Birgðasali og söluaðili

Samkvæmtlögum nr. 72/1994 ber birgðasölum og söluaðilum orkutengdra vara að uppfylla kröfur um orkumerkingar. Kröfurnar ná til vara sem eru settar á markað innan Evrópska efnahagssvæðisins. 

Almennar skyldur birgðasala

  • Birgðasali skal tryggja að með hverri einingu vöru sem sett er á markað fylgi ítarlegur prentaður merkimiði og upplýsingablað í samræmi við lög nr. 72/1994, án endurgjalds. Í stað þess að afhenda upplýsingablað með vörunni er birgðasala heimilt að skrá breytur af upplýsingablaði inn í vörugagnagrunn. Birgðasali skal þó afhenda söluaðila prentað upplýsingablað sé þess óskað. 
  • Birgðasali skal þegar í stað og ekki síðar en innan fimm virkra daga frá beiðni söluaðila senda prentaða merkimiða, þ.m.t. merkimiða með breyttum kvarða og upplýsingablöð, án endurgjalds.
  • Birgðasali skal tryggja að merkimiðar og upplýsingablöð sem hann leggur fram séu nákvæm. Hann skal leggja fram fullnægjandi tæknigögn til að mögulegt sé að meta nákvæmni upplýsinganna.  
  • Þegar vörutegund er komin í notkun og það stendur til að uppfæra hana skal birgðasali óska eftir skýru samþykki frá viðskiptavini að því er varðar allar fyrirhugaðar breytingar í kjölfar uppfærslna sem kunna að vera gerðar á vörueiningu í eigu viðskiptavinar sem gætu haft óheppileg áhrif á mæliþætti merkimiða sem tilgreinir orkunýtni vörueiningarinnar. Birgðasali skal tilkynna viðskiptavini um markmið uppfærslunnar og breytingar á mæliþáttum, þ.m.t. breytingar á orkuflokki merkimiða. Á tímabili sem er í réttu hlutfalli við líftíma vöru skal birgðasali gefa viðskiptavini kost á að hafna uppfærslunni. Hafni hann uppfærslunni skal virkni vörunnar ekki verða lakari ef hægt er að komast hjá því.   
  • Birgðasala er óheimilt að setja á markað vörur sem eru þannig hannaðar að þær hafi sjálfvirkt breytta virkni sem bæti frammistöðu þeirra við prófanir sem meta mæliþætti um orkunotkun og áhrif á umhverfi auk annars er varðar notkun þeirra. 

 

Skyldur birgðasala í tengslum við vörugagnagrunn

  • Áður en ný vörutegund er sett á markað skal birgðasali skrá upplýsingar um vörutegundina í opinn hluta vörugagnagrunnsins og þann hluta hans er varðar reglufylgni.
  • Birgðasali færir eftirfarandi skyldubundna og sértæka hluta tæknigagna inn í vörugagnagrunninn:

a) almenna lýsingu á vörutegund, þannig að hana megi sanngreina auðveldlega og án nokkurs vafa

b) tilvísanir í þá samræmdu staðla sem beitt er eða annarra mælingarstaðla sem notaðir eru,

c) sérstakar varúðarráðstafanir sem gera skal þegar tegund er sett saman, sett upp, henni haldið við eða hún prófuð,

d) mælda tæknilega mæliþætti tegundar,

e) útreikninga, sem gerðir eru út frá mældum mæliþáttum,

f) prófunarskilyrði, ef þeim er ekki nægilega vel lýst í b-lið,

 

  • Auk þessa má birgðasali að eigin frumkvæði bæta við viðbótarhlutum tæknigagna í vörugagnagrunninn.
  • Fram að skráningu tæknigagna í vörugagnagrunn skal birgðasali veita aðgang að rafrænni útgáfu þeirra til skoðunar inna tíu daga frá því að beðni berst frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
  • Ef breytingar eru gerðar á vöru sem hafa áhrif á merkimiða eða upplýsingablað skal varan teljast ný vörutegund. Birgðasali skal tilgreina í gagnagrunninum þegar hann hættir að setja einingar vörutegundar á markað.
  • Eftir að síðasta eining vörutegundar er sett á markað skal birgðasali varðveita upplýsingar um vörutegundina í þeim hluta vörugagnagrunnsins er varðar reglufylgni í a.m.k. 15 ár. Upplýsingum í opnum hluta gagnagrunnsins skal ekki eytt.

 

Skyld­ur sölu­að­ila

Söluaðili skal með sýnilegum hætti, þ.m.t. við fjarsölu á netinu, sýna þann merkimiða sem birgðasali lætur í té og veita viðskiptavini aðgang að upplýsingablaði, þ.m.t. á útprentuðu formi á sölustað, sé þess óskað.

 

Aðrar skyldur birgðasala og söluaðila

Birgðasali og söluaðili skulu:

a) með sjónrænum auglýsingum og tæknilegu kynningarefni vísa í orkunýtniflokk vöru og þau svið orkunýtniflokka sem eiga við tiltekna vörutegund,

b) koma í veg fyrir að sýndir séu villandi eða misvísandi merkimiðar, tákn eða áletranir um orkunotkun og önnur mikilvæg aðföng meðan á notkun vöru stendur,

c) ekki afhenda eða sýna merkimiða fyrir vörur sem tengjast orkunotkun, sem líkja eftir merkimiðum sem veittir eru samkvæmt lögum þessum,

d) ekki afhenda eða sýna merkimiða fyrir vörur, ótengdar orkunotkun, sem líkja eftir merkimiðum fyrir vörur sem tengjast orkunotkun.