Desember 2025
Óskir og væntingar um framtíðarbúsetu

Niðurstöður könnunar á húsnæðisþörf Íslendinga

Desember 2025

Óskir og væntingar um framtíðarbúsetu

- Niðurstöður könnunar á húsnæðisþörf Íslendinga
Desember 2025
Óskir og væntingar um framtíðarbúsetu

Niðurstöður könnunar á húsnæðisþörf Íslendinga

Desember 2025

Óskir og væntingar um framtíðarbúsetu

- Niðurstöður könnunar á húsnæðisþörf Íslendinga

Yfirlit

Sam­an­tekt

Meirihluti Íslendinga býr í eigin húsnæði í dag en greina má vilja hjá öllum aldurshópum til að búa í enn ríkara mæli í eigin húsnæði, þó mestrar aukningar sé að vænta meðal yngstu aldurshópanna. Könnunin nær, líkt og fyrri búsetumælingar HMS, að takmörkuðu leyti til aðfluttra íbúa. Húsnæðisaðstæður þeirra voru þó kannaðar sérstaklega í sumar, þar sem í ljós kom að flestir aðfluttir íbúar búi í leiguhúsnæði, en stefni, líkt og aðrir Íslendingar, á að komast í auknum mæli í eigin húsnæði.

Ekki er að vænta umfangsmikilla breytinga á búsetudreifingu eftir landshlutum, en um 5% þátttakenda gera ráð fyrir að vera búsett erlendis eftir 5 ár. Stór hluti þeirra er í yngsta aldurshópnum, en algengt er að ungt fólk sæki háskólamenntun erlendis. Einungis um 4% gera ráð fyrir að flytja af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið, og um 3% gera ráð fyrir að flytja af höfuðborgarsvæðinu út á land á næstu fimm árum.

Reykvíkingar telja sig líklegri en íbúa annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðarbúa til að flytja á milli svæða á næstu fimm árum. Innan höfuðborgarsvæðisins er útlit fyrir að sjö vinsælustu hverfin haldi sessi. Miðborgin og Laugardalurinn vaxa mest í vinsældum á kostnað annarra hverfa, en Hlíðarnar stefna í að vera áfram fjölmennasta hverfi Reykjavíkur.

Hreyfingar milli íbúðategunda eru ólíkar milli aldurshópa. Yngsti aldurshópurinn stefnir að einhverju leyti á að flytja úr sérbýlishúsum foreldra sinna í stærri og minni fjölbýli. Fólk á aldrinum 25-64 ára gerir ráð fyrir að búa í auknum mæli í sérbýli en í minna mæli í fjölbýli. Þegar líður á eldri árin gerir fólk hins vegar ráð fyrir að flytja sig í auknum mæli úr sérbýli í fjölbýli.

Hvað varðar stærð íbúðarhúsnæðis má greina að fólk er alla jafna að stækka við sig með aldri framan af og að fólk búi að jafnaði í stærstu íbúðunum um fimmtugt. Eftir það fer fólk að minnka við sig, bæði hvað varðar fermetrafjölda og herbergjafjölda.

Talsverður munur er á því hvaða atriði vega þyngst við val á húsnæði eftir aldurshópum. Ungt fólk, sem hefur að jafnaði lægri tekjur og á minna eigið fé en þeir sem eldri eru, telja verð húsnæðis skipta mestu máli á meðan önnur atriði sem varða gæði og meiri þægindi eru neðarlega á lista. Eftir því sem fólk eldist og fjárhagsleg staða þess styrkist fer verð að skipta sífellt minna máli. Fólk eldra en 65 ára leggur höfuðáherslu á eiginleika sem snúa að gæðum og þægindum, líkt og svalir, pall, næg bílastæði og góð birtuskilyrði. Allir aldurshópar telja þó mikilvægt að ástand húsnæðisins sé gott.

Inn­gang­ur

Sumarið 2025 lét HMS framkvæma könnun á húsnæðisþörf Íslendinga. Skoðað var hvernig Íslendingar búa í dag og hvernig þeir sjá fyrir sér stöðuna eftir 5 ár, með tilliti til ýmissa atriða, svo sem búsetuforms, staðsetningar, stærðar og tegundar húsnæðis. Þá var einnig kannað hvaða atriði hefðu mest áhrif við val þátttakenda á húsnæði.

Könnunarfyrirtækið Prósent sá um framkvæmd könnunarinnar fyrir hönd HMS. Gagnaöflun fór fram á tímabilinu 1. til 15. júlí 2025 með netkönnun sem lögð var fyrir meðlimi í könnunarhópi Prósents. Úrtakið samanstóð af 2.100 einstaklingum og alls bárust 1.075 svör. Svarhlutfallið í könnuninni var því 51%. Til þess að niðurstöðurnar endurspegli betur álit þjóðarinnar voru niðurstöðurnar vigtaðar með tilliti til kyns, aldurs og búsetu.

Ís­lend­ing­ar stefna á að búa í aukn­um mæli í eig­in hús­næði

Þátttakendur voru beðnir að svara því hvað lýsir best búsetu þeirra í dag og hvað þeir telji að muni lýsa best búsetu sinni eftir fimm ár. Eftir vigtun niðurstaðna má líta svo á að um 73% þjóðarinnar búi í eigin húsnæði, um 13% búi í leiguhúsnæði, 10% búi í foreldrahúsum og 4% búi í annars konar húsnæði.

Við þessar niðurstöður er þó sá fyrirvari að könnunin, líkt og aðrar búsetumælingar HMS, hefur ekki náð til aðfluttra íbúa nema að takmörkuðu leyti. Meirihluti aðfluttra eru á leigumarkaði og því er líklegt að umfang leigumarkaðarins sé vanmetið í þessari könnun.

Niðurstöður könnunarinnar leiða í ljós að Íslendingar vilji flestir búa í eigin húsnæði, því eftir 5 ár stefna um 88% þátttakenda á að búa í eigin húsnæði, á meðan 8% telja sig áfram munu búa í leiguhúsnæði, en hlutdeild þeirra sem telja sig munu búa í foreldrahúsum er hverfandi (1%). Hlutdeild þeirra sem telja sig munu búa í annars konar húsnæði heldur en eigin húsnæði, leiguhúsnæði eða foreldrahúsum eftir fimm ár er svipuð og í dag, eða 3%.

Greina má vilja til þess að búa í auknum mæli í eigin húsnæði meðal einstaklinga í öllum aldurshópum. Mestrar aukningar á hlutdeild þeirra sem búa í eigin húsnæði er að vænta meðal yngsta aldurshópsins, sem býr að stórum hluta í foreldrahúsum í dag. Vænt aukning í hlutdeild þeirra sem búa í eigin húsnæði fer svo minnkandi með aldri og einungis lítilla breytinga er að vænta meðal elsta aldurshópsins sem þó gerir ráð fyrir að búa í litlu meira mæli í eigin húsnæði eftir fimm ár.

Stór hluti breytinganna á núverandi og væntu búsetuformi skýrist því af væntingum ungs fólks og fólks á barneignaraldri til breyttrar búsetu. Yngsti aldurshópurinn, fólk á aldrinum 18-24 ára, stefnir á að flytja úr foreldrahúsum að mestu leyti í eigið húsnæði. Fólk á barneignaraldri stefnir á að komast inn á eignarmarkaðinn úr foreldrahúsum annars vegar, og af leigumarkaði hins vegar.

Hafa ber í huga að eftir fimm ár yrðu allir þátttakendur könnunarinnar fimm árum eldri og því væru fáir eftir í yngsta aldurshópnum. Ætla má að ef könnunin væri gerð aftur eftir fimm ár, þegar nýir árgangar verða komnir í aldursflokkinn 18-24 ára, væru aftur komin um 10% þátttakenda í þann hóp sem býr í foreldrahúsum. Að sama skapi má gera ráð fyrir því að nýir árgangar yrðu komnir inn í þann hóp sem væri á leigumarkaði.

Að­flutt­ir eru flest­ir á leigu­mark­aði en vilja kom­ast í aukn­um mæli í eig­ið hús­næði

Búsetukannanir HMS hafa náð að mjög takmörkuðu leiti til aðfluttra íbúa hér á landi, og það sama má segja um þá könnun sem hér er fjallað um. Í ljósi þess lét HMS nýlega framkvæma sérstaka búsetukönnun meðal aðfluttra félagsmanna þriggja stéttarfélaga, þar sem í ljós kom að stærð leigumarkaðar hafði verið verulega vanmetin. Könnunin var lögð fyrir á íslensku, ensku og pólsku, gögnum var safnað frá 25. júní til 5. ágúst 2025 og úrtakið samanstóð af rúmlega 20 þúsund einstaklingum. Alls bárust tæplega 2.800 svör. Niðurstöðurnar eru aðgengilegar á vef HMS.

Líkt og í þessari könnun, um húsnæðisþörf Íslendinga, voru þátttakendur beðnir að svara því hvað lýsir best búsetu þeirra í dag og hvað þeir telji að muni lýsa best búsetu sinni eftir fimm ár. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eru um þrír af hverjum fjórum aðfluttum á leigumarkaði í dag.

Aðfluttir, líkt og innfæddir Íslendingar, stefna á að komast í eigið húsnæði í auknum mæli á næstu fimm árum. Sé einungis litið til þeirra sem gera ekki ráð fyrir að flytja frá Íslandi eru um 69% þeirra á leigumarkaði í dag, en eftir 5 ár gera um 47% ráð fyrir að vera á leigumarkaði. Einungis 19% aðfluttra sem ætla að vera hér áfram búa í eigin húsnæði í dag, en eftir 5 ár áætla um 45% aðfluttra að búa í eigin húsnæði.

Það athugist að könnunin á húsnæðisaðstæðum aðfluttra var lögð fyrir úrtak sem nær nánast eingöngu til aðila á vinnumarkaði, enda samanstóð úrtakið af félagsmönnum þriggja stéttarfélaga. Niðurstöðurnar endurspegla því ekki húsnæðisaðstæður aðfluttra sem standa utan vinnumarkaðar hér á landi. Í ljósi þess að aðilar utan vinnumarkaðar eru að jafnaði líklegri til að vera á leigumarkaði en þeir sem eru á vinnumarkaði er hér um að ræða varfærið mat á hlutfalli aðfluttra á leigumarkaði.

Að jafn­aði 2,8 ein­stak­ling­ar á hverju heim­ili

Ein bakgrunnsbreyta könnunarinnar varðaði heimilisstærð, en þátttakendur voru beðnir að veita upplýsingar um hversu margir einstaklingar byggju á heimili þeirra, að þeim meðtöldum. Hægt var að velja fjölda frá einum upp í fimm, eða velja valkostinn „6 eða fleiri“. Sé gert ráð fyrir að það búi 6 einstaklingar á heimilum þeirra þátttakenda sem völdu síðastnefnda valkostinn má gera ráð fyrir að það búi að meðaltali 2,8 einstaklingar á hverju heimili.

Ef meðalheimilisstærð er skoðuð eftir búsetuformi má sjá að einstaklingar sem búa í eigin húsnæði búa að jafnaði á fjölmennari heimilum en einstaklingar sem búa í leiguhúsnæði. Að meðaltali búa 2,9 einstaklingar á heimilum í eigin húsnæði, samanborið við um 2,4 einstaklinga á heimilum á leigumarkaði. Þetta er í samræmi við fyrri kannanir og skýrist af því að leigjendur eru gjarnan ungt fólk sem býr eitt.

Heimilisstærð er einnig ólík eftir svæðum og sveitarfélögum. Á höfuðborgarsvæðinu búa að jafnaði litlu færri í hverju heimili en á landsbyggðinni, eða um 2,8 einstaklingar að meðaltali samanborið við um 3 einstaklinga á landsbyggðinni.

Sé litið til sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu má lesa úr niðurstöðum könnunarinnar að meðalheimilisstærð sé að jafnaði minnst í Garðabæ, en stærst í Kópavogi. Í Garðabæ búa að meðaltali 2,5 einstaklingar á hverju heimili, en 3,2 einstaklingar í Kópavogi. Í Reykjavík eru svo að meðaltali 2,7 einstaklingar á heimili, í Mosfellsbæ eru þeir að jafnaði 2,9 og í Hafnarfirði eru 3 sem búa á hverju heimili.

Reyk­vík­ing­ar lík­leg­ast­ir til að flytja á milli svæða

Þátttakendur könnunarinnar voru spurðir hvar þeir búa í dag og hvar þeir telji sig munu búa eftir fimm ár. Niðurstöðurnar sýna að heilt yfir er ekki að vænta verulegra breytinga á búsetudreifingu eftir landshlutum. Hins vegar má greina nokkurn fjölda þátttakenda sem reikna með að vera búsettir erlendis að fimm árum liðnum, eða um 5% þátttakenda. Hópurinn virðist koma bæði af höfuðborgarsvæðinu og af landsbyggðinni.

Af þeim sem stefna að því að flytja erlendis virðast flestir vera á aldrinum 18-24 ára, en eins og þekkist vel er algengt að ungt fólk haldi erlendis til menntunar. Flestir snúa þó heim að námi loknu.

Til samræmis við væntingar um óverulegar breytingar á búsetudreifingu landans gera þátttakendur, heilt á litið, í heldur takmörkuðu mæli ráð fyrir að flytjast búferlaflutningum á milli höfuðborgarsvæðisins annars vegar og landsbyggðarinnar hins vegar. Einungis 4% þeirra sem eru búsett á landsbyggðinni í dag gera ráð fyrir að búa á höfuðborgarsvæðinu eftir 5 ár, og sömuleiðis gera einungis 3% þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu í dag ráð fyrir að búa á landsbyggðinni eftir 5 ár.

Reykvíkingar telja sig líklegri, en íbúa annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðarbúa, til að flytja á milli svæða á næstu fimm árum. Um 82% Reykvíkinga telja sig munu búa áfram í Reykjavík eftir 5 ár, samanborið við um 87% íbúa annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og um 90% íbúa á landsbyggðinni. Um 9% Reykjavíkurbúa gera ráð fyrir að flytja í önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, um 4% gera ráð fyrir að flytja út á land og um 5% gera ráð fyrir að flytja erlendis.

Um 9% íbúa nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur gera ráð fyrir að búa í Reykjavík að fimm árum liðnum, um 2% telja sig munu flytja út á land og um 3% erlendis. Einungis 3% íbúa landsbyggðarinnar telja sig munu flytja til Reykjavíkur á næstu árum og einungis 1% til annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, en 6% áætla að vera búsett erlendis eftir 5 ár.

Vin­sæl­ustu hverfi Reykja­vík­ur virð­ast munu halda sessi

Reykvíkingar voru jafnframt spurðir í hvaða hverfi þau búa í dag og hvaða hverfi þau telja líklegt að þau muni búa í eftir fimm ár. Tilgangurinn var að kanna hvort vænta mætti umfangsmikilla búferlaflutninga milli hverfa innan höfuðborgarinnar á næstu árum. Heilt á litið benda niðurstöðurnar til þess að sjö vinsælustu póstnúmerin í Reykjavík muni halda sessi á komandi árum og hýsa þau svæði tæplega 80% höfuðborgarbúa í dag sem og væntingar eru eftir fimm ár meðal þátttakenda könnunarinnar.

Miðborgin (póstnúmer 101) og Laugardalurinn (póstnúmer 104) virðast vera álitlegir framtíðar búsetukostir í Reykjavík að mati þátttakenda, en þessi tvö hverfi vaxa mest í vinsældum á kostnað annarra hverfa. Hlíðarnar (póstnúmer 105) halda þó toppsætinu og stefna í að vera áfram fjölmennasta hverfi Reykjavíkur eftir 5 ár.

Sé aldurshópurinn 18-34 ára skoðaður sérstaklega má sjá að helstu breytingar felast í flutningi fólks frá háskólasvæðunum í Vatnsmýrinni, sem komast ekki á lista yfir sjö vinsælustu hverfin eftir 5 ár. Um 10% svarenda á aldursbilinu 18-34 ára líta á Laugardalinn sem líklega búsetu eftir 5 ár, en Laugardalurinn er ekki meðal sjö vinsælustu hverfanna hjá þessum aldurshópi í dag. Þá virðist aldurshópurinn 18-34 ára horfa í auknum mæli til miðbæjarsvæðisins sem álitlegs búsetukosts eftir fimm ár, samanborið við í dag.

Hreyf­ing­ar milli íbúða­teg­unda ólík­ar milli ald­urs­hópa

Kannað var í hverskonar húsnæði fólk býr í dag og hverskonar húsnæði fólk sér fyrir sér að búa í að 5 árum liðnum. Valmöguleikarnir sem þátttakendur gátu valið á milli voru einbýlishús, raðhús/parhús, tví-, þrí- og fjórbýli, blokkaríbúð eða annars konar húsnæði.

Heilt á litið virðist skipting á milli íbúðategunda í dag og eftir fimm ár vera nokkuð svipuð. Um 37% búa í blokkaríbúðum í dag, um 23% búa í einbýlishúsum, um 19% búa í minni fjölbýlum og um 19% í par- eða raðhúsum. Litlu færri gera ráð fyrir að búa í stórum fjölbýlum eftir fimm ár á sama tíma og litlu fleiri gera ráð fyrir að búa í minni fjölbýlum.

Hreyfingar milli íbúðategunda eru aftur á móti ólíkar milli aldurshópa, eins og við er að búast, og því eru mismunandi aldurshópar skoðaðir sérstaklega. Stór hluti yngsta aldurshópsins, 18-24 ára, er að flytja úr foreldrahúsum og að stofna sitt fyrsta heimili. Þetta skýrir þá miklu fækkun meðal þeirra sem búa sérbýlishúsum (einbýlis-, par-, eða raðhúsum), og fjölgun þeirra sem búa í fjölbýlishúsum á móti.

Helmingur þeirra sem eru á aldrinum 25-34 ára er búsettur í blokkaríbúðum í dag. Á næstu fimm árum gerir þessi aldurshópur hins vegar ráð fyrir að flytja sig í auknum mæli í minni fjölbýli eða sérbýli, þá sérstaklega í par- eða raðhús. Hluti þessa aldurshóps er þó enn búsettur í foreldrahúsum, og því má gera ráð fyrir að einhverjir í hópnum sjái fyrir sér að flytja úr sérbýlishúsum foreldra sinna í minni íbúðir í fjölbýlishúsum.

Aldurshópurinn 35-64 ára virðist sjá fyrir sér að flytjast í enn ríkara mæli úr blokkaríbúðum og minni fjölbýlum í sérbýli, sérstaklega einbýlishús en einnig par- eða raðhús.

Við upphaf þriðja æviskeiðsins er algengt að fólk hafi áhuga á að minnka við sig húsnæði á ný. Á þeim tímapunkti í lífi fólks eru börnin í flestum tilvikum uppkomin og flutt að heiman og fólk er að ljúka starfsferli sínum. Niðurstöður um núverandi og vænta tegund húsnæðis fyrir elsta aldurshópinn, 65 ára og eldri, staðfesta þetta með skýrum hætti. Þátttakendur í þeim aldurshópi gera í minna mæli ráð fyrir að búa í einbýlis-, par- eða raðhúsum eftir fimm ár, en gera á móti ráð fyrir að búa í auknum mæli í blokkaríbúðum eða minni fjölbýlum.

Samantekt á væntum breytingum á tegund húsnæðis eftir aldurshópum má sjá á myndinni hér fyrir neðan.

Gera ráð fyr­ir að stækka við sig fram að fimm­tugu

Þátttakendur voru einnig spurðir um fjölda herbergja í núverandi húsnæði og jafnframt hvað þau telji að það verði mörg herbergi í því húsnæði sem þau gera ráð fyrir að búa í eftir 5 ár. Hér er miðað við að stofan sé fyrsta herbergið í íbúðinni þannig að svefnherbergin séu einu færri en herbergjafjöldinn sem hér er talað um.

Heilt á litið virðist ekki mikill munur á herbergjafjölda í núverandi húsnæði og herbergjafjölda í því húsnæði sem fólk reiknar með að búa í eftir 5 ár. Þátttakendur búa að meðaltali í fjögurra herbergja íbúðum í dag, þ.e. þriggja svefnherbergja íbúðum. Eftir fimm ár gera þátttakendur hins vegar ráð fyrir að það verði að um 3,7 herbergi í íbúðum þeirra og gera þannig að jafnaði ráð fyrir fækkun herbergja í framtíðarhúsnæði sínu.

Þær breytingar sem þó mælast skýrast að mestu leyti af ungu fólki sem sér fyrir sér að flytja úr foreldrahúsum í minna húsnæði. Í dag býr þessi hópur í húsnæði með að meðaltali 4,6 herbergjum, en gerir ráð fyrir að búa í íbúðum með að jafnaði 2,5 herbergjum eftir 5 ár.

Hópurinn sem er annaðhvort á leigumarkaði eða í eigin húsnæði í dag gerir ráð fyrir óverulegum breytingum á herbergjafjölda á næstu árum. Eigendur og leigjendur búa að jafnaði í 4ra herbergja íbúðum í dag, en sjá fyrir sér að eftir 5 ár geti húsnæði þeirra verið 0,1 herbergi minna að meðaltali.

Greina má ólíka þróun eftir aldurshópum, en fólk á aldrinum 25-44 ára gerir ráð fyrir að stækka við sig á næstu fimm árum, úr að meðaltali 3,8 herbergjum í dag, í 4,3 herbergi eftir 5 ár. Fólk 45 ára og eldra gerir aftur á móti frekar ráð fyrir að minnka við sig, úr að meðaltali 4,1 bergergi í dag, í 3,7 herbergi að jafnaði eftir 5 ár.

Eig­end­ur gera ráð fyr­ir að minnka lít­il­lega við sig en leigj­end­ur stækka við sig

Þátttakendur voru spurðir um stærð húsnæðisins sem þeir búa í núna og hversu stórt húsnæði þeir telja líklegt að þeir muni búa í eftir fimm ár. Niðurstöðurnar sýna að húseigendur búast við að minnka við sig, leigjendur búast við að stækka við sig og þeir sem búa í foreldrahúsum gera almennt ráð fyrir að fyrsta íbúðin verði um 79 fermetrar að stærð.

Heilt yfir gera þátttakendur ráð fyrir að meðalstærð íbúðarhúsnæðis þeirra minnki á næstu fimm árum, þar sem meðalstærð húsnæðis færist úr 129 fermetrum í um 120 fermetra. Þróunin er þó mjög breytileg eftir búsetuformi og aldri. Fólk býr að jafnaði í stærstu íbúðunum um fimmtugt, en eftir þann aldur fer það smám saman að minnka við sig.

Áhrifa­þætt­ir við val á hús­næði eru mis­mun­andi eft­ir ald­urs­hóp­um

Í könnuninni voru þátttakendur beðnir um að nefna tíu þætti sem skipta þá mestu máli við val á húsnæði. Með því fæst góð mynd af því hvaða eiginleikar húsnæðis vega þyngst hjá ólíkum hópum og hvernig þarfir og áherslur breytast eftir aldri og öðrum breytum. Heilt á litið virðast ástand húsnæðis, staðsetning þess og verð skipta mestu máli við val á húsnæði.

Á mynd hér að neðan má sjá helstu þættina sem þátttakendur nefndu. Þættirnir eru raðaðir upp eftir því hversu hátt hlutfall þátttakenda nefndi þá.

Þegar litið er á hvaða atriði vega þyngst við val á húsnæði eftir aldri sést greinileg breyting í takt við mismunandi lífsskeið fólks. Myndin hér að neðan dregur fram nokkur atriði sem sýna þessa þróun. Verð hefur mest vægi hjá yngstu hópunum sem eru að stíga sín fyrstu skref á húsnæðismarkaði, en með hækkandi aldri færist áherslan smám saman yfir á gæði og þægindi, eins og svalir, bílastæði og góð birtuskilyrði.

Á myndum hér að neðan má sjá þættina sem skipta mestu máli við val á húsnæði eftir aldurshópum, samkvæmt könnuninni. Þættirnir eru raðaðir eftir því hversu hátt hlutfall svarenda í tilteknum aldurshópi nefndi þá sem einn af tíu þáttum sem skipta mestu máli. Rauða línan á eftirfarandi myndum sýnir samsvarandi hlutfall fyrir alla svarendur könnunarinnar, óháð aldri. Með því að bera saman heildarniðurstöður við niðurstöður hvers aldurshóps má sjá hvaða þættir skipta hvern aldurshóp meira eða minna máli en meðalkaupandann.

Aldurshópurinn 18-24 ára leggur ríka áherslu á verð, ástand húsnæðis og staðsetningu húsnæðis, ásamt gæðum þess. Sömuleiðis skiptir meira máli fyrir þennan aldurshóp að gæludýr séu leyfð í íbúðinni. Aftur á móti eru fjölmargir þættir sem virðast skipta þennan aldurshóp minna máli en aðra aldurshópa, líkt og fjöldi herbergja, stærð húsnæðis, sérinngangur og margir þættir sem miða að því að auka þægindi íbúa.

Aldurshópurinn 25–34 ára leggur einnig ríka áherslu á verð, ástand húsnæðis og staðsetningu, auk þess sem fjöldi herbergja virðist vera mikilvægur þáttur, enda margir að stofna fjölskyldur eða reka stækkandi heimili. Hópurinn horfir bæði til gæða, stærðar og aðstöðu eins og sérþvottaaðstöðu, garðs og nálægðar við þjónustu, en veitir bílastæðum og útsýni minni áherslu en heildin.

Hjá 35–44 ára einstaklingum eykst vægi húsnæðis sem hentar fjölskyldum. Staðsetning, verð og ástand skipta mestu, en fjöldi herbergja og stærð húsnæðis fá aukið vægi ásamt fjarlægð frá leikskóla, grunnskóla og tómstundastarfi barna. Garður, svalir/pallur og bílskúr verða einnig mikilvægari, en þættir eins og lyfta, útsýni og hljóðvist fá minna vægi.

Hjá 45–54 ára hópnum verða þægindi og notagildi sífellt mikilvægari. Staðsetning, verð og ástand halda áfram að vega þungt, en hljóðvist,  birtuskilyrði húsnæðis og garður færast ofar á lista. Hópurinn leggur einnig meiri áherslu en heildin á þætti eins og fjarlægð frá vinnu, skóla og annarri verslun og þjónustu.  

Þegar komið er í aldurshópinn 55–64 ára eru gæði og þægindi orðnir mjög ráðandi þættir. Svalir eða pallur, næg bílastæði, útsýni, bjart húsnæði og hljóðvist skipa sífellt hærri sæti. Verð skiptir enn máli en ekki eins miklu og hjá yngri hópum. Lyftur og aðgengi fara að hafa aukna þýðingu fyrir hluta hópsins.

Hjá elsta aldurshópnum má sjá skýra breytingu í átt að auknum gæðum og þægindum. Svalir eða pallur er afgerandi mikilvægasti þátturinn, ásamt nægum bílastæðum, björtu húsnæði, góðu útsýni og góðri hljóðvist. Ástand og gæði húsnæðis halda áfram að skipta miklu máli, en verð situr neðarlega á listanum. Lyftur, sérinngangur og aðgengi verða mikilvægari, sem endurspeglar breyttar þarfir og óskir um þægilegt og aðgengilegt heimili á efri árum.

Rekst­ur hús­næð­is fell­ur að með­al­tali á 1,8 ein­stak­linga

Í könnuninni var spurt hversu margir sem búa á heimilinu koma að rekstri húsnæðisins? Aðkoma að rekstri húsnæðis getur falist í þátttöku við að greiða leigu, borga af húsnæðisláni, greiða fyrir rafmagn, hita, hússjóð og/eða viðhald.

Niðurstöður könnunarinnar sýna að kostnaður við rekstur húsnæðis fellur að meðaltali á 1,8 einstaklinga. Algengast er að tveir aðilar standi saman að því að reka húsnæði en í um 29% tilvika stendur fólk eitt að því að reka húsnæðið. Um þriðjungur kjarnafjölskyldna samkvæmt Hagstofu Íslands eru skráðar sem „Einstaklingar“, auk þess sem nokkur fjöldi kjarnafjölskyldna samanstanda af einstæðum foreldrum með börn.