23. maí 2022

Nýsköpunarvikan: Lausnir á loftslagsvandanum liggja í byggingariðnaði

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Verkefni Asksins sýna hugvit og lausnir til að ná tökum á loftsloftsvandanum liggja í byggingariðnaði.

Nokkrir styrkhafar úr úthlutun Asks-mannvirkjarannsóknarsjóðs 2021 kynntu spennandi nýsköpunarverkefni innan mannvirkjageirans á morgunfundi hjá HMS þann 19. maí 2022. Fundurinn er hluti af fundarröð Nýsköpunarvikunnar.  Öflug rannsóknar- og nýsköpunarverkefni innan mannvirkjageirans gegna lykilhlutverki m.a. fyrir vistvæna mannvirkjagerð, aukin gæði bygginga og heilnæmi. Rannsóknir sýna að um byggingariðnaður ber ábyrgð á um 40% af kolefnislosun á heimsvísu. Verkefni Asksins sýna hugvit og lausnir til að ná tökum á loftsloftsvandanum liggja í byggingariðnaði.

Öflug rannsóknar- og nýsköpunarverkefni innan mannvirkjageirans gegna lykilhlutverki fyrir vistvæna mannvirkjagerð, aukin gæði bygginga og heilnæmi. Afar fjölbreytt og spennandi verkefni hlutu styrk úr Aski í fyrstu úthlutun hans. Lögð var áhersla á raka- og mygluskemmdir, byggingarefni, orkunýtingu og losun gróðurhúsalofttegunda, tækninýjungar í mannvirkjagerð ásamt gæðum og ólíkum formum íbúðarhúsnæðis.

Sjá kynningarglærur og upptöku af fundinum.

Hrafnhildur Sif Hrafnsdóttir verkefnisstjóri Asksins kynnti Ask en Askur er nýr sjóður í umsýslu HMS og eigu innviðaráðuneytisins og háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytisins. Hann veitir styrki til mannvirkjarannsókna með áherslu á aukna þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta samfélagslegum áskorunum mannvirkjagerðar.

Til úthlutunar á árinu 2021 voru 95 milljónir króna í fimm áhersluflokkum ársins 2021:

  • Raka- og mygluskemmdir
  • Byggingarefni
  • Orkunýting og losun gróðurhúsalofttegunda
  • Tækninýjungar í mannvirkjagerð sem auka framleiðni og draga úr umhverfisáhrifum
  • Gæði og ólík form íbúðarhúsnæðis

Fjörutíu aðilar sóttu um 452 milljón króna styrki. Eingöngu var hægt að verða við 21% af umbeðnum styrkjum og því er ljóst að eftirspurn er mun meiri en framboð. 

Umsóknir Asksins voru griðarlega fjölbreyttar og spennandi og bera vitni um mikla grósku í nýsköpun og mannvirkjarannsóknum. Fagráð hefði getað klárað styrkfjárhæðina með því að fullfjármagna fjögur og hálft verkefni en tók þá farsælu ákvörðun að veita mun fleiri aðilum stuðning og hvatningu á grundvelli gæðaviðmiða. Hæsti styrkur sem fagráð ákvað að veita var 8 milljónir en reglurnar leyfa styrk fyrir allt að 19 milljónum króna á hvert verkefni. Þau sautján verkefni sem varð því miður að hafna geyma einnig mjög spennandi rannsóknarefni og þetta fyrsta umsóknarferli hefur sýnt og sannað að það eru tækifæri til enn frekari sóknar í mannvirkjarannsóknum.

Rannsóknir hafa sýnt að byggingariðnaðurinn ber ábyrgð á um 40% af allri kolefnislosun á heimsvísu og getur hann spilað stórt hlutverk einn og sér í að taka á framtíðaráskorunum tengdum loftslagsmálum. En þau eru einmitt alltumlykjandi í öllum flokkum úthlutunar og eiga nánast öll verkefnin það sammerkt að hafa ávinning sem snýr að umhverfismálum á einn eða annan hátt.

Stóru samfélagslegu áskoranirnar sem iðnaðurinn stendur fram fyrir snúa líka að myglufaraldri og óheilnæmi í húsnæði sem hefur haft gríðarlegt verðmæta- og heilsutjón í för með sér. Það þarf ekki að tíunda hvað miklir hagsmunir eru í húfi að framkvæma rannsóknir þar að lútandi og auka leiðbeiningar til fagaðila og almennings.

Stykþegar Asksins spiluðu stórt hlutverk á Hönnunarmars enda er góð hönnun er mikill grundvallarþáttur fyrir lifsgæði í íbúðunum. Hönnun spilar líka stórt hlutverk varðandi dagsbirtu, hljóðvist og fagurfræði sem hefur mikil áhrif á líðan íbúa í íbúðunum. 

80% af ákvörðunum sem varða vistvæni byggingar eru teknar í hönnunarfasa þegar mannvirki er á teikniborðinu af arkitektum og verkfræðingum ásamt eigendum verkefna, þannig að hönnuðir og verkfræðingar eru mikilvægustu aðilarnir til að stuðla að vistvænni mannvirkjagerð og orkusparandi breytingum.

HMS fjármagnar hagkvæmar íbúðir með stofnframlögum og hlutdeildarlánum fyrir tekju- og eignalága, öryrkja, námsmenn og eldri borgara.  Það er þekkt staðreynd öryrkjum fjölgar mikið ár frá ári og að að stór hluti þeirra glímir við andlega vanheilsu. Því er mikilvægt að hönnun sé þannig úr garði gerð að íbúum líði vel í íbúðunum og nánasta umhverfi sé þannig úr garði gert að íbúðirnar og umhverfi þeirra auki lífsgæði okkar. Í regluverki opinberu stuðningskerfanna er kallað eftir hagkvæmri hönnun og hugvitsamlegum lausnum. Rannsóknir Asksins munu án efa styðja HMS og stjórnvöld í þróun á þessum opinberu stuðningskerfum.

Verkefni Asksins, á Nýsköpunarvikunni og á Hönnunarmars geyma hugvit og rannsóknir sem líkjast helst kraftaverkum eins og að breyta vatni í vín! Rannsóknir sem auka tiltrú okkar á að komandi kynslóðir muni geta byggt þessa jörð og að við munum ná tökum á loftslagsvandanum og þeim áskorunum sem byggingariðnaðurinn stendur frammi fyrir. Við hvetjum fagaðila og almenning að fylgjast með kynningum á verkefnum Asksins.

Sigríður Ósk Bjarnadóttir kynnti Hringrásarhús Ísland – Iceland Circle House en rannsóknarverkefnið sem hún stýrir ásamt Maríusi Jónassyni  snýr að því að vinna með forsteyptar einingar úr umhverfisvænni steypu sem hægt er að setja saman og taka í sundur síðar ef íbúðaþarfir breytast.

Í verkefninu verður reist hringrásarhús úr forsteyptum byggingareiningum sem lágmarka kolefnisspor og hámarka auðlindanýtingu en markmið er að 90% af byggingarefnum verða endurnotuð eða endurnotanleg. Markmiðið er að tryggja lágmarks úrgangsmyndun og hámarks auðlindanýtingu og stuðla að grænni nýsköpun í byggingariðnaði.

Einar Sveinbjörnsson kynnti verkefni sem miðar að því að fá fyllri upplýsingar um álag á byggingar af völdum veðurs, einkum úrkomu á vinds. Í rannsókninni er gerð greining á byggingu þar sem þekkt er að veðurálag er mjög mikið og er niðurstöðunum ætlað að bæta leiðbeiningar fyrir hönnuði við mat á veðurálagi og auka þekkingu á hita- og rakaástandi klæddra útveggja.

Paul Lukas Smelt vinnur að rannsókn á hampsteypu sem byggingarefni. Hann byggir tilraunahús á Bolungarvík með þeirri byggingartækni með það að markmiði að lækka kolefnisspor í byggingariðnaði og miðla reynsluu af hampi sem byggingarefni til annarra. Þegar efnið er notað í húsbyggingar er það byggt upp innan í, eða umhverfis burðargrind húsa til þess að móta veggi sem eru ýmist heilspartlaðir með gufugegndræpri múrhúð og/eða klæddir af.

Anna Sigríður Jóhannsdóttir kynnti rannsókn um áhrif dagsbirtu íbúðabyggð, allt frá skipulagi til innri íverurýma.  Hún rannsakar gæði dagsbirtu og nýtingu hennar á íbúðarsvæðum og magni dagsbirtu sem næst inn í íbúðarrými. Í rannsókninni varpar hún ljósi á sögulegt samhengi og framkvæmir samanburðarrannsóknir á eldri og nýrri íbúðarhúsum. Íbúðir verða aldrei vistvænar ef ekki er tekið tillit til dagsbirtu í skipulagi hverfa. Húsin verða ekki heilsusamleg ef dagsbirtan nær ekki inn í þau.

Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir fjallaði um tvö verkefni sem hún vinnur að og hlutu styrk úr Aski. Vistvæni byggingar, ending og gæði með aðferðum til að fyrirbyggja rakaskemmdir í samstarfi við Eflu hf. og Hvín ehf. Afurðir verkefnanna mynda grunn að gagnabanka, leiðbeiningar og upplýsingarit fyrir fagaðila um hvernig húsnæði og byggingar skuli metnar með tilliti til rakaskemmda, myglu og séríslenskra aðstæðna. RB - leiðbeiningarblað verður hluti af niðurstöðum. Sylgja benti á mikilvægi byggingarrannsókna fyrir framfarir í nýsköpun og frumkvöðlastarfsem og Askurinn sé mikið fagnaðarefni en ekki sé síður mikilvægt að styðja við grunnrannsóknir og brýn þörf sé á að styrkja Askinn enn frekar með fjármagni í takt við umfang byggingariðnaðarins og þau efnahagslegu og heilsufarslegu áhrif sem skemmdir og óheilnæmi byggingarkostsins hafa í för með sér.

Rósa Dögg Þorsteinsdóttir kynnti Vistbók, gagnabanka vistvænna byggingarefna á Íslandi. Vistbók verður fyrsti gagnabanki fyrir umhverfisvottaðar byggingarvörur á íslenskum markaði. Unnið er að þróun á hugbúnaði fyrir arkitekta, hönnuði, verkfræðinga, verkkaupa og hinn almenna húsbyggjanda sem einfaldar leit vistvænna byggingarvara hér á landi miðlægt í gegnum vefsíðu.

Verkefni Narfa Þorsteinssonar ber nafnið Rúststeinar og snýr að endurnýtingu, varðveislu og listrænni túlkun á niðurbrotsúrgangi sem fellur til í byggingariðnaðinum. Í því felst einnig sagnfræðileg skrásetning á niðurbroti bygginga, samtal um efnissóun, framhaldslíf niðurbrotsefna. Prófanir á efninu í innréttingar, flísar, garðhúsgögn, klæðningu o.fl.

Gísli Guðmundssson í samstarfi við Háskólann í Reykjavík kynnti verkefni sitt sem gengur út á að bæta vistvæni steinsteypu með minna sementi. Nýnæmi verkefnisins er að draga verulega úr sementsnotkun, umfram það sem þekkist hér á landi, án þess að hafa áhrif á framleiðslu, gæði og endingu. Markmiðið er að framleiða steypu með allt að helmingi minni smenti en í venjulegri C30 steypu. RB - leiðbeiningarblað verður hluti af niðurstöðum.

Haraldur Ingvarsson kynnti tilraunahús FIBRA sem er frumleg nýsköpunarhugmynd þar sem unnið er með byggingarefnið trefjaplast, sem notað hefur verið í bátasmíði í húsbyggingar, svokölluð FIBRA hús. Mikil þróunarvinna hefur átt sér stað og umsækjendur hafa fengið byggingarleyfi á húsið sem er í byggingu í Grindavik.

 

Frekari upplýsingar um verkefni Asksins eru á www.hms.is/askur

Úthlutun síðasta árs

Nánari upplýsingar veitir: Hrafnhildur Sif Hrafndóttir, verkefnisstjóri Asks í síma 8989123.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS