12. febrúar 2025

Stöðug fjölgun íbúa kallar á markvissa uppbyggingu íbúða í Akureyrarbæ

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Áætlað er að íbúum fjölgi um 1.147 manns á næstu 5 árum, sem er fjölgun um 5,6 prósent.
  • Fjöldi íbúða í byggingu í dag er ekki í takt við fólksfjölgun og áætlaða fjölskyldustærð í sveitarfélaginu.
  • Sveitarfélagið stefnir að úthlutun lóða fyrir 1.353 íbúðir á næstu 5 árum til að tryggja nægt framboð.

Akureyrarbær hefur staðfest endurskoðun á húsnæðisáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2025. Spáð er að íbúum sveitarfélagsins fjölgi um 2.358 manns á næstu tíu árum, sem er 11,6 prósent aukning. Til samanburðar hefur íbúum í sveitarfélaginu fjölgað um 1.169 frá árinu 2020 eða um 6 prósent og því er spá Akureyrarbæjar eilítið varfærnari en hefur raungerst síðastliðin ár.

Þörf fyr­ir tæp­lega 200 íbúð­ir á ári

Samkvæmt húsnæðisáætluninni er gert ráð fyrir að þörf verði fyrir um 195 íbúðir á ári, 980 íbúðir á næstu 5 árum og 1.946 íbúðir næstu 10 ár. Til samanburðar þá hefur fullbúnum íbúðum fjölgað að meðaltali um 137 á ári síðastliðin 5 ár.

Samkvæmt síðustu talningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar voru 248 íbúðir í byggingu í september 2024. Þessi tala er lítillega lægri en á sama tíma síðustu tvö ár. Á meðfylgjandi mynd má sjá að stór hluti þessara íbúða er á framvindustigi 4, sem þýðir að íbúðirnar eru orðnar fokheldar. Fjöldi íbúða í byggingu er ekki í takt við íbúðaþörf, það þyrftu að vera nær 400 íbúðir í byggingu til þess að mæta íbúðaþörf ef miðað er við tveggja ára byggingartíma.

Fjöl­breytt upp­bygg­ing nýrra hverfa

Akureyrarbær vinnur markvisst að fjölbreyttri uppbyggingu nýrra hverfa með því að tryggja framboð lóða fyrir einbýlishús, parhús, raðhús og fjölbýlishús í hlutföllum sem endurspegla eftirspurn hverju sinni. Sérstök áhersla er lögð á leigu- og búseturéttaríbúðir reknar án hagnaðarkröfu, sem fá skilgreindan forgang og dreifast á milli svæða. Sveitarfélagið gegnir mikilvægu hlutverki í félagslegri þjónustu á Norðurlandi og mun áfram byggja upp húsnæði tengt þeirri starfsemi í samstarfi við ríkið og önnur sveitarfélög.

Jafnframt er lögð áhersla á þéttingu byggðar, endurnýtingu lóða og vistvæna skipulagningu sem stuðlar að styttri ferðaleiðum og minni bílanotkun. Þróunin sýnir að hlutfall fjölbýlishúsa eykst á kostnað sérbýlis og er líklegt að þessi þróun muni halda áfram.

Nægt lóða­fram­boð til að mæta vax­andi íbúða­þörf

Akureyrarbær hefur nú skipulagt lóðir fyrir 2.596 íbúðir og á næstu 5 árum stefnir sveitarfélagið að því að úthluta lóðum fyrir allt að 1.353 íbúðir. Lóðaframboð ætti því að  mæta vel áætlaðri íbúðaþörf gangi úthlutunaráætlanir eftir. Sé hins vegar litið til stöðu lóðanna í skipulagi þá er umtalsverður fjöldi þeirra tilgreindur sem framtíðarsvæði, en skipulagsferlið getur verið tafsamt og því mikilvægt að skipulagsáætlanir standist svo hægt verði að byggja nýjar íbúðir svo ekki komi niður á vaxtarhorfum sveitarfélagsins.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS