23. október 2025
23. október 2025
Mánaðarskýrsla HMS október 2025
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Mánaðarskýrsla HMS fyrir október 2025 er komin út, en hana má nálgast með því að smella á hnappinn hér fyrir neðan. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að fasteignamarkaðurinn er kaupendum í vil þessa stundina, að mati fasteignasala. Leigumarkaðurinn er stærri en fyrri búsetukannanir HMS hafa gefið til kynna, þar sem illa hefur gengið að ná til aðfluttra
Mánaðarskýrsla HMS
Myndir að baki mánaðarskýrslu
Á bilinu 10.500-16.400 íbúðir eru ekki nýttar til varanlegrar búsetu
Fasteignamarkaðurinn er kaupendum í vil þessa stundina, að mati fasteignasala. Kaupsamningum hefur ekki fækkað að ráði á höfuðborgarsvæðinu, en nýjum íbúðum á sölu hefur fjölgað hratt á sama tíma og sala þeirra hefur verið dræm. Birgðatími íbúða í nágrenni höfuðborgarsvæðisins hefur ekki mælst lengri frá því að mælingar hófust árið 2018.
Á bilinu 10.500 til 16.400 íbúðir eru ekki nýttar til varanlegrar búsetu hér á landi í október, samkvæmt varfærnu mati HMS. Tæplega fimm þúsund íbúðir gætu verið vannýttar í Reykjavík, en á Akureyri og í Kópavogi gætu þær verið rúmlega þúsund.
Markaðsleiga hefur hækkað hraðar en önnur leiga
Leigumarkaðurinn er stærri en fyrri búsetukannanir HMS hafa gefið til kynna, þar sem illa hefur gengið að ná til aðfluttra íbúa. Niðurstöður nýrrar könnunar á vegum HMS og stéttarfélaganna Eflingar, VR og Einingar-Iðju benda til þess að um 28% fullorðinna einstaklinga séu á leigumarkaði hér á landi, en ekki 15% eins og áður var talið.
Leigusamningum í nýjum íbúðum hefur ekki fjölgað á síðustu mánuðum, þrátt fyrir umfjöllun um að byggingaraðilar hafi tekið nýjar íbúðir af sölu og sett á leigumarkað. Það sem af er ári hafa um 8,5% nýskráðra leigusamninga verið um íbúðir í nýbyggingum.
Lengri tíma tekur að safna fyrir útborgun nú en áður
Á lánamarkaði var hrein ný lántaka heimila minni að umfangi í ágúst heldur en í júlí, sem var mesti útlánamánuðurinn í fjögur ár. Ásókn í óverðtryggð lán hefur aukist og voru slík lán með föstum vöxtum álíka vinsæl og verðtryggð lán með föstum vöxtum á fyrri hluta þessa árs.
Greining HMS á sparnaðargetu heimila bendir til þess að það geti tekið 11 ár fyrir einstaklinga og 18 ár fyrir einstæða foreldra að safna fyrir útborgun á lítilli íbúð á höfuðborgarsvæðinu. Skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar til íbúðakaupa getur hins vegar stytt sparnaðartímann um 4 ár hjá einstaklingum og 10 ár hjá einstæðum foreldrum.
Ný mannfjöldaspá dregur úr íbúðaþörf til lengri tíma
Á byggingarmarkaði hefur íbúðum í byggingu fjölgað samkvæmt nýrri talningu HMS, sér í lagi vegna íbúða sem taldar eru fullbúnar en hafa ekki enn verið teknar í notkun. Búist er við að rúmlega þrjú þúsund íbúðir verði fullbúnar á landinu í ár, en greining HMS á íbúðaþörf sem byggir á nýrri mannfjöldaspá Hagstofu bendir til þess að byggja þurfi um fjögur þúsund íbúðir á hverju ári til ársins 2050.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS