Lífsferilsgreining (LCA)
Lífsferilsgreining (LCA)

Lífsferilsgreining (LCA)
Lífsferilsgreining (LCA)

Leiðbeiningar
Leiðbeiningar
Leiðbeiningarnar veita ráðgjöfum og öðru áhugafólki um byggingariðnaðinn upplýsingar og gagnlega grunnþekkingu á lífsferilsgreiningum (e. life cycle assessment, LCA einnig kallað vistferilsgreiningar) fyrir byggingar. Leiðbeiningarnar gagnast byggingariðnaðinum í að framkvæma lífsferilsgreiningar.
Þannig er stuðlað að markmiðum sem að stjórnvöld hafa sett sér um samdrátt í losun, í samræmi við aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum, sem og aðrar nýjar sjálfbærnikröfur sem stefnt er að því að innleiða í byggingarreglugerð. Litið var til fyrirmynda á norðurlöndunum við gerð þessara leiðbeininga sem eru einnig að innleiða LCA kröfur og sjálfbærnikröfur í sínum byggingarreglugerðum.
Leiðbeiningar
Mælt er með því að nota LCA hugbúnað fyrir lífsferilsgreiningar til að tryggja gæði gagna, rekjanleika og einfalda LCA sérfræðingum og hönnuðum vinnuna. LCA nær yfir framleiðslu byggingarefna, orkunotkunar til rekstrar og úrgangsmeðferðar byggingarefna við lok nýtingartíma þeirra. Fyrir gagnasafn þarf að safna nákvæmum gögnum, þekkja og mæla öll aðföng og framleiðslu sem tengist byggingunni yfir allan lífsferil hennar. Þ.e. safna gögnum um efni, byggingarferla, flutning, rekstur, viðhald, endurnýjun og förgun eða endurvinnslu.
Það er mikilvægt að fylgja þeim kerfismörkum sem kröfur um lífsferilsgreininguna skilgreina. Ef byggingarefni finnst ekki í gagnabankanum sem er verið að nota, þá er hægt að nota annan en gera grein fyrir því við skil á gögnum. Ef EPD blöð fyrir íslensk byggingarefni eru til, þá skal leitast við að nota þau. Hægt er að nálgast upplýsingar um EPD blöð undir ítarefni og einnig er hægt að nota meðaltalsgögn þegar ekki er hægt að nálgast raungögn.
Þegar verið er að nýta sérstök LCA forrit við gerð greininganna þá er verið að setja inn upplýsingar um byggingahlutana og orkunotkun byggingarinnar og forritið sér þá um LCA útreikningana og safnar niðurstöðum í valdar töflur og skýrslu. Það er reiknað yfir allan líftíma byggingarinnar og tekur því til hráefnisöflunar, framleiðslu byggingarefna, orku- og auðlindanotkunar við rekstur og viðhald, auk förgunar og hugsanlega endurvinnslu byggingarhluta og byggingarefna.
Til að fá frekari kennslu í framkvæmd lífsferilsgreininga eru menntastofnanir með námskeið ásamt því að flest forritin sem hægt er að nota við gerð lífsferilsgreiningana veita sérstakar leiðbeiningar. Sjá nánar undir námsefni í ítarefni.
Heildstæð LCA greining felur í sér að allir fasar lífsferils séu teknir með, en þar sem að ekki eru til meðaltalstölur eða mikil óvissa fylgir ákveðnum fösum þá er einfaldari nálgun á upphafsstigum innleiðingarinnar að taka þá ekki alla með. Í töflunni hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir þá fasa sem verður krafa um í fyrstu innleiðingu á LCA í íslenskum byggingariðnaði. Um að ræða alla fasa lífsferilsgreininga nema B1, B2, B3, B5 og B7.
Fyrir þá fasa sem ekki eru til upplýsingar um á hönnunarstigi er hægt að nota meðaltalstölur, byggðar á fermetra gildum og eru aðgengilegar hér á síðu HMS Íslensk meðaltalsgildi.
Áætla þarf líftíma byggingarefna og gera ráð fyrir útskipti á líftímanum. Til eru gagnagrunnar sem áætla líftímann, t.d. hér og í skýrslu Level(s) á bls. 29-30, en verið er að vinna í að útbúa almenn gögn yfir líftíma byggingarefna við íslenskar aðstæður.


Skilgreindur líftími greininga (e. reference study period) skal vera 50 ár, sem er í samræmi við öll Norðurlöndin. Þetta viðmið þýðir ekki að viðkomandi mannvirki verði rifið eða hætti starfsemi eftir 50 ár. Heldur er það notað til að auðvelda staðlaðan samanburð og endurspeglar dæmigerðan viðhaldstíma sem inniheldur meðal annars skipti á þaki eða gluggum og endurnýjun á margs konar yfirborðsefnum.
Kolefnisspor er mælikvarði fyrir losun gróðurhúsalofttegunda vegna athafna mannsins. Helstu gróðurhúsalofttegundir sem taldar eru inn í kolefnissporið eru: koltvísýringur (CO2), metan (CH4), hláturgas (N2O), óson (O3), vetnisflúorkolefnis (HFC), perflúorkolefni (PFC) og brennisteinshexaflúoríð (SF6). Þessar lofttegundir hafa mismikil áhrif á hlýnun jarðar. Til að einfalda útreikninga og umfjöllun um losun gróðurhúsalofttegunda er því settur fram einn mælikvarði sem kallaður er kolefnisspor, gefið upp í tonnum eða kílóum koltvísýringsígilda, skammstafað t CO2-ígilda eða kg CO2-ígilda.
Almenn krafa er gerð um rekjanleika gagna þannig að hægt sé að sjá úr hvaða gagnabanka gögnin koma, hvort sem að notað hafi verið EPD blað, útgefin meðaltöl fyrir Ísland eða aðrir gagnabankar.
Í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi hafa sérstakir gagnabankar verið gerðir aðgengilegir þar sem hægt er að nálgast meðaltöl fyrir framleiðslu valinna byggingarefna, orkunotkun o.fl. Þegar stuðst er við almenn gögn í útreikningum fyrir íslenskar byggingar og ekki liggja fyrir aðgengilegar séríslenskar tölur, þá skal styðjast við aðra gagnabanka og athuga að gögnin séu rekjanleg.
Sjá yfirlit í eftirfarandi töflu yfir þá byggingarhluta sem skulu vera innifaldir í LCA greiningu íslenskra bygginga. Í stuttu máli eru það allir helstu byggingarhlutar og tæknikerfi sem þarf að skila upplýsingum um.
Notast skal við hönnunargögn á borð við magnskrár og módel sem að hafa nú þegar í flestum tilvikum þær upplýsingar sem þurfa að liggja fyrir. Fyrir einstaka byggingarhluta þurfa að liggja fyrir upplýsingar um byggingarefni og magn þeirra þannig að hægt sé að vinna lífsferilsgreiningu.
Í þeim frávikum þar sem að byggingarhlutar hafa ekki verið skilgreindir í útboði og/eða hönnunargögnum, en vitað er að verði hluti að fullfrágenginni byggingu, er lagt til að þeir verði áætlaðir með almennum bakgrunnsgögnum vegna lífsferilsgreininga á hönnunarstigi, en upplýsingar síðan uppfærðar á lokastigi.

Til þess að stuðla að aukinni endurnotkun á nothæfum byggingarefnum þá er endurnotkun á byggingarefnum skráð án losunar eða 0 kg CO2-íg/m2/ári, að því gefnu að fyrri notkun byggingarefnisins hafi verið á Íslandi. Flutningar (A4) og byggingarframkvæmdir (A5) yrðu reiknuð með sama hætti og ef um ný efni væri að ræða.
Ítrekað skal að hér er ekki átt við endurunnið efni, heldur endurnotkun í sömu eða svipaðri notkun, t.d. endurnotkun á stálbitum sem fluttir eru frá einum niðurrifstað og nýttir í öðru mannvirki.
Ítarefni
Frá og með 1. september 2025 verði gerð krafa um gerð og skil lífsferilsgreininga fyrir öll ný mannvirki í umfangsflokkum 2 og 3, skv. 1.3.2. gr. byggingarreglugerðar.
Aðlögunartími verður frá mars 2024 til ágúst 2025, þannig að allir geti byrjað að æfa sig áður en til gildistöku kemur; hvort sem það eru hönnuðir, verktakar, byggingarfulltrúar, HMS eða aðrir.
Losunarviðmið og þak á losun þróuð og innleidd í nokkrum fösum á næstu árum: Þeim niðurstöðum lífsferilsgreininga sem berast í skilagáttina verði safnað saman og þær nýttar í rannsóknarskyni, m.a. til að greina meðallosun fyrir ólíkar gerðir bygginga á Íslandi.
Þær upplýsingar verði uppfærðar með reglulegu millibili, að lágmarki á tveggja ára fresti. Með þessum upplýsingum verður hægt að vakta stöðuna, uppfæra aðgerðaráætlun og þróa viðmið um hámarkslosun sem hægt er að innleiða á seinni stigum.
Auk minni losunar frá íslenskum byggingum er búist við að árangursrík innleiðing á lífsferilsgreiningum í byggingarreglugerð leiði meðal annars til eftirfarandi:
- Þekkingu á hvar umhverfisáhrifin vega þyngst yfir líftíma mannvirkis.
- Miðlun áreiðanlegra upplýsinga til verktaka, hönnuða, framleiðenda og neytenda um umhverfisáhrif.
- Markvissari ákvarðanatökur til að draga úr umhverfisáhrifum með innleiðingu á hönnunarstigi.
- Heildstæðara val á umhverfisvænum lausnum og efnum.
- Byggingarefni með lágt kolefnisspor verði notuð í auknum mæli í íslenskum byggingum.
- Hönnun og framkvæmdir taki í auknum mæli mið af umhverfisvænni aðferðum.
- Vitundarvakning verði innan byggingargeirans varðandi umhverfisáhrif bygginga og byggingaraðilum gert kleift að setja sér mælanleg markmið.
- Framleiðendur íslenskra byggingarefna þróa sína framleiðslu með lágmörkun umhverfisáhrifa að leiðarljósi.
Til að fá frekari kennslu í framkvæmd lífsferilsgreininga eru menntastofnanir með námskeið ásamt því að hugbúnaðurinn sem hægt er að nota við gerð lífsferilsgreiningana veita flestir sérstakar leiðbeiningar:
Iðan fræðslusetur; Iðan - Lífsferilsgreiningar í byggingariðnaði - LCA (idan.is)
Endurmenntun HÍ; Kolefnisspor bygginga
Háskólinn í Reykjavík: Er með námskeið innan sinna námsleiða frá haustinu 2024.
Umhverfisyfirlýsing fyrir vöru er mat á umhverfisáhrifum byggingarvöru skv. DS/EN 15804 og hægt er að nýta niðurstöður úr slíkum yfirlýsingum taka hana með í lífsferilsgreiningu byggingar. Umhverfisyfirlýsingarnar eru teknar út af þriðja aðila og þurfa að uppfylla strangar reglur fyrir hvern vöruflokk og hlíta sambærilegum útreikningsreglum (e. Product Category Rules, PCR) til að tryggja áreiðanleika og samræmi milli ólíkra framleiðenda. Umhverfisyfirlýsingar er hægt að nota í lífsferilsgreiningu byggingar til þess að endurspegla ákveðið efnisval.
Þegar EPD eru notuð þurfa þau að vera í gildi þegar þau eru sett í LCA greininguna. Til viðmiðunar er gildistími EPD gagna yfirleitt 5 ár og kemur það skýrt fram á þeim hvenær þau voru gerð og hver gildistíminn er. Ástæða þess að gildistíminn er ekki lengri er sú að framleiðsluferlar, hráefni, uppruni hráefna sem og bein og óbein orkunotkun getur tekið töluverðum breytingum hjá framleiðendum frá ári til árs.
Dæmi um hvar hægt er að finna EPD blöð:
Search | Database | ÖKOBAUDAT (oekobaudat.de)
EPDs in digital form on IBU.data | Institut Bauen und Umwelt e.V. (ibu-epd.com)
Welcome! - International EPD® System - Data hub (environdec.com)
Mælt er með því að nota LCA hugbúnað fyrir LCA greiningar til að tryggja gæði gagna, rekjanleika og einfalda LCA sérfræðingum og hönnuðum vinnuna. Það er ekki krafa um notkun á ákveðnum hugbúnaði umfram annan, en ætlast til að allar forsendur og bakgrunnsgögn liggi fyrir. Ýmsar hugbúnaðarlausnir eru á markaði sem þegar eru nýttar á Íslandi, bæði fríar og sem greitt er fyrir.
LCA hugbúnaður sem ætlaður er byggingariðnaði er í flestum tilvikum tengdur helstu gagnabönkum sem völ er á og þeir einfalda samantekt og síðari uppfærslur á greiningum.
Til er ýmis hugbúnaður til að nýta við LCA útreiknina, má þar nefna t.d. EG Sigma, GaBi, LCAbyg, Madaster, One Click LCA, OpenLCA, SimaPro. Á Íslandi er hvað mesta reynslan af því að nota One Click LCA og hægt er að nálgast endurgjaldslaus námskeið á heimasíðunni þeirra.
Niðurstöður lífsferilsgreininga eru fjölbreyttar og fjölþættar og hefur mesta áherslan verið lögð á hlýnun jarðar eða losun gróðurhúsalofttegunda, það sem einnig er kallað kolefnisspor. Ljóst er þó að áhrif mannvirkja geta verið margvísleg yfir allan líftíma sinn og eftir vistkerfum og viðtökum (loft, jörð, sjór). Þ.e. frá því að efni eru unnin úr jörðu, meðhöndluð með mismunandi orkugjöfum oft víða um heim. Efni til húsbygginga geta verið flutt heimshorna á milli áður en þau eru notuð til húsbyggingar á Íslandi og allt þangað til að mannvirki hafa lokið líftíma sínum og efnum komið til förgunar eða til endurvinnslu. Í lífsferilgreiningum kallast þetta frá vöggu til grafar.
Hér eftir eru taldir upp þeir umhverfisáhrifaþættir sem oftast eru greindir í tengslum við lífsferilsgreiningar fyrir mannvirki. Ekki eru um tæmandi lista allra áhrifaflokka að ræða sem hægt er að greina með aðferðafræði lífsferilsgreininga.
Gróðurhúsaáhrif (hlýnun jarðar, kolefnisspor) - e. Global Warming Potential
Gróðurhúsaáhrif valda breytingu á meðalhita jarðarinnar sem rekja má til losunar gróðurhúsalofttegunda af manna völdum, t.d. koltvísýrings (CO2), metans (CH4) og brennisteinshexaflúoríðs (SF6). Búist er við að hækkun meðalhita jarðar muni m.a. hafa í för með sér miklar breytingar á loftslagi og veðurfari, auknum skriðum vegna aukinnar staðbundinnar rigningar, hækkun á yfirborði sjávar og aukningu í útbreiðslu sjúkdóma.
Súrnun - e. Acidification Potential
Súrnun lands og vatns á sér stað þegar regn hvarfast við mengandi lofttegundir í andrúmsloftinu og myndar súrt regn. Hér er ekki um að ræða súrnun sjávar af völdum gróðurhúsaáhrifa. Þær lofttegundir sem helst valda myndun súrs regns eru ammoníak (NH3), köfnunarefnisoxíð (NOx) og brennisteinstvíoxíð (SO2). Þar sem súrt regn fellur til jarðar, oft töluverða vegalengd frá uppsprettu mengunarinnar, getur það valdið verulegum skemmdum á vistkerfum. Skaðinn er mismunandi eftir gerð vistkerfa, en súrt regn getur valdið miklum skaða í skóglendi, á dýralífi, vatnalífríki og á mannvirkjum.
Næringaefnaauðgun - e. Eutrophication Potential
Næringarefnaauðgun getur átt sér stað í vatni eða í jarðvegi, þar sem t.d. hár styrkur næringarefna í vatni getur staðbundið valdið óhóflegum þörungavexti sem leiðir af sér lækkaðan styrk súrefnis í vatninu. Næringarefnaauðgun getur valdið miklum skaða með aukinni dánartíðni lífvera og jafnvel brotthvarf ákveðinna lífvera úr vistkerfinu. Losun ammoníaks, nítrata, nituroxíða og fosfórs í andrúmsloft og vötn getur valdið næringarefnaauðgun. Dæmi um þessi staðbundnu áhrif er næringarefnaauðgun í Mývatni sem rekja mátti til ófullnægjandi hreinsunar á fráveituvatni.
Eyðing ósonlags - e. Ozone Depletion Potential
Eyðing ósons í heiðhvolfinu eða eyðing ósonlagsins er af völdum klór- og brómsambanda sem berast upp í heiðhvolfið, sem er í um 10 – 50 km hæð yfir yfirborði jarðar. Þau efnasambönd sem helst valda eyðingunni eru klórflúorkolefni (CFCs), halónar og vetnisklórflúorkolefni (HCFCs). Eyðing ósonlagsins dregur úr getu þess til að draga úr útfjólubláum (UV) geislum í gufuhvolfi jarðar sem veldur aukinni geislun krabbameinsvaldandi UVB geisla á yfirborði jarðar. Árið 1985 fóru mælingar á styrk ósons í heiðhvolfinu yfir Suðurskautslandinu að sýna töluverða lækkun, en mælingar hafa verið gerðar frá árinu 1956. Í kjölfarið var undirrituð s.k. Montreal bókun um efni sem valda rýrnun ósonlagsins þar sem kveðið var á um að horfið yrði frá notkun ósoneyðandi efna, og hefur lækkunin haldist í skefjum síðan þá.
Auðlindanotkun - e. Abiotic Depletion Potential
Mikið magn byggingarefna þarf til að reisa mannvirki, og í línulegu hagkerfi er stöðugt gengið á auðlindir jarðar við framleiðslu byggingarefna í stað þess að nýta betur þau hráefni sem þegar er búið að vinna og eru til staðar í „tæknihvolfinu“ (en. technosphere). Um er að ræða bæði auðlindir í formi ólífrænna hráefna, t.d. málmgrýti, og lífrænna hráefna, t.d. kol, jarðefnaeldsneyti og gas. Öll eru þessi efni óendurnýjanleg og því reiðir á að heimurinn taki í auknum mæli upp hringrásarhagkerfi í stað línulegs hagkerfis, þar sem auðlindir jarðar eru nýtt sem best. Auðlindanotkun er mælikvarði á hversu mikið forði óendurnýjanlegra hráefna minnkar vegna vinnslu þeirra og notkun.
Vatnsskortur - e. Water Deprivation Potential
Á undanförnum árum hefur farið mikil vinna í að þróa umhverfisvísi til að meta vatnsnotkun eða það hvernig gengið er á vatnsauðlindir jarðar. Sú aðferð sem stuðst er við í dag endurspeglar aðgengi að vatni á hverju svæði fyrir sig, eftir að búið er að taka tillit til þarfa mannsins og allra vistkerfa á þessu tiltekna svæði, og nær áhrifaflokkurinn þannig til bæði manna og vistkerfa.
Koltvísýrings ígildi er einingin sem er notuð til að mæla gróðurhúsaáhrif (e. Global warming potential, GWP) og oft talað um sem kolefnisspor.
CO2-ígildi er mæligildi fyrir losun allra gróðurhúsalofttegunda en framlag þeirra er mismikið á milli gastegunda, áhrif hnattrænnar hlýnunar er reiknað út í hlutfalli við hlýnunarmátt koltvísýrings (CO2). Aðrar gróðurhúsalofttegundir en koltvísýring eru t.d. metan (1 kg CH4 jafngildir 30 kg CO2-ígilda) og hláturgas (1 kg N2O jafngildir 290 kg CO2-ígildum). Á ensku er talað um er CO2-equivalents eða CO2-eq og á íslensku CO2-íg.
Efnahagslegt kerfi þar sem vöruhönnun, framleiðsla, dreifing, neysla og meðhöndlun úrgangs mynda því sem næst lokaða auðlindahringrás. Leitast er til að halda virði efna í hringrásinni og forðast að henda. Andstæðan við hringrásarhagkerfi er línulega hagkerfið sem að við þekkjum í dag og gengur út á að framleiða, selja meira og hafa stöðuga eftirspurn og henda því sem fyrir er.
Einkennandi atriði fyrir hringrásarhagkerfið:
- Enginn ónothæfur úrgangur myndast, allt hráefni er nýtt áfram í öðrum tilgangi.
