11. febrúar 2025
11. júní 2024
Stykkishólmur undirritar samkomulag um aukna uppbyggingu íbúðarhúsnæðis
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Stykkishólmur er fjórða sveitarfélagið sem skilgreinir framlag sitt til aukins framboðs íbúðarhúsnæðis innan rammasamnings milli ríkis og sveitarfélaga
- Sveitarfélagið stefnir að því að skapa skilyrði til uppbyggingar 60 íbúða á næstu fimm árum
- Samkomulagið stefnir að því að byggðar verði 18 hagkvæmar íbúðir með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði og 5 félagslegar íbúðir
Sveitarfélagið Stykkishólmur varð í gær fjórða sveitarfélagið og það fyrsta á Vesturlandi til þess að undirrita samkomulag um aukið framboð íbúðarhúsnæðis á næstu árum á grundvelli rammasamnings á milli ríkis og sveitarfélaga. Rammasamningurinn, sem var undirritaður í júlí 2022, kveður á um að byggðar verði 35 þúsund íbúðir á landinu á tímabilinu 2023-2032.
Samkvæmt nýundirrituðu samkomulagi stefnir Stykkishólmur að því að 60 íbúðir verði byggðar í sveitarfélaginu á næstu fimm árum. Þar af er gert ráð fyrir 37 íbúðum á almennum markaði, 18 hagkvæmum íbúðum með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði og 5 félagslegum íbúðum.
Áformin eru í samræmi við endurskoðun á húsnæðisáætlun Stykkishólms, sem gerir ráð fyrir að íbúum sveitarfélagsins muni fjölga um rúmlega 100 á næstu fimm árum. Sveitarfélagið ætlar að leitast við að tryggja nægjanlegt framboð byggingarhæfra lóða í samræmi við samkomulagið og stefnir að því að úthluta byggingarhæfum lóðum fyrir 44 íbúðir í ár.
Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra, Jakob Björgvin Sigríðarson Jakobsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi og Hermann Jónasson, forstjóri HMS undirrituðu samkomulagið.
„Það er sérstaklega gleðilegt að undirrita þennan samning við Stykkishólm, en þörfin fyrir uppbyggingu húsnæðis er brýn um allt land“ segir Svandís. „Ég fagna því sérstaklega að tæplega þriðjungur þeirra íbúða sem byggðar verða í sveitarfélaginu verði hagkvæmar íbúðir með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði.”
Jakob Björgvin segir „Stykkishólmur er ört vaxandi sveitarfélag þar sem íbúum hefur verið að fjölga jafnt og þétt á síðustu árum. Fólk sækir í það góða þjónustustig sem er í Stykkishólmi, ekki síst okkar ríkulega íþrótta- og tómstundastarf og okkar rótgrónu mennta- og menningarstofnanir í bland við stórbrotna náttúrufegurð og fallegt bæjarstæði. Þá er á svæðinu áform um margvíslega atvinnuuppbyggingu sem fylgir jafnframt aukin eftirspurn eftir íbúðum. Því fagna ég sérstaklega undirritun þessa samkomulags sem miðar að því að skapa skilyrði til nauðsynlegrar uppbyggingar til að koma til móts við vaxandi íbúafjölda og áhuga fólks á að flytja til okkar. Með undirritun þessa samkomulags er sveitarfélagið einnig að sýna í verki að það vill vera leiðandi þátttakandi í sameiginlegu átaki ríkis og sveitarfélaga um að stórauka framboð fjölbreyttra íbúðakosta til að mæta nauðsynlegri íbúðaþörf, ekki síst til að allir hafi aðgengi að öruggu og góðu húsnæði með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði.“
Fylgiskjöl
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS