11. september 2025
12. september 2025
Byrjun skólaársins setur mark sitt á leigumarkaðinn
- Alls 3.498 nýir leigusamningar tóku gildi í ágúst, þar af flestir um íbúðir á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga
- Flestir leigusamningar um námsmannaíbúðir eru á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri
- Meðalleiguverð lækkar gjarnan í ágúst en meðalfermetraverð fylgir ekki sömu árstíðarsveiflum
Alls tóku 3.498 nýir leigusamningar gildi í leiguskrá í ágúst á sama tíma og 2.890 samningar féllu úr gildi. Flestir nýir leigusamningar vörðuðu íbúðir á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga, eða um 64%.
Óhagnaðardrifin leigufélög reka meðal annars námsgarða sem leigja út íbúðir til námsmanna en leigusamningar um slíkar íbúðir taka iðulega gildi við upphaf skólaárs í ágúst og falla úr gildi undir lok skólaárs í maí. Á myndinni hér að neðan má sjá fjölda leigusamninga sem tóku gildi og féllu úr gildi eftir tegund leigusala á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.
Flestir nýjir samningar um námsmannaíbúðir á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri
Flestir leigusamningar um íbúðir á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga tóku gildi á höfuðborgarsvæðinu í ágúst en fjölgun leigusamninga um námsmannaíbúðir var sérstaklega áberandi á landsbyggðinni. Leigusamningar um námsmannaíbúðir voru einkum margir á Akureyri í ágúst en lítið er um nýja leigusamninga um námsmannaíbúðir í sveitarfélögunum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.
Námsmannaíbúðir draga niður meðalleiguverð í ágúst
Samhliða gildistöku fjölda leigusamninga um námsmannaíbúðir í ágúst lækkar meðalleiguverð gjarnan þar sem námsmannaíbúðir eru oft litlar stúdíóíbúðir og leiguverð þar af leiðandi lægra en fyrir stærri íbúðir. Meðalleiguverð á landinu öllu lækkaði til að mynda úr rúmum 229 þúsund krónum í júlí síðastliðnum niður í rúmar 184 þúsund krónur í ágústmánuði, líkt og sjá má á hægri hluta meðfylgjandi myndar þar sem rauðu punktarnir sýna gildi fyrir ágústmánuði undanfarin ár.
Meðalleiguverð á hvern fermetra fylgir aftur á móti ekki sömu árstíðarsveiflum og heildarleiguverð þar sem fermetraverð minni íbúða er almennt hærra en fermetraverð stærri íbúða, m.a. vegna minnkandi jaðarnytja og hærri byggingarkostnaðar. Meðalfermetraverð er því að jafnaði stöðugra yfir árið líkt og sjá má á vinstri hluta myndarinnar hér að ofan. Meðalfermetraverð nýrra leigusamninga á landsvísu lækkaði þó milli mánaða úr um 3.670 krónum í júlí niður í um 3.530 krónur í ágúst.