- Góð ending, líftími vara og ætluð notkun eftir lok líftíma
- Endurnotkun, Endurvinnsla og Endurnýting eru lykilatriði hringrásarhagkerfisins
Mynd: Umhverfis- og auðlindaráðuneytið (2021).
Greina LCA niðurstöðurnar til að auðkenna þá þætti (e. "hot spots") í lífsferli byggingarinnar sem eru með hæsta kolefnissporið. Þetta getur verið losun frá framleiðslu byggingarefna, flutningi, eða orkunotkun á rekstrartíma.
Markvissar aðgerðir:
A1-A3
Forgangsraða notkun á efnum með lágt kolefnisspor.
Draga úr þörfinni á nýju hráefni með því að velja endurunnið eða endurnýtt byggingarefni.
A4-A5
Velja íslenskt byggingarefni og efni frá löndum nær okkur til að draga úr flutningi.
Velja flutningsleiðir sem lágmarka kolefnisspor.
Draga úr úrgangi og orkunotkun á byggingarstað.
B4
Velja efni með langan líftíma og lágt kolefnisspor.
B6
Hönnunarlausnir sem lágmarka orkunotkun og notkun endurnýjanlegrar orku, t.d. einangrun og nýting á náttúrulegu ljósi.
C1-C4
Hanna byggingar þar sem auðvelt er að endurnýta eða endurvinna efni við lok líftíma byggingar.
Tryggja ábyrga meðhöndlun úrgangs.
Muna að mikilvægt er að fylgjast reglulega með framvindu og mæla árangur miðað við upphafleg markmið og nýta niðurstöður til að aðlaga og bæta áætlanir.
Eigandi byggingar/Verkkaupi/Framkvæmdaraðili
- Ber ábyrgð á að kröfur um lífsferilsgreiningar séu uppfylltar
- Getur sett hertari umhverfiskröfur í samræmi við eigin markmið eða stefnu
- Ákveður ábyrgð og hlutverk allra aðila
Ráðgjafi
- Að jafnaði er ráðgjafi arkitekt eða verkfræðingur framkvæmdarinnar
- Framleiðir gögn sem sýna fram á að lífsferilsgreiningar séu uppfylltar
- Skilgreinir kröfur og ábyrgð þess efnis að umhverfiskröfur, þ.m.t. lífsferilsgreiningar verði uppfylltar í útboðsgögnum
Framkvæmdaraðili
- Getur verið eigandi, verkkaupi eða verktaki byggingarinnar
- Afhendir gögn um magn og tegund byggingarefna fyrir lífsferilsgreiningu og útvegar EPD eftir þörfum
- Tryggir að áður áætluð eða sambærileg efni séu notuð í byggingunni.
- Fylgjast með og skrá orkunotkun, úrgangsstjórnun og auðlindanýtingu á verkstað

Fyrir stærri byggingar, nokkur hundruð m² eða stærri. Getur verið gott að skipa sérstaka sjálfbærniráðgjafa og sjálfbærnistjóra. Sjálfbærniráðgjafi væri þá hluti af ráðgjafateymi eigandans. Við stærri eða metnaðarfullar framkvæmdir er sjálfbærnistjóri sem heyrir þá beint undir verkefnastjóra/byggingastjóra.
Þeirra hlutverk væru þá að:
Sjálfbærniráðgjafi
- Setur sjálfbærnimarkmið og sjálfbærnikröfur eigandans
- Samræmir framlag allra aðila
- Getur framkvæmt lífsferilsgreiningu á hönnunarstigi
Sjálfbærnistjóri
· Tryggir að staðið sé við sett sjálfbærnimarkmið og loftslagskröfur
· Skilgreinir í útboðsgögnum kröfur og ábyrgð þess efnis að umhverfiskröfur verði uppfylltar

Slóð á regluverk Norðurlandanna:
Danmörk BR18 (bygningsreglementet.dk)
Noregur § 17-1. Klimagassregnskap fra materialer - Direktoratet for byggkvalitet (dibk.no)
Svíðþjóð Lag (2021:787) om klimatdeklaration för byggnader | Sveriges riksdag (riksdagen.se)
Finnland Vähähiilisen rakentamisen tiekartta - Ympäristöministeriö