4. september 2024
16. apríl 2024
Niðurstöður marstalningar HMS á íbúðum í byggingu
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Framkvæmdir eru hafnar við byggingu á 9,3% færri íbúðum en á sama tíma í fyrra
- Umfang nýrra framkvæmda dregst saman um þriðjung á milli ára og fjöldi íbúða er á sama framvindustigi og þær voru fyrir ári síðan
- HMS býst við 3.020 fullbúnum íbúðum í ár og 2.768 íbúðum á næsta ári, sem myndi aðeins sinna 56% af áætlaðri íbúðaþörf
Alls voru framkvæmdir hafnar á 7.937 íbúðum um allt land í mars, samanborið við 8.683 íbúðir í september á síðasta ári og 8.791 í mars 2023. Þetta kemur fram í greiningu upp úr nýjustu íbúðatalningu HMS, sem nálgast má með því að smella á þennan hlekk.
Mesti samdrátturinn í Reykjavík og Hafnarfirði
Samkvæmt talningunni er uppbygging íbúða mest á höfuðborgarsvæðinu en þar eru 69,5% af öllum íbúðum sem eru í byggingu. Flestar íbúðir eru í byggingu í Reykjavík (2.283 íbúðir) og næstflestar eru í Hafnarfirði (1.490 íbúðir). Utan höfuðborgarsvæðisins eru flestar íbúðir í byggingu í sveitarfélaginu Árborg (474 íbúðir) og Reykjanesbæ (370 íbúðir).
Íbúðum í byggingu fækkar í flestum sveitarfélögum, en mest í Reykjavíkurborg þar sem þær voru 324 færri en í síðustu talningu, sem jafngildir 12,4% samdrætti. Í Hafnarfjarðarbæ fækkar íbúðum í byggingu næst mest, en þær voru um 115 færri en í fyrrahaust, sem jafngildir 7,2% samdrætti.
Í nokkrum sveitarfélögum fjölgaði íbúðum í byggingu hins vegar á milli talninga. Fjölgunin er mest í Akureyrarbæ, en þar nam hún 17,3% frá því í fyrrahaust, þar sem 47 fleiri íbúðir voru í byggingu. Í Mýrdalshreppi fjölgaði íbúðum í byggingu svo um 16 á milli talninga sem nemur um 64% fjölgun.
Fjöldi íbúða stendur í stað í byggingarferlinu
Alls eru 1.880 íbúðir í framkvæmdum sem standa í stað á milli talninga. Slíkum íbúðum hefur fækkað á milli talninga, en í septembertalningu HMS árið 2023 voru þær 3.929 talsins og í marstalningu HMS sama ár voru þær 3.153 talsins. Hins vegar er fjöldi þeirra enn töluverður, sem bendir til þess að byggingaraðilar séu enn að halda að sér höndum í einhverjum verkefnum.
604 íbúðir eru á sama framvindustigi og fyrir ári síðan en þær ættu að öllu jöfnu að færast á milli framvindustiga á 12 mánaðar tímabili. Flestar íbúðirnar með óbreytta framvindu eru á höfuðborgarsvæðinu þar sem þær eru samtals 413 talsins og þá helst í Hafnarfjarðarbæ þar sem þær eru 302 íbúðir. Utan höfuðborgarsvæðisins eru flestar íbúðir með óbreytta framvindu í Sveitarfélaginu Árborg þar sem þær eru 53 talsins.
Íbúðir í byggingu sinna aðeins rúmlega helmingi af íbúðaþörf
Samkvæmt spá HMS sem byggir á talningunni þá má vænta þess 3.020 íbúðir verði fullbúnar í ár og 2.768 íbúðir á næsta ári sem er fjölgun um 396 íbúðir í ár frá fyrri spá í september 2023 en fækkun um 186 íbúðir á næsta ári mv. fyrri spá.
Áætluð íbúðaþörf, samkvæmt miðspá í Mælaborði húsnæðisáætlana, nemur 4.208 íbúðum fyrir árið 2024 og 4.921 íbúð fyrir árið 2025. Þar að auki leiða búferlaflutningar Grindvíkinga til aukinnar húsnæðisþarfar á þessu ári og því næsta, en um 1.200 íbúðir eru skráðar í bænum.
HMS metur því að íbúðaþörf fyrir árin 2024 og 2025 nemi yfir 10 þúsund íbúðum, á meðan fullbúnum íbúðum muni aðeins fjölga um 5.788 talsins. Fjöldi íbúða sem stofnunin áætlar að koma á markað á þessu ári og því næsta mun því einungis fullnægja um 56 prósent af íbúðaþörf.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS