21. janúar 2025
23. ágúst 2022
Mánaðarskýrsla hagdeildar HMS fyrir ágúst 2022
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Umsvif á íbúðamarkaði fara minnkandi en kaupsamningar um íbúðahúsnæði hafa ekki verið færri síðan í apríl 2015 ef miðað er við 6 mánaða hlaupandi meðaltal.
- Verð á íbúðum í fjölbýli hækkaði aðeins um 0,5% í júní á höfuðborgarsvæðinu en þar á undan höfðu komið 5 mánuðir í röð þar sem mánaðarleg hækkun var á bilinu 2,4-3,2%.
- Í júní seldust 53,3% íbúða á landinu öllu yfir ásettu verði samanborið við 50,3% íbúða í maí en hæst fór hlutfallið í 54,3% í apríl.
- Í júní styttist meðalsölutími íbúða á höfuðborgarsvæðinu úr 45,9 dögum í 41,9. Á landsbyggðinni styttist hann úr 66,0 í 57,0 en í báðum tilfellum var hann þó ívið lengri en í apríl.
- Árshækkun leiguverð mælist 9,6% á höfuðborgarsvæðinu í júní miðað við vísitölu leiguverðs en hafði mælst 9,0% í maí.
- Meðalfjárhæð greiddrar leigu var 207.200 kr. í júní miðað við þinglýsta leigusamninga en í júní fyrir ári var hún 197.500 kr.
Fyrstu merki kólnunar á fasteignamarkaði
Í síðustu mánaðarskýrslu var fjallað um að líklega væri fasteignamarkaðurinn að fara að kólna á næstu misserum, meðal annars vegna tveggja prósentustiga hækkunar á stýrivöxtum í maí og júní og strangari lánaskilyrða sem sett voru af Seðlabankanum í lok júní. Þótt helstu mælikvarðar um fasteignamarkaðinn eru ekki ótvíræðir eru þó líklega komin fram fyrstu merki um kólnun á fasteignamarkaði.
Eitt stærsta merkið um viðsnúning fæst þegar rýnt er í framboð íbúða. Á höfuðborgarsvæðinu fór framboð íbúða minnkandi út júlímánuð þvert á væntingar en í ágúst hefur það hins vegar aukist hratt eða úr 700 í 905 á aðeins 20 dögum. Athygli vekur þó að yfir júlímánuð hafði framboðið dregist saman úr ríflega 800 í 700. Frá því að botninum var náð í byrjun febrúar hefur framboðið á höfuðborgarsvæðinu þó rúmlega tvöfaldast. Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins hefur framboðið vaxið nánast stöðugt frá því í apríl og hefur rúmlega tvöfaldast síðan þá.
Þótt íbúðum sem seljist yfir ásettu verði hafi ekki fækkað mjög mikið þá hefur orðið talsverð fækkun á íbúðum sem seljast 5% eða meira yfir ásettu verði. Þannig seldust 20,8% íbúða í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu svo hátt yfir ásettu verði í júní samanborið við 34,6% í apríl. Á meðal sérbýla var hlutfallið 17,4% samanborið við 25,3% í maí. Það gefur til kynna að íbúðir seljist síður mikið yfir ásettu verði.
Mánaðarskýrsla ágúst 2022
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS