11. nóvember 2025
13. nóvember 2025
Mikil umsvif á fasteignamarkaði í október þrátt fyrir breytingar á lánamarkaði
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Yfir þúsund kaupsamningum var þinglýst í október þrátt fyrir óvissu á lánamarkaði
- Íbúðalán á breytilegum vöxtum eru nú nánast ófáanleg hjá bönkunum en lífeyrissjóðirnir hafa ekki enn kynnt breytingar á lánaframboði
- Lánakjör fyrstu kaupenda hafa versnað
Kaupsamningar voru fleiri í október heldur en í september, þrátt fyrir óvissu á lánamarkaði vegna vaxtamálsins svokallaða. Lánakjör fyrstu kaupenda hafa versnað umfram kjör annarra á síðustu vikum, auk þess sem færri lánaform standa þeim til boða. Þetta er á meðal þess sem fjallað verður ítarlega um í næstu mánaðarskýrslu HMS.
Yfir þúsund kaupsamningar í október
Þinglýstir kaupsamningar um íbúðarhúsnæði voru að minnsta kosti 1.037 í nýliðnum októbermánuði samkvæmt bráðabirgðatölum úr mælaborði HMS um veltu og fjölda kaupsamninga. Til samanburðar voru þinglýstir kaupsamningar 985 talsins í septembermánuði. Fjölgun kaupsamninga milli mánaða í október virðist að mestu leyti drifin áfram af lögaðilum sem kaupendum, þó samningum þar sem einstaklingar voru kaupendur hafi jafnframt fjölgað lítillega milli mánaða.
Nokkur tími getur liðið frá því að lánsumsókn er samþykkt þar til kaupsamningur er undirritaður. Þeir kaupsamningar sem dagsettir eru í seinni hluta októbermánaðar geta því varðað viðskipti sem áttu sér stað áður en vaxtadómurinn féll og aðgengi að lánsfjármagni var takmarkað.
Lánakjör fyrstu kaupenda hafa versnað á síðustu vikum
Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn hafa skert lánaframboð sitt vegna vaxtamálsins og er nú hvergi hægt að taka verðtryggt lán á breytilegum vöxtum. Samhliða tilkynningum um breytt lánaframboð lækkuðu bankarnir hámarksveðhlutfall fyrir grunnlán niður í 50%, en sú breyting er í samræmi við innleiðingu CRR III reglugerðarinnar sem kveður á um breyttar áhættuvogir fyrir íbúðalán eftir veðhlutföllum.
Minna lánaframboð og lægra hámarksveðhlutfall fyrir grunnlán er ígildi vaxtahækkunar fyrir fyrstu kaupendur, sem taka lán með mikilli veðsetningu. Í meðfylgjandi töflu má sjá samanburð á vaxtakjörum fyrir og eftir breytingar fyrir lán með 70% veðhlutfall eftir lánastofnunum og tegund lána.
Ofangreindar breytingar eru ekki til þess fallnar að bæta lánakjör á íbúðalánum heldur frekar að rýra lánakjör, a.m.k. á lánum með veðhlutfall yfir 50%. Breytilegir vextir á óverðtryggðum lánum frá Landsbankanum hækka um 1 prósentustig og fastir óverðtryggðir vextir hækka um 0,05 – 0,31 prósentustig hjá bönkunum þremur. Fastir vextir af verðtryggðum lánum hækka hins vegar um 0,3 – 0,41 prósentustig hjá bönkunum.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS




