11. febrúar 2025

Samkomulag um byggingu 16 íbúða í Stykkishólmi

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Samkomulag hefur náðst milli Brákar og Búðinga ehf. um byggingu 16 íbúða í Stykkishólmi. Brák íbúðafélag mun kaupa 12 íbúðir, en 4 íbúðir verða seldar á almennum markaði. Íbúðirnar eru frá 61-95 fermetrar á stærð og er áætlað að framkvæmdir hefjist næsta sumar. Búðingar ehf. sjá um byggingu íbúðanna.

Uppbygging þessara íbúða er í samræmi við húsnæðisáætlun sveitarfélagsins og sömuleiðis í samræmi við undirritað samkomulag um aukið framboð íbúðarhúsnæðis á grundvelli rammasamnings á milli ríkis og sveitarfélaga. Verkefnið er gott dæmi um blandað samstarfsverkefni þar sem húsnæðisstuðningur hins opinbera er nýttur til þess að koma uppbyggingu íbúða utan höfuðborgarsvæðisins af stað sem verður einnig til þess að byggðar verði íbúðir fyrir almennan markað og þannig aukið framboð á íbúðum til eignar eða leigu.

„Fyrst og fremst ber að fagna fyrirhugaðri uppbyggingu í Stykkishólmi, en uppbyggingin mun koma til með að byggja enn betur undir okkar samfélag, treysta stoðir þess til lengri tíma og mæta nauðsynlegri þörf á leigumarkaði. Með þessu verkefni er sveitarfélagið einnig að sýna í verki að það sé leiðandi þátttakandi í sameiginlegu átaki ríkis og sveitarfélaga um stóraukið framboð fjölbreyttra íbúðakosta. Uppbyggingin kemur á góðum tíma þar sem hér hefur verið íbúafjölgun undanfarin ár og við horfum fram á áframhaldandi fjölgun íbúa og enn frekari uppbyggingu,“ segir Jakob Björgvin Sigríðarson Jakobsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi.

Brák íbúðafélag fékk samþykkt úthlutun á stofnframlagi fyrir þetta verkefni í úthlutun HMS árið 2023. Þessar 12 íbúðir sem Brák kaupir eru því fjármagnaðar með stofnframlagi frá ríki og sveitarfélagi ásamt sérstöku byggðarframlagi og leiguíbúðaláni frá HMS. Íbúðirnar sem Brák kaupir verða leigðar út til tekju- og eignaminni heimila.

„Það er ánægjulegt fyrir Brák íbúðafélag að koma að uppbyggingu íbúða í Stykkishólmi og fjölga þannig þeim sveitarfélögum þar sem íbúðir Brákar íbúðafélags eru staðsettar. Með fjölgun íbúða og dreifðara eignasafni er enn sterkari stoðum rennt undir rekstur og uppbyggingaráform Brákar,“ segir Einar Georgsson, framkvæmdastjóri Brákar. 

Brák íbúðafélag hses. er húsnæðissjálfseignarstofnun sem er rekin án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum aðgengi að íbúðum í langtímaleigu með því að kaupa eða byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri og viðhaldi íbúðanna. Hluthafar Brákar eru nú 34 sveitarfélög víðs vegar um landið.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS