Rafmagnsöryggi
Rafmagnsöryggi
Rafmagnsöryggi
Rafmagnsöryggi
Spurt og svarað um rafmagnsöryggi
Spurt og svarað um rafmagnsöryggi
Hér að neðan er yfirlit ýmissa spurninga um túlkun fyrirmæla. Svör HMS má sjá með því að smella á spurninguna.
Öryggisstjórnunarkerfi rafveitna og iðjuvera
Nánari lýsing:
Fyrirsjáanlegar eru breytingar á rekstrarfyrirkomulagi rafveitna í þá veru að hefðbundinni vinnu við nýframkvæmdir, breytingar og viðhald dreifikerfis verði úthýst til þjónustuaðila á því sviði. Þjónustuaðili getur verið hvort heldur er, annað fyrirtæki eða sérstakt svið innan viðkomandi rafveitu sem starfar óháð ábyrgðarmanni hennar.
Skýra þarf hvernig beri að taka á því í öryggisstjórnunarkerfi rafveitunnar og hvaða kröfur þjónustuaðila beri að uppfylla.
Svar:
Innri Þjónustuaðili getur verið annað fyrirtæki eða sérstakt svið innan viðkomandi rafveitu sem starfar óháð ábyrgðarmanni hennar. Eftirfarandi á jafnt við um bæði tilvikin.
Þá má einnig greina á milli þjónustuaðila eftir því hvort þeir starfa sem sjálfstæður aðili með eigin ábyrgðarmanni, ellegar hvort þjónustan felst í því að leggja rafveitunni til starfsmenn sem vinna síðan innan öryggisstjórnunarkerfis rafveitunnar á sama hátt og um hennar eigin starfsmenn væri að ræða. Hér verður eingöngu fjallað um fyrra tilvikið, enda gilda um síðara tilvikið alveg sömu kröfur og væru starfsmennirnir starfsmenn rafveitunnar.
Tilgangur rur og krafna um öryggisstjórnunarkerfi rafveitna er að draga sem mest úr hættu og tjóni af raforkuvirkjum og truflunum á og af völdum starfrækslu þeirra, m.a. með því að tryggja að virki uppfylli kröfur og öryggi manna við vinnu sé tryggt.
Ljóst má vera að samkvæmt ákvæðum 5. gr. laga nr. 146/1996 og kafla 1.5 í rur er skýr krafa gerð um að rafveitan beri ábyrgð á eigin raforkuvirkjum, ástandi þeirra og eftirliti, bæði nýjum virkjum og virkjum í rekstri, ásamt því að tryggja öryggi þeirra vegna.
Þrátt fyrir að vinnu við raforkuvirki verði úthýst breytir það ekki því að um er að ræða raforkuvirki rafveitunnar. Það er því hennar að uppfylla framangreindar kröfur eftir sem áður. Á það við um raforkuvirki í rekstri og ný raforkuvirki.
Rafveitunni ber að skipta við hæfan þjónustuaðila, sem m.a. felur í sér að hann er löggiltur rafverktaki. Ef um er að ræða háspennuvirki þarf A-löggildingu, annars B-löggildingu. Hér eftir verður vísað til þjónustuaðila sem rafverktaka.
Rafveitunni ber jafnframt að hafa eftirlit með virkjum og tryggja að innri og ytri skoðanir séu gerðar. Framkvæmd innri skoðana getur verið á mismunandi vegu, í höndum rafverktakans, rafveitunnar eða þriðja aðila, en óháð framkvæmdinni ber rafveitunni að vista í eigin skrám skjöl um niðurstöður skoðana og úrbætur sem gerðar hafa verið.
Ef gerð er ytri skoðun við afhendingu raforkuvirkis er nægjanlegt að vista niðurstöður hennar ásamt upplýsingum um úrbætur sem gerðar hafa verið. Í slíkum tilvikum er nægjanlegt að gögn um skoðanir rafverktakans (innri skoðun) séu vistaðar í skrám hans.
Almennt gildir að rafveitunni bera að tryggja að skrár hennar um virki, frávik og úrbætur á virkjum séu réttar og fullnægjandi.
Rafveitunni ber einnig að tryggja að verklag og öryggisstjórnun rafverktakans fullnægi þeim kröfum sem eiga sérstaklega við um rafveituna og fullnægjandi samhæfing sé á milli aðila. Þannig þurfa hæfiskröfur til starfsmanna rafverktakans að vera skýrar af hálfu rafveitunnar og í samræmi eðli verkanna og starfsemi rafveitunnar.
Ábyrgðarskipting og vinnuferlar við aðgerðarstjórnun og rof þurfa að vera skýrir og ljósir á milli aðila. Viðbrögð við hættu- og neyðarástandi þurfa að taka mið af starfsemi og öryggisstjórnunarkerfi rafveitunnar og vera samræmd á milli aðila. Stjórnun aðgangs að raforkuvirkjum þarf að uppfylla kröfur, sjá reglur um skoðun raforkuvirkja.
Rafveitunni ber að gera hæfismat á rafverktaka m.a. með hliðsjón af framangreindum atriðum. Henni ber einnig að fylgjast starfsemi hans og endurtaka hæfismatið eftir því sem við á. Framkvæmdaeftirlit skal vera hluti af eftirliti rafveitunnar.
Kröfur rafveitu til rafverktaka og eftirlit skal m.a. innifela eftirtalin atriði:
- Rafverktaka ber að starfa á ábyrgð löggilts rafverktaka og hafa öryggisstjórnunarkerfi sem uppfyllir VLR 3.010.
- Rafverktaka ber að samþykkja eftirlit rafveitunnar og uppfylla þær kröfur sem rafveitunni ber að gera til hans, sbr. framangreint.
- Rafverktaki skal gera skýrar og viðeigandi kröfur til undirverktaka í þjónustu sinni og framfylgja þeim kröfum sem rafveita gerir til rafverktaka gagnvart undirverktaka.
- Rafverktaki skal tryggja að starfsemi undirverktaka setji á engan hátt skorður við eftirliti rafveitunnar með rafverktaka.
- Rafverktaki skal gera hæfiskröfur og hæfismat á undirverktaka og bera ábyrgð á að innra eftirlit rafverktaka sé einnig tryggt að því er varðar starfsemi undirverktaka.
Í töflu A hér á eftir má sjá yfirlit um nokkur mikilvæg atriði sem hafa ber í huga við úthýsingu vinnuflokka.
Tafla A. Nokkur mikilvæg atriði til athugunar við úthýsingu vinnuflokka Hluti öryggisstjórnunar Kröfur til ábyrgðarmanns rafveitu Kröfur til ábyrgðarmanns vinnuflokks
Ábyrgðarmaður Tryggja að aðeins sé skipti við hæfa þjónustuaðila Löggildingarhafi ber ábyrgð á vinnu vinnuflokks
Ábyrgð stjórnenda Skilgreina tengsl milli ábyrgðarmanns og vinnuflokks Skilgreina tengsl milli ábyrgðarmanns og vinnuflokks
Aðgangur að raforkuvirkjum Gera kröfu til rafverktaka um lyklaskráningu og skrá hvaða lykla rafverktaki ber ábyrgð á Löggildingarhafi ber ábyrgð á öllum lyklum vinnuflokks gagnvart rafveitu. Hann annast aðgangsstjórn innan vinnuflokks
Eftirlitsferlar Rafveitan skal tryggja eftirlit með virkjum Rafverktaki hefur eftirlit með eigin verkum. Hann annast framkvæmd innri skoðana skv. nánara samkomulagi við rafveitu og skilar niðurstöðum skoðana og yfirliti um úrbætur til rafveitu
Fyrirmæli Skv. VLR 3.031 Skv. VLR 3.010 með viðbótum
Hættu- og neyðarástand Rafveitan skal gera kröfu til rafverktaka um viðbrögð við hættu- og neyðarástandi og tryggir samhæfingu. Hún uppfyllir einnig kröfur í skoðunarreglum sem að henni snúa og ber ábyrgð á skýrslugerð til Neytendastofu Rafverktaki skal fullnægja kröfum um hættu- og neyðarástand í samræmi við skoðunarreglur og kröfur rafveitu.
innri úttektir Skv. skoðunarreglum Skv. skoðunarreglum
Kunnáttumenn og þjálfun Rafveitan skilgreinir hæfiskröfur í samræmi við eðli verka sem rafverktaka ber að leysa og starfsemi rafveitunnar Rafverktaki tryggir að hæfniskröfum og kröfum í skoðunarreglum sé fullnægt
Skrár og skýrslur /skrár um virki
Ábyrgð rafveitu Skv. VLR 3.010 með viðbótum
Skrár um virki Ábyrgð rafveitu
Úrvinnsla og athugasemdir Rafveita ber endanlega ábyrgð á ástandi raforkuvirkja. Ábyrgðarskipting milli rafveitu og rafverktaka um úrvinnslu athugasemda og lagfæringa skal að öðru leyti vera skýr Rafverktaki ber ábyrgð á úrvinnslu frávika í samræmi við nánara samkomulag við rafveitu
Vinnuferlar Rafveitu ber að gera kröfur til rafverktaka og fylgjast með starfsemi hans. Henni ber að tryggja fullnægjandi samhæfingu milli aðila, sérstaklega m.t.t. aðgerðarstjórnunar og vinnu við rof Rafverktaki ber ábyrgð á að vinnuferlar fullnægi kröfum í skoðunarreglum og að framfylgja kröfum rafveitunnar, m.a. vegna samhæfingar milli aðila
Á að semja um skoðanir öryggisstjórnunarkerfis eftir fyrsta viðhaldsskoðunartímabil?
Svar:
Í VLR 3.033, gr. 3.5, segir að ábyrgðarmaður skuli semja við skoðunarstofur um viðhaldsskoðanir og setja upp áætlun sem nær til þriggja ára. Í VL 3.028, gr. 2.6, segir að skoða skuli alla hluta öryggisstjórnunarkerfis á fyrstu þremur árum eftir viðurkenningu þess og síðan reglulega.
Til þess að fullnægja þessum ákvæðum er nægjanlegt að á hverjum tíma sé í gildi áætlun um viðhaldsskoðun öryggisstjórnunarkerfis sem miði að því að endurskoða alla hluta þess á eigi lengri tíma en þremur árum. Ennfremur að á hverjum tíma sé í gildi samningur við faggilta skoðunarstofu um viðhaldsskoðun skv. VLR 3.033, en ekki eru gerðar sérstakar kröfur um hver samningstími skuli vera.
Þarf að skoða öryggisstjórnunarkerfi rafveitu eða iðjuvers aftur eftir að úrbætur hafa verið gerðar vegna athugasemda skoðunarstofu eða nægir skrifleg greinargerð til HMS?
Svar:
Í flestum tilvikum er nægjanlegt að gera skriflega greinargerð þar sem fram kemur hvernig brugðist hefur verið við hverri einstakri athugasemd sem komið hefur fram í skoðun skoðunarstofu. Fram þarf að koma með hvaða hætti hefur verið brugðist við þannig að sýnilegt sé hvort úrbætur séu fullnægjandi.
HMS áskilur sér rétt til að krefjast þess að greinargerð sé í formi nýrrar skoðunarskýrslu skoðunarstofu, ef athugasemdir eru margar og alvarlegar, sérstaklega ef úrbætur fela ekki aðeins í sér einfaldar endurbætur. Ef sú er raunin gerir HMS grein fyrir þeirri kröfu skriflega þegar stofnunin hefur lokið yfirferð á skoðunarskýrslu.
Flokkast dreifikerfi vinnurafmagns á virkjunarsvæði sem iðjuver eða rafveita?
Svar:
Samkvæmt skilgreiningu í rur er rafveita fyrirtæki sem flytur, dreifir og/eða selur rafmagn, en iðjuver er virki, háspennt og/eða lágspennt, þar sem aðflutt raforka kemur á háspennu inn í veituna, eða er framleidd í eigin aflstöð á athafnasvæðinu eða hvoru tveggja.
Á athafnasvæði venjulegs iðjuvers kann að vera raforkudreifing og telst hún til iðjuversins, enda ekki um dreifingu eða flutning rafmagns til annarra aðila að ræða. Sama gildir um dreifingu til eigin nota á virkjunarsvæði. Einkenni rafveitu er að flutningur eða dreifing hefur að meginmarkmiði að þjóna öðrum notendum.
Það er því niðurstaða HMS að dreifikerfi verktaka vegna vinnurafmagns á virkjunarsvæði sé iðjuver í skilningi rur.
Er fullnægjandi að skilgreina handhafa lykla í öryggisstjórnunarkerfinu sjálfu?
Nánari lýsing:
Aðeins einn einstaklingur er handhafi lykla og hann er nafngreindur sem slíkur í öryggisstjórnunarkerfinu sjálfu. Um framsal er ekki að ræða. Er það fullnægjandi og má sleppa annarri lyklaskráningu og framsalseyðublaði fyrir lykla?
Svar:
Þess er krafist í reglum um skoðun innri öryggisstjórnunar rafveitna að leyfi vegna aðgangs að virkjum skulu vera skrifleg og árituð af ábyrgðarmanni. Nafngreining handhafa í öryggisstjórnunarkerfinu sjálfu fullnægir þeirri kröfu. Samkvæmt yfirlýsingu ábyrgðarmanns hafa engir aðrir undir höndum lykla sem veita aðgang að raforkuvirkjum. Því telur HMS að frekari krafa um lyklaskráningu eigi ekki við.
Hversu nákvæmlega þarf að skrá handhafa lykla sem eru í vörslu dreifiveitu sem hefur fastan aðgang að háspennurými iðjuvers?
Svar:
Handhafi lykils að háspennivirki skal í öllum tilfellum skráður, hvort sem um er að ræða kunnáttumenn hjá viðkomandi rafveitu (iðjuveri), rafverktaka eða starfsmenn rafveita (dreifiveitu) sem veittur hefur verið aðgangur að háspennuvirki.
Handhafa lykils hjá dreifiveitu er æskilegt að skrá með nafni, en einnig getur verið nægjanlegt að tiltaka hann með starfsheiti eða hlutverki hjá dreifiveitunni, t.d. sem umsjónarmann dreifiveitu á staðnum. Einnig má skrá ábyrgðarmann dreifiveitu, fulltrúa hans eða tilnefndan kunnáttumann á hans vegum sem fer með lyklaskráningu í umboði ábyrgðarmanns sem handhafa lykla og hann fari síðan með stjórnun aðgangs (lyklaskráningu og framsal) innan öryggisstjórnunarkerfis dreifiveitunnar. Skal ábyrgðarmaður dreifiveitu upplýsa ábyrgðarmann iðjuvers hverjir eru handhafar lykla hverju sinni. Staðfesting þessa fyrirkomulags skal vera skjalfest.
Má gefa stjórnendum veitu, sem ekki eru kunnáttumenn, aðgang að virkjum?
Nánari lýsing:
Er ábyrgðarmanni leyfilegt að gefa öðrum en kunnáttumönnum ótímabundin aðgang að virkjum, t.d. fjármálastjóra, innkaupastjóra eða veitustjóra?
Svar:
Nei, ótímabundinn aðgangur er bundinn við kunnáttumenn. Sé nauðsynlegt að veita t.d. stjórnendum rafveitu aðgang að raforkuvirkjum skulu þeir hafa hlotið viðeigandi þjálfun sem kunnáttumenn og vera skráðir sem kunnáttumenn og handhafar lykla.
Hvernig ber að skilja kröfu um skipurit iðjuvers þar sem ábyrgðarmaður er ekki starfsmaður viðkomandi fyrirtækis?
Svar:
Skipurit fyrirtækis, með nöfnum stjórnenda skal vera til staðar eftir því sem við á. Ef ábyrgðarmaður er ekki starfsmaður viðkomandi fyrirtækis og því ekki á skipuriti skal gera grein fyrir hvernig hann tengist skipuriti, t.d. með því að teikna tengsl hans inn með brotalínu eða á annan hátt gera grein fyrir ábyrgð hans og forræði.
Hver er krafa um ábyrgðarmenn og skipun fulltrúa í minni iðjuverum?
Nánari lýsing:
Hvaða kröfur eru gerðar um búsetu og skipun fulltrúa í minni iðjuverum, sjá skilgreiningu minni iðjuvera á vefsíðu HMS.
Svar:
Ábyrgðarmenn skulu uppfylla hæfiskröfur skv. 4.1 eða 4.2 í rur.
Ábyrgðarmenn sem ekki eru búsettir á staðnum þurfa ekki að útnefna fulltrúa ef:
Verklag tryggir virka yfirsýn og ákvörðunarvald ábyrgðarmanns, með t.d. síma- og tölvusamskiptum og reglulegum heimsóknum
Kunnáttumaður á staðnum sem sinnir daglegum verkum, skv. kröfum um kunnáttumenn
Hvernig skal sannreyna kröfu um virkni ábyrgðarmanns?
Nánari lýsing:
Hvernig ber skoðunarstofu að sannreyna að kröfu um virka ábyrga ábyrgðarmanns sé fullnægt, sérstaklega í iðjuverum þar sem ábyrgðarmaður er ekki starfsmaður viðkomandi fyrirtækis.
Svar:
A) Ábyrgðarmaður innan fyrirtækis:
Skipurit eða sambærileg lýsing ábyrgðarskiptingar innan fyrirtækis þarf að sýna fram á að ábyrgðarmaður fari í reynd með forræði þeirra mála sem ábyrgð hans nær til,
B) Ábyrgðarmaður utan fyrirtækis:
Kanna þarf hvort ábyrgðarmanni hafi ígildi valda og fjárforræðis skv. kröfu í orðsendingu 1/84, þannig að hann fari í reynd með forræði þeirra mála sem ábyrgð hans nær til, meðal annars með:
- viðtali við stjórnendur fyrirtækis um almennt fyrirkomulag ábyrgðar
- kanna viðhorf stjórnenda um afgreiðslu í tilteknum dæmum,
- kanna dæmi, þar sem reynt hefur á ábyrgðina.
Hvaða upplýsingar á rafveita að skrá um ábyrgðarmann?
Nánari upplýsingar:
Ein skýring við athugasemd fyrir gátorðið „Ábyrgðarmaður“ hljóðar svo:
„Lítilsháttar gallar á færslu upplýsinga varðandi ábyrgðarmann/fulltrúa“.
Hverjar eru þessar upplýsingar varðandi ábyrgðarmanninn?
Svar:
Bent skal á eftirfarandi gögn:
- staðfestingu HMS á ábyrgðartilkynningu,
- gögn um hæfi (prófskírteini, staðfesting starfsreynslu),
- gögn um skilgreiningu ábyrgðar, (ábyrgðarmanns og fulltrúa)
Er eigandi eða ábyrgðarmaður ábyrgur fyrir innleiðingu öryggisstjórnunarkerfis?
Svar:
Í lögum 3.mgr. 5.gr. nr.146/1996 um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga segir „Í því skyni að tryggja öryggi raforkuvirkja og rekstur þeirra sem frekast er unnt skulu ábyrgðarmenn raforkuvirkja og stóriðjuvera, samkvæmt ákvörðun ráðherra, koma upp innra öryggisstjórnunarkerfi með virkjum sem að mati HMS uppfyllir skilyrði laga þessara“.
Í rur gr.5.2, 4.mgr. segir „Rafveitur skulu tilnefna ábyrgðarmann sem ber ábyrgð á því að unnið sé samkvæmt skilgreindu öryggisstjórnunarkerfi“. Í orðsendingu nr. 1/84, gr.4.1, 1-2.mgr. segir „Til þess að tryggja fullnægjandi stjórn á rekstri stöðva og veituvirkja skal eigandi eða umráðamaður þeirra fela kunnáttumanni rekstrarstjórnina. Hann skal gefa ábyrgðarmanni nauðsynleg völd og fjárforræði, til þess að hann geti fullnægt ábyrgð sinni samkvæmt þessum rekstrarreglum“.
Með tilvísun til framangreindra ákvæða er það alveg skýrt að það er ábyrgðarmaðurinn sjálfur sem ábyrgur er fyrir því að koma á öryggisstjórnunarkerfi, en skylda eiganda felst í því að skipa ábyrgðarmann og fela honum nauðsynleg völd og fjárforræði.
Nægir rafræn undirritun á yfirlýsingu ábyrgðarmanns?
Nánari lýsing:
Í öryggisstjórnunarkerfinu eru skjöl sem innihalda yfirlýsingu ábyrgðarmanns, og öll skjöl öryggisstjórnunarkerfisins eru undirrituð rafrænt.
Svar:
Í reglum um skoðun innri öryggisstjórnunar rafveitna, sjá „Ábyrgðarmaður“, er skýrt tekið fram að til staðar skuli vera undirrituð yfirlýsing ábyrgðarmanns. Það er álit HMS að með undirritun sé í þessu tilviki átt við hefðbundna undirritun skjals á pappírsformi.
Í athugun er notkun rafrænna skilríkja við undirskriftir.
Er þörf á skjölum um framsal ábyrgðar til fulltrúa ábyrgðarmanns, ef enginn fulltrúi er skipaður né gert ráð fyrir að til slíks framsals muni koma?
Svar:
Ef ljóst er að ekki er skipaður fulltrúi ábyrgðarmanns og ljóst að til framsals ábyrgðar muni ekki koma, er ekki þörf á skjölum um framsal til fulltrúa. Hins vegar þarf að vera tekið á því í öryggisstjórnunarkerfinu hvað gerist ef ábyrgðarmaður er ekki á staðnum eða er fjarverandi í lengri tíma.
Hvernig eiga iðjuver á 5 ára reglu að haga upplýsingagjöf og ytri skoðun virkja?
Nánari lýsing:
Hvernig eiga iðjuver sem hafa valið 5 ára heildarskoðunarferil að gera grein fyrir nýjum og breyttum virkjum og eigin skoðunum eldri og nýrra virkja? Ennfremur, ef lágspennubúnaður er innan öryggisstjórnunarkerfis, þarf skoðunarstofa að framkvæma heildarskoðun á því öllu við 5 ára skoðun, ellegar aðeins nýjum og breyttum, eða úrtaki valið á annan hátt ?
Greinargerð:
5 ára regla kveður á um undanþágu frá 3-5 í gr. 1.5.2 rur. Eðli málsins samkvæmt eru þau þá jafnframt undanþegin gr. 1.5.3 „Eftirlit með virkjum“ sem er nánari útfærsla á 1.5.2. VL 3.026 er nánari útfærsla á framkvæmd eftirlits á gr.1.5.3 og á því heldur ekki við. VLR 3.032 fjallar um skoðun eigin virkja og á því heldur ekki við. Þrátt fyrir það eru í VLR 3.032 ákvæði um upplýsingagjöf til HMS um fyrirhugaðar framkvæmdir og ný / breytt virki, sem HMS getur óskað áfram eftir á grundvelli gr. 2.9 rur, sem kveður á um almenna upplýsingaskyldu. Eðlilegt er að óska áfram eftir þeim upplýsingum. Þannig er haldið samræmi við þá reglu að HMS hafi beint eða óbeint upplýsingar um öll ný og breytt raforkuvirki eða neysluveitur.
Svar:
Iðjuver sem eru á 5 ára reglu skulu haga upplýsingagjöf og ytri skoðunum virkja þannig:
Árlega skal senda yfirlit um fyrirhugaðar nýframkvæmdir, eða staðfestingu þess að engar séu fyrirhugaðar.
Árlega skal senda yfirlit um ný og breytt virki síðasta árs.
Við 5 ára heildarskoðun skal skoðunarstofa gera heildarskoðun á háspennuhluta.
Úr lágspennubúnaði sem skilgreindur er innan öryggisstjórnunarkerfisins skal velja úrtak til skoðunar sem nemi a.m.k. 10% nýrra og breyttra virkja síðustu 5 ára og um 3% eldri virkja. Skal ábyrgðarmaður iðjuvers velja úrtakið.
Hvernig á að gera grein fyrir fjölda skoðana ef innri skoðanir eru gerðar af skoðunarstofu?
Nánari lýsing:
Rafveita er ekki með eigin skoðunarmenn sem hafa eftirlit með virkjum veitunnar heldur lætur hún skoðunarstofu gera þær skoðanir sem eftirlitsáætlun kveður á um. Eru þær jafnframt ytri skoðanir.
Svar:
Innri skoðanir virkja eru gerðar af eigin skoðunarmönnum rafveitu, hvort sem þeir eru eigin starfsmenn veitunnar eða starfsmenn annarra fyrirtækja sem taka að sér slíkar skoðanir.
Ytri skoðanir eru skoðanir sem framkvæmdar eru af faggiltum skoðunarstofum samkvæmt reglum um skoðanir raforkuvirkja. Allar slíkar skoðanir skoðunarstofu teljast ytri skoðanir.
Ef rafveita kýs að gera ekki innri skoðanir heldur semur við skoðunarstofu um að hún annist þær skoðanir sem eftirlitsáætlun kveður á um, er það heimilt svo fremi að eftirlitsáætlun sé fylgt og kröfu um úrtak innri skoðana fullnægt. Við skýrslugerð samkvæmt VL 3.026 skal færa 0 í reit um fjölda innri skoðana síðasta árs á eyðublaðið EYB 3.227, en í reit fyrir fjölda fyrirhugaðra ytri skoðana skal færa fjölda þeirra skoðana sem fyrirhugað er að skoðunarstofa muni gera næsta ár.
Hvernig á að telja lágspennudreifikerfi, strengi og fleiri virki, sbr. VL 3.026?
Nánari lýsing:
Í VL 3.026 Upplýsingagjöf rafveitna vegna innri og ytri skoðana raforkuvirkja er kveðið á um að gera skuli HMS grein fyrir fjölda virkja. Hvernig á að skilgreina hvað er eitt lágspennudreifikerfi eða strengur og hvernig á að ákveða fjölda slíkra virkja?
Svar:
Rafveitunni er heimilt að skilgreina mörk á milli mismunandi lágspennudreifikerfi, háspennustrengja og fleiri virkja í samræmi við eigið skipulag á eftirliti með virkjum. Virki sem fer til úttektar, innri eða ytri, í eftirlitsskipulagi telst að öllu jöfnu eitt virki. Upptalning slíkra eininga myndar lista virkja sem telja má fjölda út frá. Úrtakshlutfall reiknast síðan út frá þessum grunni. Ekki skiptir máli hvort virkin eru mismunandi stór eða umfangsmikil, né er áskipuð sérstök aðferð til að greina á milli. Dæmi um skilgreiningu lágspennudreifikerfis er að ein slík eining sé dreifikerfi út frá dreifistöð. Annað dæmi er að lagnir í einu húsi myndi eitt lágspennudreifikerfi í virkjaskrá iðjuvers.
Hvað er átt við með úrtaksskoðun raforkuvirkja í rekstri?
Svar:
Úrtaksskoðanir raforkuvirkja í rekstri hvort sem um er að ræða innri eða ytri skoðanir felast í því að velja tiltekið úrtak virkja, t.d. x margar loftlínur þar sem x / heildarfjöldi loftlína viðkomandi rafveitu uppfyllir lágmarkskröfur um úrtak. Í VLR 3.032 og á eyðublöðum HMS eru tiltekin þau atriði sem skoða skal og ber að uppfylla þær kröfur.
Hversu ítarlega þarf að tilgreina í öryggisstjórnunarkerfum rafveitna/iðjuvera hvaða reglum og fyrirmælum þarf að viðhalda?
Svar:
Í öryggisstjórnunarkerfi ber að lágmarki að tiltaka hvaða flokkum fyrirmæla skuli fylgst með og viðhaldið, t.d. reglugerð um raforkuvirki, orðsendingum, skoðunarreglum, verklagsreglum og verklýsingum
Er nægjanlegt að tilkynna aðeins meiriháttar slys/tjón strax en önnur árlega?
Svar:
Já. Sjá nánari leiðbeiningar í VL 3.029.
Hvaða kröfur eru gerðar til rekstrarskoðunarmanna?
Svar:
Rekstrarskoðunarmenn rafveitu annast reglulegar skoðanir á stöðvum samkvæmt gátlista og líta m.a. eftir ástandi stöðvar, þrifum, aðgengi o.fl. og lesa af mælum. Um skoðunarmenn rafveitu gilda sömu reglur og almennt um kunnáttumenn rafveitu. Kunnáttumaður skal hafa svo mikla þekkingu og reynslu við tiltekið verk að hann telst geta leyst það af hendi á fullnægjandi hátt frá öryggissjónarmiði. Kröfur til menntunar og/eða reynslu/þjálfunar kunnáttumannsins skulu skráðar í öryggisstjórnunarkerfinu. Það er því á ábyrgð ábyrgðarmanns að skilgreina kröfur til kunnáttumanna svo þeir uppfylli framangreind skilyrði.
Mega aðrir en kunnáttumenn annast rof með fjarstýrðum búnaði í litlu iðjuveri?
Nánari lýsing:
Rofabúnaður er fjarstýranlegur og ákveðnir starfsmenn sem geta rofið á þann hátt. Þeir koma aldrei sjálfir nálægt háspennubúnaði. Þurfa þeir að vera skilgreindir sem kunnáttumenn?
Svar:
Þurfi viðkomandi starfsmenn að búa yfir kunnáttu sem varðar öryggisstjórnunarkerfið, þ.e. að hafa fengið leiðbeiningar frá ábyrgðarmanni um hvernig og undir hvaða kringumstæðum má og skuli fjarstýra rofabúnaði er þess krafist að aðeins kunnáttumenn annist þetta.
Má umsjónarmaður rafmagnsöryggismála annast innri úttektir?
Nánari lýsing:
Umsjónarmaður rafmagnsöryggismála rafveitunnar er fulltrúi ábyrgðarmanns og annast umsjón með öryggisstjórnun rafveitu, samskipti við HMS, kynningar kerfisins fyrir starfsmönnum. Hann hefur yfirsýn yfir úttekt á öryggisstjórnuninni og skráningu í gagnasafn, varðveitir handbókina, jafnframt því að stjórna starfshópi um rafmagnsöryggismál og stjórna innri úttektum. Getur hann jafnramt framkvæmt úttektir?
Svar:
Innri úttektarmenn skulu vera óháðir því sem þeir taka út eftir því sem við verður komið. Gegni úttektarmaður sjálfur hlutverki í öryggisstjórnunarkerfi veitunnar skal hann því ekki annast úttekt á því atriði öryggisstjórnunarkerfisins sem varðar hann sjálfan. Hann getur að öðru leyti annast úttektir, svo fremi sem hann uppfylli hæfiskröfur til úttektarmanna, sjá reglur um skoðun raforkuvirkja. Það á við um umsjónarmann rafmagnsöryggismála eins og aðra starfsmenn.
Hvað telst vera fullnægjandi truflunarskráning?
Greinargerð:
Tilgangur innra öryggisstjórnunarkerfis er að draga sem mest úr hættu og tjóni af virkjum og ennfremur truflunum á og af völdum starfrækslu þeirra. Til að þjóna þeim tilgangi er nauðsynlegt að upplýsingar um truflanir séu skráðar og aðgengilegar. Auðvelt þarf að vera að sjá upplýsingar um einstakar truflanir, meta afhendingargæði og greina bilanir með viðeigandi hætti.
Skv. reglum um skoðun raforkuvirkja, „Skrár um virki“ skal rafveita skrá og safna saman upplýsingum um rekstrartruflanir. Fram skal koma a.m.k. um hvers konar truflun var að ræða og hvenær truflun varð. Fram skal koma hver sá um lagfæringar og hvernig brugðist var við þeim.
Svar:
Truflunarskráning samkvæmt viðmiðunum samstarfshóps rafveitna og orkufyrirtækja um skráningu rekstrartruflana, „START“ telst fullnægja framangreindum kröfum.
Rafveitur sem ekki taka þátt í framangreindu samstarfi skulu leggja eftirfarandi til grundvallar:
Skrá skal truflanir þannig að fram komi um hvers konar truflun var að ræða, hvenær, hvar, hversu lengi hún stóð og hvernig var brugðist við.
Rafveitur skulu skilgreina truflun á eftirfarandi hátt:
„Rekstrartruflun er það ástand sem skapast við:
a) breytingu á framleiðslu eða flutningi raforku sem ekki hefur verið heimiluð af rekstraraðila kerfisins,
b) að eining er tekin úr rekstri við vegna vinnu við viðhald eða breytinga á kerfinu.”
Koma skal fram hvort truflun hafi verið fyrirvaralaus, vegna vinnu við viðhalds eða breytinga, hvort hún hafi gengið yfir án þess að til viðgerða hafi komið og hvort hún hafi leitt til skerðingar á afhendingu orku, og þá jafnframt hversu margir notendur urðu fyrir skerðingu. Ennfremur skal koma fram eins og við á hvaða eining hafi verið orsök truflunarinnar, þannig að rekja megi til skrár um virki.
Iðjuver og einkarafstöðvar skulu skrá bilanir í þeim virkjum sem öryggisstjórnunarkerfið nær til, þannig að rekja megi til skrár um virki. Fram skal koma hvenær, hversu lengi bilun stóð yfir og hvernig brugðist var við, ásamt ástæðu bilunar eftir því sem við á.
Á krafa um truflunarskráningu við um öryggisstjórnun virkja vegna vinnurafmagns á framkvæmdatíma?
Nánari lýsing:
Um er að ræða virki vegna dreifingar rafmagns á háspennu vegna framkvæmda á virkjunarsvæði. Að framkvæmdum loknum mun rekstri þeirra verða hætt, sem ætla má að verði að 4-5 árum liðnum.
Svar:
Í ljósi þess að aðeins er um að ræða tímabundinn rekstur virkja meðan á framkvæmdum stendur, sem ætla má að vari í 4-5 ár, fellst HMS á að krafa um truflunarskráningu eigi ekki við.
Hvaða viðmiðun gildir um mörk milli virkja, t.d. línu og stöðvar?
Svar:
Rafveita skal halda skrá um eigin virki. Koma skal fram í skránni hverrar tegundar virkið er, sbr. VLR 3.032, töflu 1. Þar sem unnt er að skilgreina umfang virkis með mismunandi hætti, t.d. í dreifilínum eða strengkerfum, er rafveitu heimilt að skilgreina þau eftir því sem best á við starfsemi hennar og viðhaldsfyrirkomulag. Miða skal við að tryggður sé rekjanleiki milli skráningar virkis og skoðana virkja.
Skipting dreifilínukerfis í einstök virki getur ýmist verið í aðallínur út frá stöð ásamt álmum, eða að hver einstök álma sé sérstakt virki í virkjaskrá. Lágspennudreifikerfi t.d. mætti skipta í virki eftir því hvaða dreifistöð það tilheyrir við venjulegan rekstur. Gæta ber þess að að fylgja sömu skiptingu í virki þegar virki eru skoðuð.
Ef rafveita hefur mótað sér reglu eða hefð um nákvæm skil á milli virkjategunda er henni heimilt að nota hana áfram og ber þá skoðunarstofu að taka mið af því. Að öðrum kosti er mælt með því að fylgja eftirfarandi skilgreiningu á virkjum:
Virkjun
Virkjun er heildstætt safn mannvirkja og búnaðar sem saman mynda starfræna heild eða einingu til þess að framleiða raforku úr vatnsafli, jarðvarma, vindorku eða úr öðrum frumorkugjafa, þó ekki varmaaflsstöðvar aðrar en jarðvarmastöðvar.
Til virkjunar telst allur búnaður frá orkugjafanum sjálfum til og með rafalaúttaks. Allur tengdur búnaður sem er eðlilegur hluti af safni mannvirkja og búnaðar sem saman myndar starfræna heild eða einingu til raforkuframleiðslu telst vera hluti virkjunarinnar. Það á við búnað svo sem stjórn– og liðabúnað, lagnir, lágspennubúnað sem er eðlilegur hluti virkjunarinnar, svo og búnað sem tengist orkuöflun.
Tengivirki, rofabúnaður, spennar og annar slíkur búnaður sem þjónar því hlutverki að tengja raforkuframleiðandi einingu við dreifikerfi telst ekki hluti virkjunar.
Neysluveitur á virkjunarsvæði, svo sem verkstæðishús, starfsmannaaðstaða, skrifstofur og annað því um líkt sem ekki er hluti af starfrænni heild virkjunarinnar sem eining til raforkuframleiðslu, teljast ekki vera hluti hennar.
Vara- og varmaaflsstöð
Vara– og varmaaflsstöð er heildstætt safn mannvirkja og búnaðar sem saman mynda starfræna heild eða einingu til þess að framleiða raforku með brennslu eldsneytis.
Til vara– og varmaaflsstöðvar telst allur búnaður frá orkugjafanum sjálfum til og með rafalaúttaks. Allur tengdur búnaður sem er eðlilegur hluti af safni mannvirkja og búnaðar sem saman myndar starfræna heild eða einingu til raforkuframleiðslu telst vera hluti vara– og varmaaflsstöðvar. Það á við búnað svo sem stjórn – og liðabúnað, lagnir, lágspennubúnað sem er eðlilegur hluti virkjunarinnar, svo og búnað sem tengist orkuöflun.
Tengivirki, rofabúnaður, spennar og annar slíkur búnaður sem þjónar því hlutverki að tengja raforkuframleiðandi einingu við dreifikerfi telst ekki hluti vara– og varmaaflsstöðvarinnar.
Neysluveitur í vara– og varmaaflsstöð, svo sem verkstæði, starfsmannaaðstaða, skrifstofur og annað því um líkt sem ekki er hluti af starfrænni heild vara– og varmaaflsstöðvarinnar sem eining til raforkuframleiðslu, teljast ekki vera hluti hennar.
Aðveitustöðvar og tengivirki
Aðveitustöð og tengivirki, nefnt hér á eftir einu nafni stöð, eru heildstæð söfn mannvirkja og búnaðar sem tengist háspennulínum og/eða virkjunum, og ekki gegnir því meginhlutverki að dreifa raforku af háspennukerfi inn á lágspennt dreifikerfi.
Til stöðvar telst allur búnaður frá rafalatein til og með klemmu í línu eða múffu á streng. Allur tengdur búnaður sem er eðlilegur hluti af safni mannvirkja og búnaðar sem saman myndar starfræna heild telst vera hluti stöðvarinnar. Það á við búnað svo sem stjórn– og liðabúnað, lagnir, lágspennubúnað sem er hluti af starfrænni heild stöðvarinnar og lágspennulagnir innan stöðvarveggs sem þjóna stöðvarnotkun.
Neysluveitur sem staðsettar eru innan veggja stöðvarinnar, svo sem verkstæði, starfsmannaaðstaða, skrifstofur og annað því um líkt sem ekki er hluti af starfrænni heild stöðvarinnar, teljast ekki vera hluti hennar.
Dreifistöðvar
Dreifistöð er heildstætt safn mannvirkja og búnaðar sem saman mynda starfræna heild eða einingu sem hefur það meginhlutverk að dreifa raforku af háspennukerfi inn á lágspennt dreifikerfi.
Til dreifistöðvar telst allur búnaður frá og með klemmu í línu eða múffu á streng, að skinnu á lágspennuvafi dreifispennis. Skinnan sjálf telst ekki hluti dreifistöðvar. Rofa– og varbúnaður og annar búnaður á útgangandi hlið skinnu telst ekki vera hluti af dreifistöðinni. Allur tengdur búnaður sem er eðlilegur hluti af safni mannvirkja og búnaðar sem saman myndar starfræna heild telst vera hluti dreifistöðvarinnar. Það á við búnað svo sem stjórn– og liðabúnað, lagnir, lágspennubúnað, sem er hluti af starfrænni heild dreifistöðvarinnar og lágspennulagnir innan stöðvarveggs sem þjóna stöðvarnotkun.
Neysluveitur sem staðsettar eru innan veggja dreifistöðvarinnar, svo sem verkstæðishús, starfsmannaaðstaða, skrifstofur og annað því um líkt sem ekki er hluti af starfrænni heild dreifistöðvarinnar, teljast ekki vera hluti hennar.
Lágspennudreifikerfi
Lágspennudreifikerfi nær frá skinnu á lágspennuvafi dreifispennis að raflögn notanda. Skinnan sjálf telst hluti lágspennudreifikerfis.
Háspennulínur
Háspennulína nær frá klemmu innan aðveitustöðvar, tengivirkis eða dreifistöðvar, að klemmu innan tengdrar aðveitustöðvar, tengivirkis eða dreifistöðvar.
Háspennustrengur
Háspennustrengur nær frá múffu innan aðveitustöðvar, tengivirkis eða dreifistöðvar, að klemmu innan tengdrar aðveitustöðvar, tengivirkis eða dreifistöðvar.
Má afgreiða 2. flokks athugasemdir um virki í rekstri með úreldingu eða endurbyggingu virkisins?
Svar:
Já, ef sú framkvæmd kemur innan eðlilegra tímamarka, sem að jafnaði er innan 1-3 ára. Einnig verður að hafa í huga að á meðan athugasemdin er óafgreidd gæti þurft að gera aðrar ráðstafanir til að tryggja öryggi fram að úreldingu eða endurbyggingu virkisins.
Er nægjanlegt að minni iðjuver vísi á A-löggilta rafverktaka í vinnuferli?
Nánari lýsing:
Í skilgreiningu vinnuferils í öryggisstjórnunarkerfi minna iðjuvers er tekið fram að eingöngu A-löggiltir rafverktakar vinnu verk, en gera má ráð fyrir að þeir vinni skv. orðsendingu nr.1/84. Eigin starfsmenn, sem aðeins er einn, vinna aldrei í háspennubúnaðinum, sem sömuleiðis er einfaldur, aðeins háspennurofi og ofn, ásamt fæðingum. Er þetta nægjanlegt ?
Svar:
Gera þarf grein fyrir því í öryggisstjórnunarkerfinu sjálfu um vinnuferla. Það skal gera miðað við eðli og umfang starfseminnar. Í einföldustu tilvikum er nægjanlegt að tiltaka kröfur til þeirra sem vinna mega verk, svo sem kunnáttumenn eða hæfniskröfur til verktaka, ennfremur að vísa til orðsendingu nr. 1/84. Mælt er með því að tiltekið sé sérstaklega mikilvægustu atriði, sem eiga við viðkomandi rafveitu eða iðjuver. Skilgreina þarf ábyrgð innan öryggisstjórnunarkerfisins á því að þessu verklagi skuli beitt.
Þurfa eigin skoðunarmenn rafveitu að vera tveir við virkjaskoðanir?
Svar:
Samkvæmt orðsendingu nr.1/84 er þess krafist að minnsta kosti tveir menn séu viðstaddir, þegar unnið er nálægt eða í háspennuvirki, (sjá gr.8.2.3 í 1/84). Með því er átt við að ef vinnan er þess eðlis að snertispennuvörn er gerð óvirk, að hluta til eða öllu leyti. Dæmi um það getur verið ef rofaskápar er opnaður.
Þetta á jafnt við skoðunarvinnu eins og aðra vinnu. Ef vinnan krefst þess ekki að gengið sé á snertispennuvörn, t.d. við sjónskoðun útivirkis eða loftlínu, sem framkvæmd er af jörðu niðri á framangreind krafa ekki við. Ennfremur á þetta einungis við háspennu, en við skoðunarvinnu við lágspennu má einn maður framkvæma, sjá gr.19.1 í 1/84.
Mega vaktmenn fiskeldisstöðvar taka út rofa í forföllum kunnáttumanns?
Nánari lýsing:
Er ábyrgðarmanni heimilt að þjálfa vaktmenn til þess að taka út rofa í forföllum þess kunnáttumanns sem venjulega annast það verkefni, t.d. utan venjulegs vinnutíma. Aðgerðin er einföld og felst í því að slá út innkomandi háspennurofa til þess að innsetning varaafls sé möguleg, þegar rekstrartruflanir verða.
Svar:
Skilgreina má vaktmennina sem kunnáttumenn til þeirra verka sem gera má ráð fyrir að þeir valdi, að því tilskyldu að þeir fái nauðsynlega þjálfun. Þar sem fyrirhugað verk þeirra er einfalt og virkið sömuleiðis einfalt má ætla að ekki sé nauðsynlegt að um fagmenn á rafmagnssviði sé að ræða, en það er hlutverk ábyrgðarmanns að meta það. Viðkomandi kunnáttumenn þurfa að fá aðgang að virkinu, sem felur í sér að þeir fái til lykil í vörslu sína og að með það sé farið í samræmi við kröfur um skráningu og afhendingu lykla sem veita aðgang að raforkuvirkjum, sjá reglur um skoðun innri öryggisstjórnunar rafveitna.
Öryggisstjórnunarkerfi rafverktaka
Hvaða húsnæði er sambærilegt við íbúðarhúsnæði, sbr. VLR 3.012?
Svar:
Um er að ræða áhættuflokkun neysluveitna í rekstri sem samkvæmt gr. 6.5 í rur er skilgreint á eftirfarandi hátt: „Allt íbúðarhúsnæði, neysluveitur sem lítið er gengið um og neysluveitur með smá atvinnu¬starfsemi þar sem einungis eigandi gengur um að jafnaði“. Sem dæmi má nefna skrifstofur, viðtalsherbergi eða fundarherbergi í íbúðarhúsum þar sem umfang atvinnustarfsemi er takmarkað.
Svar:
Í VLR 3.013, kemur fram að nýlagnir og meiriháttar breytingar á raflögnum séu tilkynningarskyldar. Í verklagsreglunni eru einnig að finna dæmi um hvað telst meiriháttar breyting. Auk þess að tilkynna til HMS ætti rafverktaki við verklok að afhenda viðskiptavini sínum afrit af tilkynningu um neysluveitu og einnig byggingarstjóra sé um þess háttar framkvæmd að ræða.
Þarf að tilkynna uppsetningu hleðslustöðva fyrir rafbíla?
Svar:
Já, uppsetning hleðslustöðvar er tilkynningarskyld. Samkvæmt VLR 3.013 eru allar meiriháttar breytingar á raflögnum tilkynningarskyldar, þar á meðal uppsetning tækja með mikla straumnotkun. Hleðsla rafbíla hefur í för með sér töluverða straumnotkun sem af getur stafað hætta sé ekki rétt að málum staðið.
Hvaða eyðublöð á að nota við tilkynningar vararafstöðva og smávirkjana sem eru hluti ÖST rafverktaka?
Svar:
Vararafstöðvar skal tilkynna við upphaf verks til rafveitu á eyðublaði EYB 3.102. Einnig má nota þjónustubeiðni eða heimtaugarumsókn (eyðublöð Samorku S0.801 og S0.802) til þess. Við lok verks skal það tilkynnt til rafveitu á eyðublaði EYB 3.105, sbr VLR 3.013.
Smávirkjanir skal tilkynna við upphaf verks til HMS á eyðublaði EYB 3.101, sjá ferilblað EYB 3.080. Gildir það hvort heldur virkjunin er einkarafstöð eða tengist dreifikerfi rafveitu. Við lok verks skal tilkynna einkarafstöðvar á eyðublaði EYB 3.105.
Má rafvirki með sveinsréttindi taka að sér verk í eigin nafni?
Nánari lýsing:
Er rafvirkja með sveinsréttindi heimilt að taka að sér einhver verk í eigin nafni án þess að meistaralærður maður komi þar að? Hér er átt við smáverk.
Svar:
Nei, rafvirkja með sveinsréttindi er ekki heimilt að taka að sér verk í eigin nafni. Einungis löggiltum rafverktökum með löggildingu HMS til rafvirkjunarstarfa er heimilt að taka að sér í eigin nafni verk sem falla undir rur
Raforkuvirki
Er leyfilegt að leggja 400 V streng og 11 kV streng um lóð íbúðarhúsnæðis?
Svar:
Engin ákvæði eru í reglum um rafmagnsöryggi sem koma í veg fyrir slíkt, svo fremi sem frágangur strengja sé reglum samkvæmt.
Neysluveitur
Mega tvö dreifikerfi tengjast sömu neysluveitu?
Svar:
HMS gerir ekki athugasemd við að tvö dreifikerfi séu tengd við sömu neysluveituna, svo fremi sem gripið sé til viðeigandi ráðstafana, t.d. að aðskilja þau með skiptirofa eða á annan fullnægjandi hátt. Einnig þarf að koma fyrir greinar- og endingargóðum merkingum um það á áberandi stað, t.d. í eða við töflu.
Hvar byrjar neysluveita?
Svar:
Eftirfarandi skilgreiningu á neysluveitu er að finna í rur: „Raflögn og rafbúnaður innan við stofnkassa (eða búnað, sem gegnir hlutverki stofnkassa)“. Neysluveita byrjar því innan við afhendingarstað rafmagns (endi heimtaugarstrengs).
Má neysluveita ná út fyrir lóðarmörk?
Svar:
Engin ákvæði eru í reglum um rafmagnsöryggi sem koma í veg fyrir að neysluveita nái út yfir lóðarmörk.
Gilda einhverjar kröfur um hvar tengja má varaafl við neysluveitu?
Svar:
HMS gerir ekki athugasemd við það hvar varaafl er tengt við neysluveitu, svo fremi að gengið sé frá þeirri tengingu reglum samkvæmt. Nánari leiðbeiningar er að finna í VL 3.004.
Má undir einhverjum kringumstæðum sleppa bilunarstraumsrofa í íbúðarhúsnæði og sambærilegu húsnæði?
Svar:
Gr. 11.2 í rur gerir kröfu um bilunarstraumsrofa í íbúðum, skólum, dagheimilium, hótelum, gististöðum og opinberum byggingum. Þá kemur fram í gr. 411.3.3 í ÍST HD 60364 að tenglar allt að 32A til almennra nota og líklegt er að leikmenn noti skuli varðir með bilunarstraumsrofa. Í gr. 411.3.4 í ÍST HD 60364 kemur svo fram að ljósagreinar í íbúðarhúsnæði skuli varðar með bilunarstraumsrofa.
Í hlutum 7 í ÍST HD 60364 geta svo verið að finna sérstakar kröfur varðandi bilunarstraumsrofa á sérstökum stöðum.
Ekki er nauðsynlegt að kvíslar í fyrrgreindu húsnæði, t.d. frá aðaltöflu í fjölbýli til einstakra íbúða, séu á bilunarstraumsrofa, sé þess gætt að engin úttök séu á kvíslunum og að bilunarstraumsrofi sé settur fyrir lagnir „notendamegin“, t.d. í töflum einstakra íbúða.
Sé slíkt nauðsynlegt, t.d. vegna öryggissjónarmiða, mega „sérstök“ rafkerfi í fyrrgreindu húsnæði sem leikmenn umgangast alla jafna ekki vera utan við bilunarstraumsrofa. Slíkar lagnir skulu vera á sérstökum greinum/kvíslum og þær lagðar þannig að leikmenn umgangist þær og rafbúnað þeim tengdum að jafnaði ekki og að ekki sé hætta á „víxlun“ við almenna raflögn viðkomandi byggingar. Tenglar skulu ekki vera í slíkum lögnum og öðrum mögulegum úttökum, s.s. tengidósum, skal koma þannig fyrir að ekki sé hætta á „víxlun“ við almenna raflögn viðkomandi byggingar.
Hvernig á að litamerkja taugar?
Svar:
Í gr. 11.2 í rur og gr. 514.3 514 í ÍST HD 60364 eru settar fram kröfur varðandi litamerkingar tauga.
Litamerkingar tauga skulu vera í samræmi við staðalinn ÍST EN 60445. Núlltaug (N) skal hafa ljósbláa einangrun, varnartaug (PE) gul/græna einangrun og varnarnúlltaug (PEN) gul/græna einangrun en með ljósbláum merkjum á endum (t.d ljósblár hringur, herpiádrag) þar sem hún er tengd. Mælt er með að litur á einangrun fasatauga sé svartur, brúnn og grár, sem er í samræmi við framleiðslustaðla strengja.
Í gr. 514.3 í ÍST HD 60364 eru tilteknar undantekningar í sérstökum tilfellum, t.d. þegar um séstaka gerð strengja eða tauga er að ræða.
Má nota vatnsrör sem jarðskaut í TT-kerfi?
Svar:
Ekki má nota vatnspípukerfi sem jarðskaut.
Í gr. 542.2.3 í ÍST HD 60364 kemur skýrt fram að ekki megi nota vatnslagnir sem jarðskaut. Í sömu grein kemur fram að ein gerð jarðskauta sem nota megi sé rör. Með því er átt við rör, úr viðeigandi efni, sem hafa það sérstaka hlutverk að vera jarðskaut, ekki rör sem hafa annað aðalhlutverk, ekki síst þegar um er að ræða vatnspípukerfi sem breytt getur verið án aðkomu eigenda neysluveitna.
Bent er á að erfitt getur verið að tryggja útleysingu í TT-kerfi, sbr. gr. 411.5 í ÍST HD 60364, nema með notkun bilunarstraumsrofa.
Er leyfilegt að nota bláan leiðara fyrir annað en núllleiðara (N)?
Svar:
Í straumrásum með núllleiðara (N) skal hann vera blár. Bláan leiðara má ekki nota til annars í straumrásum með núllleiðara (N). Í straumrásum þar sem enginn núllleiðari (N) er má nota bláan leiðara til annars, t.d. sem fasaleiðara, en þó aldrei sem varnarleiðara (PE) eða varnarnúllleiðara (PEN).
Hvernig á að leggja og tengja kerfi fortengdra strengja („gesis“ og „instabus“ kerfi)?
Nánari lýsing:
Er í lagi að leggja kerfi fortengdra strengja svokölluð “gesis-kerfi” eða “instabus-kerfi” á sama hátt og um lausataugar væri að ræða? Hvernig ber að ganga frá tengistykkjum kerfisins?
Svar:
Tilkoma fortengdra strengja með kló og taugatengli, stundum kallað „gesis-kerfi“ eða „instabus-kerfi“, breytir í engu gildandi reglum um strengjalagnir eða lausataugar, sbr. reglugerð um raforkuvirki (rur) og ÍST HD 60364.
Leggja skal þessa fortengdu strengi, eins og aðra, eftir viðurkenndum lagnaleiðum, s.s. strengstigum, eða festa með öðrum viðurkenndum hætti. Þá skal það sérstaklega áréttað að þessir strengir mega ekki liggja lausir eða upprúllaðir, t.d. ofan við kerfisloft, frekar en aðrir strengir.
Þar sem um er að ræða styttri vegalengdir, t.d. frá strengstiga í lampa eða á milli lampa, mega þessir strengir þó liggja lausir enda sé þá farið eftir ákvæðum gildandi reglna (rur og skoðunarreglur) um lausataugar varðandi frágang, lengd o.þ.h.
Samtengingar og greiningar skulu gerðar í þar til ætluðum tengidósum (tengistykkjum) og skulu tengistykkin festast eftir reglum sem gilda um tengidósir.
Er krafa að verja tengla utanhúss með bilunarstraumsrofa?
Svar:
Það er alltaf æskilegt að nota bilunarstraumsrofa sem viðbótarvörn, ekki síst á „erfiðum“ stöðum eins og utandyra.
Gr. 11.2 í rur gerir kröfu um að raflagnir í íbúðum, skólum, dagheimilium, hótelum, gististöðum og opinberum byggingum séu varðar með bilunarstraumsrofa (30mA). Það á að sjálfsögðu einnig við um tengla utanhúss sem eru hluti slíkra raflagna.
Jafnframt kemur fram í gr. 411.3.3 í ÍST HD 60364 að tenglar allt að 32A til almennra nota og líklegt er að leikmenn noti skuli varðir með bilunarstraumsrofa, þar kemur einnig fram að hreyfanlegur búnaður allt að 32A til nota utandyra skuli varinn með bilunarstraumsrofa.
Í hlutum 7 í ÍST HD 60364 geta svo verið að finna sérstakar kröfur varðandi tengla og bilunarstraumsrofa á sérstökum stöðum.
Má blanda saman varnaraðgerðum eins og t.d. tvöföld einangrun og sjálfvirkt rof frá veitu?
Svar:
Já, en varnaraðgerðirnar sem beitt er skulu ekki hafa slík áhrif hver á aðra að það að ein varnaraðgerð bregðist gæti skaðað hinar varnaraðgerðirnar (410.3.8 í ÍST HD 60364).
Má nota búnað í flokki II í veitu sem varin er með sjálfvirku rofi frá veitu?
Svar:
Já, það er í lagi (Athugasemd 1 í 411.1 í ÍST HD 60364).
Ef töfluskápur er merktur með merki um tvöfalda einangrun, gildir sú merking þá einnig fyrir allan búnað sem settur er í skápinn?
Svar:
Nei, merkingin á töfluskápnum gildir eingöngu fyrir skápinn sjálfan. Búnaðurinn inní honum hefur sínar eigin merkingar (7.2 í rur).
Má/Á að spennujafna málmhluti innan í töfluskáp sem er tvöfalt einangraður?
Svar:
Já, alla málmleiðandi hluti, sem geta orðið spennuhafa við fyrstu einangrunarbilun, skal spennujafna, sé varnaraðgerðinni „Sjálfvirkt rof frá veitu“ beitt en sú varnaraðgerð er langalgengust hér á landi (411.3 í ÍST HD 60364).