tímamót í stafrænni lausn fyrir slökkviliðin. Stafrænar brunavarnaáætlanir eru unnar á einfaldari hátt en áður og munu veita betri yfirsýn yfir stöðu slökkviliða á landsvísu með samræmdum og samanburðarhæfum upplýsingum. Upplýsingarnar sem nýttar eru í áætlanirnar eru unnar í gegnum Brunagátt, sem er miðlæg gátt er HMS rekur fyrir rauntímaupplýsingar um stöðu slökkviliða og eru gögnin nýtt til forskráningar í áætlanirnar. Upplýsingum er viðhaldið í gáttinni og eru þær uppfærðar í samræmi við breytingar.

Samkvæmt Gunnari Rúnari Ólafssyni, slökkviliðsstjóra á Akureyri, munu stafrænar brunavarnaáætlanir meðal annars auðvelda slökkviliðinu að bregðast við breytingum í samfélaginu í rauntíma. Gunnar segir einnig að stafræna brunavarnaáætlunin sé auðveldari í vinnslu og að aðferðarfræðin á bak við hana sé betri en hjá fyrri brunavarnaáætlunum, sem auðveldi slökkviliðum við að leggja fram áhættumat og reikna út viðbragðstíma.

Auk­in áhætta vegna fyr­ir­tækja, ferða­manna, og skemmti­ferð­ar­skipa

Slökkvilið Akureyrar er eina starfandi atvinnuslökkviliðið á Norðurlandi. Starfssvæði þess er 2.861 km2 og er íbúafjöldinn á svæðinu 22.329. Starfsstöðvarnar eru þrjár, á Akureyri, Hrísey og Grímsey. Árið 2023 fór slökkviliðið í 135 útköll og var 50% af þeim útköll vegna elds. 12% af útköllum voru í F1 forgangi, en er það hæsti forgangur útkalla.

Samkvæmt áhættumati Slökkviliðs Akureyrar, sem er í nýsamþykktri brunavarnaáætlun, hefur áhætta aukist í sveitarfélaginu. Helstu ástæður þess séu ný fyrirtæki sem opnað hafa þar, auk fleiri ferðamanna og komu skemmtiferðaskipa. Einnig hafi áhættur vegna gróðurelda aukist.

Stefnt að því að 80% slökkvi­liða hafi virka bruna­varna­á­ætl­un

Í byrjun árs 2023 voru 53% slökkviliða með virka brunavarnaáætlun og jókst hlutfallið yfir árið. Í desember 2023 voru 69% slökkviliða og 83,9% íbúa landsins með virka áætlun. Um áramótin runnu þrjár áætlanir úr gildi en strax í febrúar 2024 er hlutfallið komið upp í 60% slökkviliða og 87,6% íbúa landsins sem eru með virka áætlun. Með tilkomu stafrænna brunavarnaáætlana er búist við að þessi hlutföll fari ört hækkandi, en HMS stefnir að því að í lok árs 2024 verði allt að 80 prósent slökkviliða komin með virka áætlun.

Virkar brunavarnaáætlanir á landinu eftir mánuðum.

Markmið brunavarnaáætlunar er að tryggja að slökkvilið sé þannig mannað skipulagt, útbúið tækjum, menntað og þjálfað að það ráði við þær áhættur sem eru í sveitarfélaginu. Á hverju starfssvæði slökkviliðs skal liggja fyrir brunavarnaáætlun sem fengið hefur samþykki HMS og viðkomandi sveitarstjórnar. Slökkviliðsstjóri vinnur brunavarnaáætlun sem er öflugt verkfæri til að ná fram yfirsýn yfir starfsemi og ástand slökkviliðs og hversu vel í stakk búið það er að takast við áhættur á sínu svæði.

HMS óskar Slökkviliði Akureyrar og íbúum sveitarfélagsins til hamingju með áfangann.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS