10. nóvember 2025
18. september 2025
Mánaðarskýrsla HMS september 2025
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Mánaðarskýrsla HMS fyrir september 2025 er komin út, en hana má nálgast með því að smella á hnappinn hér fyrir neðan. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að á fasteignamarkaði lækkaði íbúðaverð að raunvirði á síðustu tólf mánuðum, en mikið framboð íbúða á sölu heldur aftur af verðhækkunum. Í skýrslunni kemur einnig fram að á lánamarkaði hafa hrein ný íbúðalán ekki verið hærri í fjögur ár.
Mánaðarskýrsla HMS
Myndir að baki mánaðarskýrslu
Yfir þúsund kaupsamningar um íbúðarhúsnæði í júlí
Á fasteignamarkaði var meira keypt af notuðum íbúðum í júlímánuði heldur en á fyrri árum, á meðan nýjar íbúðir seldust verr. Fasteignaverð hefur lækkað að raunvirði á síðustu tólf mánuðum, en mikið framboð íbúða á sölu heldur aftur af verðhækkunum.
Um 5.000 íbúðir voru til sölu í upphafi septembermánaðar og hafði sá fjöldi nær tvöfaldast frá upphafi árs 2023. Nýjar íbúðir á sölu voru um 2.000 í byrjun mánaðarins, en um helmingur þeirra hafði verið óseldur í meira en 200 daga.
Ísland og Nýja-Sjáland hafa bæði glímt við afleiðingar mikillar fólksfjölgunar á síðustu 10 árum auk skarpra vaxtalækkana á tímum heimsfaraldursins. Á allra síðustu árum hefur íbúðaverð hins vegar lækkað á Nýja-Sjálandi á meðan það hefur haldið áfram að hækka hérlendis, að öllum líkindum vegna meiri fólksfjölgunar, mikilla launahækkana og verðtryggingar.
Brunavarnir í leiguhúsnæði lakari
Á leigumarkaði eru erlendir ólíklegri til að þiggja húsnæðisbætur en Íslendingar. Leigjendur sem fá húsnæðisbætur og koma erlendis frá búa sömuleiðis fleiri á hverju heimili og fá því að jafnaði lægri húsnæðisbætur á hvern heimilismann.
Brunavarnir í leiguhúsnæði reynast mun lakari en í eigin húsnæði, samkvæmt mælingu HMS á stöðu leigjenda. Mikill meirihluti leiguíbúða hefur reykskynjara, en minna en helmingur þeirra hefur auðrataða og greiðfæra neyðarútganga.
Hrein ný íbúðalán til heimila ekki hærri í fjögur ár
Á lánamarkaði hafa hrein ný íbúðalán til heimila ekki verið hærri í fjögur ár. Í nýliðnum júlímánuði voru ný óverðtryggð íbúðalán til heimila meiri en upp- og umframgreiðslur, í fyrsta skipti frá því í janúar 2023.
Starfsfólki tekið að fækka í byggingariðnaði samhliða minnkandi veltu
Á byggingarmarkaði er starfsfólki í byggingariðnaði tekið að fækka og velta hefur dregist saman að raunvirði eftir fjögurra ára vöxt í greininni. Erlendum starfsmönnum hefur fækkað um 135, en starfsmönnum í byggingargeiranum með íslenskan bakgrunn hefur fjölgað lítillega á sama tíma.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS




