14. nóvember 2025

Minni eftirspurnarþrýstingur mælist á leigumarkaði

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Gildum leigusamningum í leiguskrá HMS hefur fjölgað um rúmlega 4 þúsund á milli októbermánaða 2024 og 2025
  • Virkum leitendum á leiguvefnum Myigloo.is fækkar á milli mánaða
  • Eftirspurnarþrýstingur er minni á leigumarkaði á sama tíma og leiguverð hækkar hægar

Alls tóku 1.448 nýir leigusamningar gildi í leiguskrá HMS í október á sama tíma og 879 samningar féllu úr gildi. Skráðir leigusamningar hjá HMS sem eru í gildi eru nú um 27.500 talsins, líkt og sjá má í leiguverðsjá.

Gildum leigusamningum sem skráðir eru hjá HMS hefur fjölgað hratt frá því að ný leiguskrá tók gildi í janúar 2023. Á milli októbermánaða 2024 og 2025 hefur gildum samningum fjölgað um rúmlega 4 þúsund.

Á myndinni hér að ofan má sjá fjölda gildra leigusamninga í hverjum mánuði eftir tegund leigu. Meira en helmingur gildra leigusamninga í leiguskrá í október eru markaðsleigusamningar, eða 63% samninga. Hlutdeild markaðsleigusamninga hefur farið vaxandi, en í janúar 2024 vörðuðu um 55% gildra leigusamninga íbúðir sem leigðar eru út á markaðslegum forsendum.

Færri leigj­end­ur kepp­ast um hverja íbúð

Leiguvefurinn Myigloo.is er markaðstorg fyrir leigjendur og leigusala. Meginþorri leigusamninga sem skila sér þaðan í leiguskrá HMS eru vegna leiguíbúða sem leigðar eru út af einstaklingum. Fyrir vikið gefur gagnasafn Myigloo.is nokkuð raunsæja mynd af þróun þess hluta markaðarins.

Á meðfylgjandi grafi má sjá fjölda virkra leitenda, en það eru notendur sem sækja að minnsta kosti einu sinni um leiguhúsnæði innan hvers mánaðar á Myigloo.is. Í september og október fækkaði virkum leitendum nokkuð, sem bendir til þess að eftirspurn eftir leiguhúsnæði hafi minnkað. Alls sóttu 1.259 notendur Myigloo.is að minnsta kosti einu sinni um leiguhúsnæði í október og 1.489 notendur í september. Til samanburðar hafa virkir leitendur verið á bilinu 1.500 til 1.800 í hverjum mánuði frá ársbyrjun.

Á sama tíma og virkum leitendum hefur fækkað undanfarna mánuði hefur markaðsleigusamningum sem skráðir eru af Myigloo.is fjölgað lítillega. Þessi þróun bendir til þess að eftirspurnarþrýstingur á leigumarkaði hafi minnkað undanfarið, þar sem færri tilvonandi leigjendur keppast nú um hverja íbúð en áður. Á sama tíma nam 12 mánaða hækkun vísitölu leiguverðs 7,4% í september í ár, en til samanburðar nam 12 mánaða hækkun vísitölunnar 10,5% í september í fyrra.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS