23. október 2025
24. október 2025
Á bilinu 10.500-16.400 íbúðir ekki nýttar til varanlegrar búsetu
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Sé eingöngu litið til íbúða í þéttbýli má gera ráð fyrir að á bilinu 8.800 - 13.500 íbúðir séu ekki nýttar til varanlegrar búsetu á landinu öllu
- Tæplega fimm þúsund íbúðir gætu verið vannýttar í Reykjavík, en á Akureyri og í Kópavogi gætu þær verið rúmlega þúsund.
- Meirihluti vannýttra íbúða eru í eigu einstaklinga en um 45 prósent þeirra eru í eigu lögaðila
Um það bil 16.400 íbúðir á landinu öllu voru án lögheimilisskráningar og ekki skráðar í útleigu í leiguskrá HMS nú í byrjun októbermánaðar. Þá voru rétt tæplega 6 þúsund fjölskyldur sem skorti lögheimilisskráningu á tiltekna íbúð. Það er því varlegt mat HMS að á bilinu 10.500-16.400 íbúðir á landsvísu hafi ekki verið nýttar til varanlegrar búsetu í október, sem samsvarar á bilinu 6-10% af öllum fullbúnum íbúðum.
Þetta kemur fram í greiningu sem birtist í nýútkominni mánaðarskýrslu HMS.
Flestar íbúðanna í Reykjavík en einnig margar á Akureyri og Kópavogi
Sé eingöngu litið til íbúða í þéttbýli má gera ráð fyrir að á bilinu 8.800 - 13.500 íbúðir séu ekki nýttar til varanlegrar búsetu á landinu öllu og eru flestar þeirra í Reykjavík, eða á bilinu 2.815 – 4.790 íbúðir. Þá eru á bilinu 898 – 1.027 vannýttar íbúðir á Akureyri og á bilinu 676-1.084 í Kópavogi. Í Garðabæ eru á bilinu 362-442 íbúðir sem ekki eru nýttar til varanlegrar búsetu og í Hafnarfirði eru þær á bilinu 353-783. Í Mosfellsbæ eru færri íbúðir vannýttar í þéttbýli, eða á bilinu 65-213.
Sé litið til landsbyggðarinnar eru flestar vannýttar íbúðir í þéttbýli í Sveitarfélaginu Árborg, Fjallabyggð og Vestmannaeyjabæ, eða á bilinu 190-370 íbúðir í hverju sveitarfélagi. Hlutfallslega samsvarar það á bilinu 6-23% fullbúinna íbúða í þéttbýli í hverju sveitarfélagi fyrir sig.
Á myndinni hér að neðan má sjá hlutfall íbúða í þéttbýli sem ekki eru nýttar til varanlegrar búsetu eftir landshlutum. Efri mörkin gera ráð fyrir að engar fjölskyldur sem ekki hafa lögheimili skráð á íbúð séu búsettar í vannýttum íbúðum. Í neðri mörkunum er hins vegar ein íbúð áætluð á hverja fjölskyldu sem ekki hefur lögheimili skráð á íbúð.
Lögaðilar eiga margar vannýttar íbúðir í nágrenni höfuðborgarsvæðisins
Meirihluti þeirra íbúða í þéttbýli sem ekki eru nýttar til varanlegrar búsetu er í eigu einstaklinga, eða 55% allra vannýttra íbúða á landinu. Um 41% vannýttra íbúða eru í eigu lögaðila, þar af 8% í eigu leigufélaga og 2% í eigu stéttarfélaga. Um 4% íbúðanna eru í eigu hins opinbera, eða 3% í eigu sveitarfélaga og 1% í eigu ríkisins. Á myndinni hér að neðan má sjá skiptingu eignarhalds vannýttra íbúða eftir svæðum.
Allt að fimmtungur vannýttra íbúða í nýbyggingum
Til íbúða sem nýtast ekki til varanlegrar búsetu teljast einnig óseldar íbúðir í nýbyggingum. Líkt og lesa má í mánaðarskýrslunni voru alls um 2.150 nýjar íbúðir auglýstar til sölu á landinu öllu í upphafi októbermánaðar og því má gera ráð fyrir að um 13-21% vannýttra íbúða á landsvísu séu í nýbyggingum.
HMS stefnir á að meta fjölda íbúða sem ekki eru nýttar til varanlegrar búsetu með reglubundnum hætti. Þetta er í annað sinn sem slíkar upplýsingar eru birtar, en sambærilegar upplýsingar voru fyrst birtar í mánaðarskýrslu HMS í desember 2024. Það athugist að talningaraðferðir hafa breyst lítillega frá síðustu birtingu og því ber að gæta varúðar þegar nýjar tölur eru bornar saman við fyrri niðurstöður.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS




