20. nóvember 2025
20. nóvember 2025
Mánaðarskýrsla HMS nóvember 2025
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Mánaðarskýrsla HMS fyrir nóvember 2025 er komin út, en hana má nálgast með því að smella á hnappinn hér fyrir neðan. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að fasteignamarkaðurinn var líflegur í október þrátt fyrir óvissu á lánamarkaði. Á leigumarkaði tekur gildi almenn skráningarskylda leigusamninga um áramótin sem mun bæta yfirsýn á leigumarkaðnum.
Mánaðarskýrsla HMS
Myndir að baki mánaðarskýrslu
Lögaðilar umsvifameiri á fasteignamarkaði í október
Fasteignamarkaðurinn var líflegur í október þrátt fyrir óvissu á lánamarkaði. Margar eignir voru teknar af söluskrá og yfir þúsund kaupsamningum var þinglýst vegna viðskipta í október. Fjölgun kaupsamninga milli mánaða virðist að mestu leyti drifin áfram af lögaðilum sem kaupendum. Kaupsamningar dagsettir í seinni hluta október gætu þó varðað viðskipti sem áttu sér stað áður en vaxtadómur Hæstaréttar féll.
Niðurstöður mánaðarlegrar könnunar HMS meðal fasteignasala gefa til kynna að virkni markaðarins sé lítil miðað við árstíma í nóvember og að verðþrýstingur fari minnkandi. Vísitala íbúðaverðs stendur í stað og tólf mánaða nafnverðshækkun hefur verið í takt við verðbólgu undanfarna mánuði. Vísbendingar eru um að fyrstu kaupendum hafi fækkað á síðustu vikum, en greina má áberandi fjölgun meðal fasteignasala sem miðluðu ekki fasteignum til fyrstu kaupenda í mánuðinum.
Hægist á hækkun greiðslubyrði lána og leiguverðs
Á leigumarkaði tekur gildi almenn skráningarskylda leigusamninga um áramótin sem mun bæta þekkingu og yfirsýn á leigumarkaðnum hér á landi. Hægt hefur á leiguverðshækkunum undanfarið ár samhliða minni hækkun á greiðslubyrði húsnæðislána, en sterk fylgni hefur verið á milli leiguverðs og greiðslubyrðar undanfarinn áratug.
Innleiðing CRR III hefur áhrif á íbúðalán og framkvæmdalán
Lánamarkaðurinn einkenndist af mikilli óvissu í seinni hluta október þegar Hæstiréttur kvað upp dóm í vaxtamálinu, en í kjölfarið gerðu flestar lánastofnanir hlé á afgreiðslu íbúðalána með breytilegum vöxtum. Bankarnir hafa nú kynnt breytt lánaframboð og uppfærðar vaxtatöflur sem eru til þess fallnar að rýra val og lánskjör lántakenda.
Innleiðing CRR III-reglugerðarinnar mun hafa áhrif á eiginfjárbindingu banka og þar af leiðandi útlánavexti á byggingar- og íbúðalánum. Með reglugerðinni gætu óhagnaðardrifin leigufélög fengið betri kjör en aðrir byggingaraðilar, auk þess sem vaxtakjör íbúðakaupenda með lítið eigið fé gætu versnað.
Vinnuaflseftirspurn mest í byggingariðnaði
Á byggingarmarkaði er útlit fyrir að uppbygging nái að halda í við fólksfjölgun til skamms tíma, en vinna þarf upp uppsafnaða íbúðaskuld undanfarinna ára. Mestur skortur er á starfsfólki í byggingariðnaði og lántaka í byggingargeiranum jókst á milli ára á meðan hún dróst saman í öðrum greinum.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS




