28. mars 2025
19. mars 2025
Vísitala leiguverðs hækkaði um 1 prósent í febrúar 2025
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Markaðsleiga hækkaði aftur á milli mánaða eftir tveggja mánaða lækkun
- Á síðustu tólf mánuðum hefur vísitala leiguverðs hækkað um 11,4 prósent, á meðan verðbólga mældist um 4,2 prósent á sama tímabili
- Raunverðshækkanir leiguverðs á ársgrundvelli hafa verið í kringum 6 prósent frá því í október í fyrra
Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu mældist 119,8 stig og hækkaði um 1 prósent á milli mánaða í febrúar eftir að hafa lækkað tvo mánuði í röð, í desember og janúar. Gildi vísitölunnar í febrúar er nú svipað og var í nóvember síðastliðnum.
Á milli febrúarmánaða 2024 og 2025 hefur vísitalan hækkað um 11,4 prósent á sama tíma og verðbólga mældist 4,2 prósent og vísitala íbúðaverðs hækkaði um 8,4 prósent. Á meðfylgjandi mynd má sjá mánaðarlega breytingu á vísitölu leiguverðs ásamt gildum hennar síðustu 12 mánuði.
Vísitala leiguverðs byggir á vegnu meðaltali leiguverðs á fermetra hjá hefðbundnum íbúðum í eigu einstaklinga og hagnaðardrifinna leigufélaga. Niðurstöður eru vegnar saman með veltu íbúða með sama herbergjafjölda á síðustu 12 mánuðum. Stuðst er við nýskráða leigusamninga síðastliðinna tveggja mánaða við útreikning vísitölunnar, svo febrúargildi hennar tekur mið af leigusamningum í janúar og febrúar.
Hægt er að nálgast upplýsingar um leigusamninga í leiguverðsjá HMS, en hana má nálgast með því að smella á þennan hlekk.
Á ársgrundvelli heldur leiguverð áfram að hækka umfram verðlag í landinu öllu, en 12 mánaða raunverðshækkun vísitölu leiguverðs nam 6,9 prósent í febrúar og hafa raunverðshækkanir leiguverðs á ársgrundvelli verið í kringum 6 prósent frá því í október í fyrra.
Vísitala leiguverðs hefur lækkað á síðustu þremur mánuðum
Hægt hefur á hækkun leiguverðs frá því í ágúst á síðasta ári, en þá lækkaði leiguverð í fyrsta skipti í langan tíma. En leiguverð lækkaði einnig milli mánaða í september, desember og janúar síðastliðnum.
Vísitala leiguverðs hefur lækkað um 0,2 prósent á síðustu þremur mánuðum að nafnvirði. Sex mánaða nafnverðshækkun hennar er hófleg eða sem samsvarar 2,3 prósentustigum sem er einungis 1,1 prósent umfram verðlag á tímabilinu.
Vísitalan hækkaði sömuleiðis minna en á sama tíma í fyrra, en hún hækkaði um 1,5 prósent á milli janúar og febrúar 2024. Því hægist á hækkunartakti vísitölunnar á ársgrundvelli, en tólf mánaða hækkun hennar fer úr 12 prósentum í janúar í 11,4 prósent í febrúar.
Mælaborð fyrir vísitölur HMS
Mælaborð fyrir vísitölur HMS um íbúða- og leiguverð er aðgengilegt á vef HMS. Þar er hægt að nálgast þróun vísitölu leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu, auk þess er hægt að nálgast eldri og sameinaðar vísitölur leiguverðs. Mælaborðið má finna á https://hms.is/gogn-og-maelabord/visitolur
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS