13. janúar 2025
3. september 2024
Yfir 100 lóðir staðfestar annan mánuðinn í röð
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Alls voru 138 lóðir staðfestar í fasteignaskrá í ágúst um land allt, þar af 37 íbúðarhúsalóðir, 22 sumarhúsalóðir og 28 atvinnuhúsalóðir
- Íbúðahúsalóðum fækkar úr 61 í júlí í 37 í ágúst, þrátt fyrir að heildarfjöldinn stendur í stað á milli mánaða
- Lóðir skráðar sem annað land eða einfaldlega lóð voru 44 talsins í ágúst, en líklegast er að þessar lóðir breyti um gerð þegar fram líða stundir
Í ágúst voru 138 nýjar lóðir um allt land staðfestar í fasteignaskrá og fjölgar þeim um eina lóð milli mánaða. Flestar lóðir voru íbúðarhúsalóðir eða alls 37. Slíkum lóðum fækkar á milli mánaða, en í júlí var 61 íbúðarhúsalóð skráð. Auk þess voru skráðar 22 sumarhúsalóðir og 28 atvinnuhúsalóðir.
Fjöldi nýskráðra lóða eftir öllum flokkum
Myndin hér að ofan sýnir mánaðarlegar tölur um fjölda nýskráðra lóða eftir öllum flokkum. Lóðir skráðar sem annað land eða einfaldlega lóð voru 44 talsins í ágúst, en líklegast er að þessar lóðir breyti um gerð þegar fram líða stundir og verði þá skráðar sem atvinnu-, sumarhúsa- eða íbúðarlóðir.
Flestar nýskráðar íbúðarhúsalóðir í Sveitarfélaginu Árborg
Flestar nýjar íbúðarhúsalóðir voru staðfestar í Sveitarfélaginu Árborg í ágúst eða alls 11 lóðir, en flestar íbúðarhúsalóðir hafa verið staðfestar þar frá áramótum eða 99 talsins. Sjö sumarhúsalóðir voru staðfestar í Grímsnes- og Grafningshreppi í ágúst, en alls hafa 75 sumarhúsalóðir verið staðfestar þar á árinu.
Þrjú ræktunarlönd voru staðfest í ágúst í Eyjafjarðarsveit og Þingeyjarsveit. Auk þess voru þrjú vegsvæði staðfest í ágúst í Dalabyggð og Múlaþingi. Vegsvæði og vegamannvirki flokkast þó ekki undir mannvirki samkvæmt mannvirkjalögum og vegsvæði fá ekki fasteignamat.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS